21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

114. mál, hæstiréttur

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og þá hv. þdm. sjálfsagt rekur minni til, sem lengst hafa átt sæti á Alþingi, urðu fyrir um það bil aldarfjórðungi mikil stjórnmálaátök um skipan hæstaréttar. Þáverandi forustumaður Framsfl. beitti sér mjög fyrir því, að breyting yrði gerð á þágildandi lögum um skipan hæstaréttar í þá átt, að dómsmálaráðherrar fengju óskorað vald í þeim efnum, en úr áhrifum hæstaréttar á skipan nýrra manna í dómaraembætti yrði dregið eða þau jafnvel að engu ger. Að till. þessum stóð Framsfl. þá að mestu óskiptur, en einn þm. flokksins, Jón heitinn í Stóradal, skarst þó úr leik. Fyrir hina virðingarverðu afstöðu þess merka og mikilhæfa manns töfðust þessar fyrirætlanir þó mjög og náðu aldrei fram að ganga í þeirri mynd, sem upphaflega hafði verið ráð fyrir gert.

Með lögunum um hæstarétt frá 1935, sem urðu niðurstaða hinna langvinnu átaka um þetta mál, var þó m.a. gerð sú breyting á ákvæðum um skipun hæstaréttardómara, að afnumin var heimild til þess að heyja hið svonefnda dómarapróf og þannig rýrð áhrif hæstaréttar á skipan nýrra dómara. Tel ég, að með því hafi verið stigið skref í ranga átt, þar sem engin ný ákvæði voru sett, er tryggðu sem hlutlausasta skipun í þessi embætti.

Það er rétt að taka það fram í upphafi máls míns til þess að fyrirbyggja misskilning, að tilgangur frv. þessa er ekki sá að lýsa vantrausti á núverandi hæstv. dómsmrh. persónulega. Að vísu mundi ég reiðubúinn að styðja vantraust á hann vegna annarra málefna en þess, sem hér liggur fyrir. En til þess, að þetta frv. er borið fram, liggja aðrar og dýpri ástæður en þær, að treyst sé eða vantreyst einstökum mönnum, er gegna embætti dómsmálaráðherra hverju sinni.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., er það borið fram til þess að sporna gegn yfirvofandi hættu á því, að mínu áliti, að réttarfar hér á landi muni mótast af pólitískum dómstólum. Margir hv. þm. munu hrista höfuðið yfir slíkri staðhæfingu og telja hana jafnvel firru, því að enginn óski eftir slíkri þróun né hafi í huga að stuðla að henni. Ég tel ekki heldur í sjálfu sér ástæðu til þess að draga það í efa, að allir hv. þm. séu sammála um það, að slík þróun væri miður æskileg. En samt sem áður tel ég, að hún sé óhjákvæmileg með tilliti til þeirrar almennu þjóðfélagslegu þróunar, er telja má líklegasta hér á landi næstu ár, og verður það meginefni máls míns hér að rökstyðja þá skoðun.

Þótt pólitískir dómstólar, þar sem dómarar eru ekki valdir með tillíti til lögfræðilegrar þekkingar og hæfni til þess að dæma af réttsýni í hverju máli, heldur með tilliti til stjórnmálaskoðana og. einmitt í trausti þess, að þeir dæmi hlutdrægt, séu fyrirbrigði algerlega andstætt ríkjandi réttarhugmyndum almennings hér á landi og í okkar vestrænu nágrannalöndum, þá er sú réttarskipan engan veginn óþekkt á okkar dögum. Nærtækasta og þekktasta dæmið um slíkt réttarfar er kommúnistaríkin, Sovétríkin og leppríki þeirra, hin svonefndu alþýðulýðveldi. Þar er dómsvaldið í höndum hinna svonefndu alþýðudómstóla, sem að mestu eru skipaðir ólöglærðum mönnum. En þótt lögfræðimenntunar sé ekki krafizt af dómurum í þeim löndum, þá er í stað þess krafizt af þeim pólitískrar menntunar, enda eru þeir kosnir til starfans, en kosning þýðir, að þeir eru skipaðir af kommúnistaflokknum. Dómarar í slíkum alþýðudómstólum eru ekki á föstum launum, heldur fá þeir dagpeninga, og gildir um þær greiðslur sú einkennilega regla, að þær eru mismunandi eftir þeim störfum. er dómararnir að öðru leyti stunda, þannig að dagpeningarnir mega aldrei vera hærri en nemur því kaupi, sem dómarinn mundi á sama tíma hafa unnið fyrir í sínu venjulega starfi.

