28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (3197)

115. mál, kostnaður við skóla

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég held, að það sé ekki ofmælt hjá hv. frsm. meiri hl. menntmn., að þetta mál sé búið að vera alllengi hjá n. Það er nefnilega búið að vera í meðförum nefndarinnar rúman hálfan þriðja mánuð, svo að n. hefur haft ærinn tíma til þess að athuga þetta mál, sem var sæmilega undirbúið af minni hálfu og þeirra manna, sem um það höfðu fjallað á undan mér. Þá held ég, að það sé nú þannig, að n. hefði haft ærinn tíma til þess að vinna að þessu máli og greiða götu þess, ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá meiri hl. n. til þess að gera nokkuð fyrir þetta mál.

Eins og fram kemur í þeirri grg., sem ég lét fylgja þessu frv., er skólakostnaði að því er tekur til héraðsskóla og húsmæðraskóla ákaflega misskipt í landinu. Níu sýslufélög standa undir mjög miklum kostnaði í sambandi við þetta skólahald, sem önnur sýslufélög sleppa alveg gersamlega við. Og miðað við þá þróun, sem verið hefur í því, hvernig skipt er kostnaði við skólahald í landinu, er þetta orðið mjög úrelt fyrirkomulag, því að yfirleitt hefur alltaf sótt í það horf, að ríkið hefur tekið á sínar herðar að greiða meira og meira af þessum skólakostnaði og létta af einstökum héruðum, sem að sjálfsögðu byggist á því, að þessir skólar, sem hér er um að ræða, eru sóttir af fólki víðs vegar að af landinu. Í þeim sýslufélögum, sem bera uppi þennan mikla kostnað, 9 sýslufélögum í landinu, er þannig ástatt um það, að þeir, sem eru úr öðrum sýslufélögum, eru í miklum meiri hluta á þessum skólum og það menn frá sýslufélögunum, sem algerlega sleppa við þennan kostnað. Þess vegna virðist svo, eins og réttilega er bent á hjá fulltrúum þeim frá þessum sýslufélögum, sem héldu fund um þetta mál hér í Reykjavík á s.l. hausti, að þá er svo komið og eiginlega fyrir löngu, að það er í fullu ósamræmi og andstöðu við stefnuna í menntamálum hér hjá okkur, að hér skuli ekki hafa verið ráðin bót á og það fyrir löngu í raun og veru. Mér þykir þess vegna undarlegt, að hv. menntmn., sem á öðrum sviðum hefur sýnt fulla viðleitni til þess að sinna slíkum málum og greiða götu þeirra til afgreiðslu á sanngjarnan og réttan hátt, skuli hafa látið þetta mál sitja svo gersamlega á hakanum að vinna ekkert að því, hreyfa ekki hönd til þess að vinna neitt að framgangi málsins í meira en hálfan þriðja mánuð, sem málið var í meðförum n. Yfir þessu verð ég að láta í ljós óánægju mína og þeirra manna, sem hafa hér borið fram um það till. og gert um það samþykktir, að þetta sé fært til betra og réttari vegar.

Ég hef séð, að það hafa nú verið að berast Alþ. áskoranir frá sýslufundum úr þeim sýslum, sem standa undir þessum kostnaði, þar sem búið er að halda sýslufundi, en það er ekki nærri alls staðar, sem svo stendur á. En ég hef hér fyrir framan mig tvær sýslufundarsamþykktir um þetta efni úr Ísafjarðarsýslum, bæði Norður-Ísafjarðarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu, og ég held, að Alþ. hafi einnig borizt sams konar ályktun úr Árnessýslu, þó að ég hafi hana ekki hér við höndina. Og ég veit, að sams konar ályktanir munu einnig verða gerðar úr ýmsum öðrum sýslufélögum, þegar þar verða haldnir sýslufundir. Ég efast t.d. ekki um það, að frá sýslunefndum í Mýra og Borgarfjarðarsýslum, sem bera mikinn þunga af þessum kostnaði, muni einnig koma sams konar ályktanir. Í ályktun Norður-Ísafjarðarsýslu á aðalfundi 8. maí s.l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu skorar enn á Alþingi og ríkisstj. að breyta lögum um stofnkostnað og rekstrarkostnað héraðsskólanna í þá átt, að létt verði af sýslusjóðum öllum þeim kostnaði. Sýslusjóðurinn rís ekki undir þeim kostnaði. Á tveimur s.l. árum hefur þannig verið varið 215355 kr. til endurbóta og viðhalds á skólahúsinu í Reykjanesi, enda þótt sýslunefnd hafi margyfirlýst, að hún treysti sér ekki til að standa straum af þeim kostnaði og mundi ekki taka þátt í frekari kostnaði við byggingar í Reykjanesi. Skólastjórinn telur nú sýslusjóðnum til skuldar fyrir árið 1955 og 1956 88155 kr.“

Þetta varpar nokkru ljósi yfir það, um hvað mikinn kostnað hér er að ræða.

