06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

73. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. var í fyrra flutt að minni tilhlutan sem stjfrv., en náði þá ekki fram að ganga, að því að ég tel eingöngu vegna þess, að þm. höfðu ekki áttað sig á, að það er meiri trygging fyrir góðri afgreiðslu þeirra mála, sem hér um ræðir, ef menntmrn. fjallar um þau, heldur en samgmrn. Menntmrn. fjallar um flesta skóla landsins. Þar eru þeir menn saman komnir, sem mesta þekkingu og æfingu hafa af stjórnarráðsstarfsmönnum til þess að fara með þessi mál, og það er mun óhægara fyrir ráðherra, hver sem hann er, ef hann þarf að leita ráða hjá mönnum um þessi efni, sem eru óvanir meðferð skólamála, þekkja ekki til kennara eða annars þess, sem ráða þarf fram úr, heldur en ef meðferð málanna er öll sameinuð í einu ráðuneyti. Samfara þessu getur svo vel farið það, að heppilegra þyki að skipta menntmrn. milli margra ráðherra, eins og öðrum ráðuneytum hefur verið skipt. Það er mál fyrir sig hvort slíkt sé æskilegt eða ekki. Það er ekkert óæskilegra um menntmrn. en önnur rn., sem þannig hefur verið farið að með. En enginn vafi er á því samkvæmt þeirri reynslu, sem ég hef, að heppilegast er að sameina skólamál að sem mestu leyti undir meðferð menntmrn.

Hér er um að ræða málefni, sem er algerlega ópólitískt í eðli og eingöngu hagkvæmnismál og ég flutti á sínum tíma vegna fenginnar reynslu. Og ég taldi rétt, einmitt til þess að undirstrika það, að málið er ópólitískt í eðli, að flytja það aftur, eftir að ég var kominn úr stjórninni, vegna þess að mig grunaði undir niðri, að það væri einhver samblástur þeirra vinstri flokka, sem síðan hafa náð saman, sem birtist einna fyrst í því að fella þetta litla frv. í fyrra. En nú geri ég ráð fyrir því, að dómgreind þeirra sé orðin óháðari varðandi smáatriðin, eftir að þeir hafa fengið sinni miklu sameiningarþrá fullnægt, og fáist þess vegna til þess að skoða þetta málefni skynsamlega. Í því trausti er málið flutt. Vænti ég, að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.