Mun þetta gert til tryggingar því, að menn sækist ekki eftir því að gera dómarastörfin að aðalatvinnu, þannig að ekki komist á fót sérstök lögfræðingastétt.

Pólitískir dómstólar einkenndu og réttarfarið á valdaárum nazista í Þýzkalandi.

Nú þarfnast það sérstakra skýringa við, hvers vegna réttarfarið var svo svipað undir vinstri stjórn kommúnista í Sovétríkjunum og hægri stjórn nazista í Þýzkalandi. Almennt er gjarnan litið svo á, að hér hafi verið um andstæðu að ræða. En hvað var þá sameiginlegt með stjórnarháttum nazista og kommúnista, sem gerir það að verkum, að svipað réttarfar þróaðist hjá báðum? Svarið er, að það, sem nazistum og kommúnistum var sameiginlegt, þannig að pólitískir dómstólar einkenndu réttarfarið hjá báðum, var hin opinbera skipulagning og stjórn efnahagsmálanna eða áætlunarbúskapurinn, eins og það hefur verið kallað. Þar sem efnahagsmálunum er stjórnað með opinberri löggjöf, svo sem með verðlagseftirliti, húsaleigulöggjöf, innflutningshöftum o.s.frv., er óhjákvæmilegt að styðjast við pólitíska dómstóla, ef ekki á að skapast algert efnahagsöngþveiti, og skal það rökstutt nánar.

Ég las það einhvern tíma í amerísku landbúnaðartímariti, að sá væri munurinn á afstöðu almennings til umferðarlöggjafarinnar t.d. annars vegar og löggjafar um efnahagsmál hins vegar, að gerðust menn brotlegir við umferðarlöggjöfina, kölluðu sjónarvottar: Gripið þið þrjótinn. En gerist menn brotlegir við löggjöf um verðlagsmál, þannig að menn t.d. kaupi vörur á svörtum markaði, þá er viðkomandi spurður: Hvar fékkstu þetta? Hvað kostaði það? Get ég fengið það líka? — Hagkerfi séreignaskipulags og frjálsra viðskipta hefur þróazt samhliða löggjöf, sem byggist á mannréttindahugsjóninni og telur það eitt helzta hlutverk sitt að vernda persónufrelsi einstaklinganna og eignarréttinn, og í rauninni er þetta tvennt svo samtvinnað, að annað getur vart hugsazt án hins. Löggjafinn hlutast ekki til um það, hvernig menn ráðstafa tekjum sínum og eignum að öðru leyti en því, að borgurunum eru settar almennar reglur um þetta með tilliti til öryggis annarra þjóðfélagsborgara. Þessar almennu lagareglur byggjast fyrst og fremst á réttarmeðvitund almennings, og framkvæmd þeirra styðst einkum við hana. Það, sem heldur mönnum frá því að fremja morð, þjófnað, svik o.s.frv., er samvizka þeirra, ekki óttinn við refsingu. Þá, sem gerast brotlegir við slíkar almennar lagareglur, sem studdar eru af réttarmeðvitund almennings, má í rauninni skoða sem andlega sjúklinga og refsingu þá, sem þeir eru dæmdir í, sem læknisaðgerð. Allt öðru máli gegnir um þá löggjöf, sem er grundvöllur hafta og áætlunarbúskapar, svo sem löggjöf um verðlagsmál, gjaldeyrisverzlun, skattamál og húsaleigu, svo að dæmi séu nefnd. Slík löggjöf grundvallast ekki á mannréttindahugsjóninni. heldur er hún í beinni andstöðu við hana. Enginn finnur til samvizkubits, þótt hann hafi gerzt brotlegur við slíka löggjöf, heldur er það eina, sem heldur brotum gegn slíkri löggjöf í skefjum, ótti fólksins við refsingar.

