22.11.1956
Efri deild: 16. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

8. mál, lán til togarakaupafyrir bæjarútgerð Reykjavíkur

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Vorið 1955 gerðust þau válegu tíðindi, að einn af átta togurum Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Jón Baldvinsson, strandaði og eyðilagðist með öllu. Það var því ákveðið að láta smíða nýjan togara í stað hans, og áður en samningar yrðu gerðir um það mál við skipasmíðastöð, þótti nauðsynlegt að fá ríkisábyrgð fyrir láni í þessu skyni. Þessi togari, sem verður smíðaður í þýzkri skipasmíðastöð, á að kosta tæpar 13 millj. kr. Það fékkst samþykki hlutaðeigandi aðila til þess, að tryggingarfé togarans Jóns Baldvinssonar yrði notað til greiðslu á kostnaðarverði hins nýja togara, svo langt sem það næði. Til viðbótar þurfti ríkisábyrgð fyrir 5 millj. og 100 þús. kr. láni, sem ríkisstj. féllst á að gefa út brbl. um 18. júní s. 1. Frv., sem hér liggur fyrir, er um staðfestingu á þessum brbl. um þá ríkisábyrgð.

Það hefur verið gengið frá samningum um smíði á þessum togara, sem mun verða stærsti togari Íslendinga og á að verða fullbúinn snemma á árinu 1958.

Fjhn. þessarar d. fékk málið til meðferðar og leggur einróma til, að frv. verði samþykkt.