Í þessu felst skýringin á því, að saman fer að jafnaði hagkerfi áætlunar- og haftabúskapar og réttarfar ógnarstjórnar og alþýðudómstóla. Eins og löggjöf, grundvölluð á mannréttindahugsjóninni, samsvarar séreignaskipulaginu, er ógnarstjórn og alþýðudómstólar skilyrði fyrir því, að hafta- og áætlunarbúskapur sé framkvæmanlegur. Réttarfar nazista og kommúnista var ekki sprottið af mannvonzku Hitlers og Stalíns, heldur hinu, að án slíks réttarfars hefði hagskipulag nazista og kommúnista verið óframkvæmanlegt.

Ég skal nú hætta almennum fræðilegum hugleiðingum um vandamál erlendra þjóða í þessu sambandi, en víkja að þeirri hættu, sem ég tel á því, að þróun efnahagsmálanna hérlendis muni leiða til sams konar þróunar réttarfarsins og í öðrum löndum, þar sem áætlunar- og haftabúskapur hefur ríkt. Það þarf nefnilega ekki að fara austur til Rússlands til þess að kynnast alþýðudómstólum; til þeirra hefur einnig myndazt vísir hér, og hann er í örum vexti.

Ég minnist þess í þessu sambandi, að þegar ég fyrir mörgum árum var starfsmaður verðlagseftirlitsins, var mikið um það talað þar og ég held jafnvel ekki ágreiningur um það meðal manna, sem höfðu mismunandi pólitískar skoðanir, að hinir almennu dómstólar væru ónothæfir sem tæki til þess að dæma verðlagsbrot. Dómararnir gætu að jafnaði varla fengið það inn í höfuð sitt, að brot á verðlagsákvæðum væru refsivert athæfi, og notuðu jafnan ýtrustu heimildir til þess að ákveða sektir fyrir slík brot sem lægstar. Með tilliti til þeirra sekta, sem ákveðnar eru fyrir margvíslegan verknað, sem svívirðilegan má telja að almenningsáliti, er slík skoðun líka eðlileg, þar sem það er eingöngu óttinn við refsiaðgerðir, en ekki samvizka fólksins, sem aftrar mönnum frá því að brjóta löggjöf, sem sett er um efnahagsmál, svo sem verðlagsákvæði, ákvæði um gjaldeyrisverzlun o.s.frv. Verða viðurlög gegn slíkum brotum að vera miklu þyngri en viðurlög gegn almennum lögbrotum, ef löggjöfin á að ná tilgangi sínum. Afleiðingin af þessu verður sú, að refsilöggjöfin í heild verður óskapnaður, þar sem æpandi misræmi verður milli þeirra refsinga, sem við því liggja að brjóta efnahagslöggjöfina, og refsinga við almennum afbrotum.

Ég vil leyfa mér að nefna sem dæmi í þessu efni löggjöf þá, sem nýlega hefur verið samþykkt hér á Alþ. um bann við því að taka íbúðarhúsnæði til annarra nota. Samkvæmt þessari löggjöf er heimilað að dæma t.d. lækni, ljósmyndara eða skósmið í allt að því 1 millj. kr. sekt, ef þeir gerðust sekir um að taka eigin húsnæði, sem þeir áður hafa leigt öðrum til íbúðar, undir vinnustofur eða biðstofur í þágu atvinnurekstrar síns. Er að mínu áliti athyglisvert að gera sér grein fyrir því, hversu lengi þessir menn væru að afplána sektina með fangelsisdómi, ef þeir hefðu ekki fé til greiðslu hennar, og bera það saman við þá fangelsisvist, sem menn eru dæmdir til fyrir glæpi samkvæmt hegningarlögunum.

Samkvæmt upplýsingum, er ég hef fengið um afplánun sekta hér í Reykjavík, tekur það 100 daga að afplána 20 þús. kr. sekt, eða menn eru látnir afplána 200 kr. á dag. Ef sömu reglu væri fylgt, tekur það um það bil 14 ár að afplána milljónarsektina, eða svipaða fangelsisvist og menn munu dæmdir til fyrir allra stærstu glæpi, eins og yfirlögð morð. Að vísu mundi framkvæmd slíkrar refsingar sennilega ekki verða svo ströng sem hér er gert ráð fyrir, því að í 54. gr. hegningarl. er tekið fram, að ekki megi láta menn afplána sektir, sem menn eru dæmdir í samkvæmt þeim l., á lengri tíma en einu ári og skuli þess hámarks gætt við afplánun annarra sekta. Þess ber þó að gæta, að í hegningarl. er ekki heimilað að dæma í hærri sektir en 30 þús. kr., og verður það þá lögskýringaratriði, hvort afplánunartími á ekki að lengjast, ef menn eru dæmdir í miklu hærri sektir en heimilað er samkv. hegningarl. Sem ólöglærður maður skal ég ekki fara út í það atriði, en eðlileg þætti mér sú túlkun, að séu menn dæmdir í miklu þyngri fésektir en hegningarl. heimila, þá sé vararefsingin eða afplánun í fangelsi einnig aukin nokkurn veginn í sama hlutfalli. Þannig túlkað mundu læknirinn og ljósmyndarinn verða að dúsa inni í allt að 10 ár fyrir áðurgreind afbrot, en það er svipuð refsing og dæmt er í fyrir verstu rán og morð, þar sem morðinginn hefur einhverjar málsbætur. Hvað sem öllum lögskýringum líður, þá ætti af þessu að vera ljóst, að mikið misræmi er orðið milli þeirra refsinga, sem ákveðnar eru fyrir almenn afbrot, og þeirra refsinga, sem liggja við því að gerast brotlegur við efnahagslöggjöfina.

Þetta á líka sína eðlilegu skýringu í því, að þar sem samvizka hvers heilbrigðs manns bannar honum að fremja morð, rán eða þjófnað, þá telja menn t.d. bann við því að fá að ráðstafa eigin húsnæði að vild ranglátt og skerðingu eðlilegra mannréttinda. Það verður því óttinn við refsinguna einn, sem heldur mönnum frá því að brjóta slíka löggjöf, og því verða refsingarnar að vera svo stórum þyngri en refsingar við almennum afbrotum. Það er þetta, sem skýrir muninn á ógnarstjórn og réttarríki.

Af þessu leiðir líka nauðsyn þess að koma á fót pólitískum dómstólum í þjóðfélögum, þar sem efnahagskerfið byggist á haftalöggjöf af ofangreindu tagi.

Við gætum til frekari skýringa á þessu hugsað okkur, að lögfræðingar með mismunandi stjórnmálaskoðanir ættu að dæma mann fyrir skjalafölsun eða innbrotsþjófnað. Ég býst t.d. ekki við, að varðandi úrskurð slíkra mála mundi það skipta máli t.d., hvort hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. eða hv. 1. þm. Reykv. væru dómarar, og að því leyti sem ágreiningur kynni að vera þeirra á milli um mat á málsatvikum, sönnunargögnum o.s.frv., þá væri hann eingöngu fræðilegs eðlis og stæði ekki í neinu sambandi við mismunandi stjórnmálaskoðanir þeirra.

Allt öðru máli mundi gegna, ef dæma ætti lækninn eða ljósmyndarann, sem ég nefndi áðan, fyrir brot á hinni nýju löggjöf um afnot íbúðarhúsnæðis. Um þá löggjöf sem og alla aðra löggjöf um framkvæmd hafta hlýtur að vera mjög mikill stjórnmálaágreiningur. Sumir telja slíka löggjöf óréttmæta með öllu og skerðingu eðlilegra mannréttinda, aðrir telja hana nauðsynlega til tryggingar heilbrigðri skipan efnahagsmála. Stjórnmálaskoðun dómarans hlýtur óhjákvæmilega að hafa úrslitaþýðingu um það, hvort beitt verður í þessu efni þeim vægustu eða þyngstu refsingum, sem bókstafur laganna heimilar.

Eins og að líkum lætur, hefur hér einnig þegar myndazt vísir til pólitískra dómstóla. Fyrsti vísirinn í þá átt voru l. um verðlagsdóm frá 1950. Þar var gert ráð fyrir því, að komið yrði á fót sérstökum verðlagsdómum í kaupstöðum landsins, og skyldu meðdómendur í þeim dómum skipaðir samkvæmt tilnefningu nefndar, er skipuð var fulltrúum nokkurra stéttasamtaka. Engar kröfur voru til þess gerðar, að meðdómendur væru löglærðir. Í hinum nýju lögum um útflutningssjóð er gengið skrefi lengra en áður í þá átt að gera dómstóla þessa að raunverulegum alþýðudómstólum, því að með breytingu, sem gerð var á ákvæðunum um útnefningu meðdómenda, hefur hæstv. ríkisstj. tryggt sér, að dómendur þessir hljóti að vera úr hópi fylgismanna hennar. Enn er þó aðeins um að ræða vísi til pólitískra dómstóla, en sýnt er, að sú þróun muni halda áfram með miklum hraða, ef ekki verður að gert.

Í framhaldi af því, sem sagt hefur verið, tel ég rétt, að gerð sé nokkur grein fyrir þeim mun, sem hlýtur að vera á starfsháttum pólitískra dómstóla og annarra dómstóla. Sá munur er sama eðlis og munurinn á leikreglum vísinda og fræðimennsku annars vegar og stjórnmála hins vegar. Annars vegar er um að ræða leit að sannleika, hins vegar baráttu fyrir ákveðnum hagsmunum með tiltækilegum meðulum. Það mætti nefna þessu til skýringar afstöðu hv. Framsfl. t.d. til þess, hvort verðlagseftirlit sé ráðstöfun, sem komi að gagni eða ekki. Í tíð tveggja fyrrverandi ríkisstj. var þeirri stefnu yfirleitt fylgt að fara þá leið til þess að halda álagningu í skefjum að gefa innflutninginn sem frjálsastan. Tíminn hélt því þá fram, að verðlagseftirlit væri gagnslítil ráðstöfun í þessu efni, af því leiddi svartan markað, vöruskort o.s.frv. Þessu var haldið fram þau 6 ár, sem Framsfl. og Sjálfstfl. fóru með ríkisstj. saman. Nú er annað orðið upp á teningnum í þessu efni. Nú heldur Tíminn því fram í samræmi við stefnu núverandi hæstv. ríkisstj., að verðlagseftirlit sé öflugasta tækið og sjálfsagðasta til þess að halda verðlaginu í skefjum. Hvað sem þeirri spurningu líður út af fyrir sig, hvort verðlagseftirlit nái tilgangi sínum eða ekki, þá er það gefið mál, að Tíminn getur í þessu efni ekki bæði hafa haft á réttu að standa, meðan Sjálfstfl. og Framsfl. fóru með stjórn saman, og einnig nú. Það getur ekki haft áhrif á efnahagslögmálin, hvort tiltekinn stjórnmálaflokkur hefur stjórnarsamvinnu við þennan eða hinn stjórnmálaflokkinn. Það getur vel verið, að nefna megi dæmi um það frá sögu annarra stjórnmálaflokka, og mjög líklegt, að efnahagslögmálunum og öðru slíku hafi verið hnikað til eftir hagsmunum þeirra. Það getur vel verið, að slík dæmi mætti einnig nefna frá sögu Sjálfstfl., og ef það væri gert, þá mundi það í þessu efni aðeins vera mínu máli til stuðnings. En af þessu má ljós verða eðlismunurinn á leikreglum stjórnmálanna og vísindanna. Ég nefni þetta ekki af því, að ég sé að koma hér fram sem neinn siðapostuli. Til þessa liggja eðlilegar ástæður, af því að það er nú einu sinni þannig, að barátta og hlutleysi fer ekki saman. Hitt mætti vera ljóst, hvers konar réttaröryggi það mundi skapa, ef dómarar fylgdu sömu reglum í þessum efnum og túlkuðu lögin algerlega með tilliti til hagsmuna sinna og þess stjórnmálaflokks, sem þeir fylgja að málum hverju sinni. En það er einmitt þetta, sem hinir pólitísku dómstólar gera. Í þessu sambandi er og sú staðreynd mjög mikilvægt atriði, að alkunna er, að varla er unnt að finna þann þjóðfélagsborgara, sem ekki hefur í minni eða stærri stíl orðið brotlegur við efnahagsmálalöggjöfina. Skyldi t.d. nokkur sá vera til, sem ekki hefur gerzt sekur um skattsvík í stærri eða smærri stíl? Hér hefur í mörg ár verið í gildi löggjöf um hámark húsaleigu, þar sem bannað er að taka meira en 7–9 kr. í leigu fyrir hvern ferm. Allir vita, að hver einasti maður, sem leigir út eða tekur á leigu húsnæði, er brotlegur við þessi ákvæði. Fæstir þeir, sem til útlanda fara, slá hendinni á móti því að kaupa gjaldeyri á svörtum markaði. Og svo mætti lengi telja. Það mætti því æra óstöðugan, ef refsa ætti öllum, sem gerast á einn eða annan hátt brotlegir við efnahagsmálalöggjöfina. Í þessu efni er löggjöf þessi svipuð gyðingalöggjöf Hitlers, svo að dæmi sé tekið. Mörg hundruð þúsund gyðinga hafa um aldaraðir búið í Þýzkalandi, svo að sá borgari er sjálfsagt ekki til, að ekki hafi eitthvert gyðingablóð í æðum. Sem hliðstæðu má einnig nefna ofsóknir kommúnista í Rússlandi gegn Trotzkyistum á sínum tíma. Meðan Trotzky var í tölu einræðisherranna, var öllum skylt að hylla hann, svo að sá borgari var varla til, sem ekki var þannig hægt að ásaka um Trotzkyisma.

En hvernig ætli framkvæmd efnahagsmálalöggjafarinnar, sem klekkja má á nær hverjum einasta þjóðfélagsborgara fyrir að hafa gerzt brotlegur við, sé í höndum pólitískra eftirlitsmanna og dómara? Ætli þeir leggi sig eftir því að koma upp um og dæma baráttumenn flokks síns eða þá, sem styðja flokkinn fjárhagslega og leggja andstæðingunum þannig til áróðursefni? Ég býst við, að hv. þdm. hiki ekki við að svara spurningu þessari neitandi. Eftirlitsmennirnir með þessari löggjöf forðast að hnýsast í skattframtöl, húsaleigusamninga og húsnæðisráðstafanir samherja sinna, á sama hátt og það var ekki á dögum nazistanna í Þýzkalandi verið að hnýsast í ættartöflu Hitlers og annarra nazistaforingja né verið að halda á loft í Rússlandi gömlum lofræðum Stalins og kommúnistaforingjanna um Trotzky frá valdatímum hans. Þróun réttarfarsmálanna verður því sú, að sama ástand skapast og í einræðisríkjunum, þar sem aðeins einn glæpur þekkist, sá að vera í andstöðu við stjórnarvöldin, og þar sem persónulegt öryggi og mannréttindi eru með öllu afnumin. Mér er ljóst, að frv. það, er hér er fram borið, nær skammt í því efni, sem hér er um að ræða, en það markar þó spor í rétta átt, og ég treysti því, að allir þeir, er telja sig andvíga þeirri þróun, er hér hefur verið lýst, muni að athuguðu máli telja rétt að samþykkja það.