Úr Vestur-Ísafjarðarsýslu hljóðar ályktunin svo:

„Sýslunefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu leyfir sér að ítreka áskorun sína á Alþingi frá síðasta aðalfundi um það, að breytt verði löggjöfinni um héraðsskólana í það horf, að ríkið taki að sér rekstur skólanna eða að öðrum kosti verði landinu skipt í gagnfræðaskólahverfi, þannig að jafnari verði fjárhagsbyrðar héraðanna vegna gagnfræðaskólanámsins. Rekstrarkostnaður Núpsskóla er orðinn svo mikill, að sýslusjóði er ofviða að bera slíkar byrðar, þær sem lagðar eru á hann einan með núverandi fyrirkomulagi.“

Ég sá frásögn í blaði um það nýlega frá sýslufundi Vestur-Ísafjarðarsýslu, hvað þessi kostnaður var mikill. Ég man ekki töluna, en það var ærið fé, og ég held, að það hafi verið meira en helmingur af öllum útgjöldum sýslusjóðsins á því ári, sem þessi kostnaður nam. Þetta sýnir ákaflega ljóslega, hve mikil þörf er á og mikil sanngirni er fyrir því, að hér sé gerð breyting á, og er þess vegna að undra, að ekki skuli hafa orðið neinu ágengt á þessu þingi um lagfæringar í þessu efni. Það er svo t.d. að taka í Árnessýslu, sem stendur undir kostnaði af héraðsskóla og húsmæðraskóla á móti ríkinu, að þá verður í Árnessýslu einnig sýslufélagið að standa undir kostnaði á móti ríkinu af 4 gagnfræðaskólum, og af þessu má sjá, um hve mikinn og þungbæran kostnað þarna er að ræða. Í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum verða þessi sýslufélög að standa á móti ríkinu undir kostnaði af tveimur skólum, sem eru Reykholtsskóli og svo kvennaskólinn á Varmalandi. En í næsta nágrenni, í næstu sýslu við, er húsmæðraskóli, sem ríkið kostar að öllu leyti og viðkomandi sýsla þarf ekki að leggja neitt fram í, sem er Staðarfellsskáli. Og Austfirðingafjórðungur t.d. að taka þarf ekki að leggja í neinn kostnað í sambandi við héraðsskólahald, af því að sá héraðsskóli, sem þar er rekinn, Eiðaskólinn, er að öllu leyti kostaður af ríkinu. Þetta allt saman er þess eðlis, að það má undrum sæta, að Alþ. skuli algerlega skella skollaeyrum við því að sinna svo sanngjörnum óskum eins og hér eru bornar fram um að fá nokkra leiðréttingu á þessu.

Það er að vísu sagt hér, að ríkisstj. sé með einhverja athugun á þessu máli. Ég veit ekkert um það. En ef það hefði verið ríkt hjá ríkisstj. að vilja leysa úr þessu máli, þá var vitanlega tilvalið tækifæri fyrir hana að beina því til menntmn., sem fékk málið það tímanlega á þinginu, að nógur tími hefði verið til að undirbúa þær breytingar, sem hér er um að ræða. Ég sé því ekki, að það sé nein afsökun í því, hvorki fyrir n., sem fékk málið til meðferðar, og ekki heldur fyrir ríkisstj., ef þar er vilji og áhugi fyrir hendi til þess að sinna þessu máli.

Minni hl. menntmn. leggur nú til, að þetta frv. verði samþ. Ég veit, að minni hl. hefur haft áhuga fyrir því, en úr því að ekki tókst að fá um það samkomulag í n., þá má segja, að það hefði borið að sama brunni, hvort slíkar till. hefðu komið fram fyrr eða síðar um samþykkt þessa frv., þar sem afstaða ráðandi manna á Alþingi var slík að vilja vísa málinu frá.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Þetta mál verður að sjálfsögðu tekið upp á næsta þingi, og vildi ég þá vænta þess, að betur rætist úr þá en nú um afgreiðslu þessa þýðingarmikla máls, sem felur í sér mikla sanngirniskröfu um, að hér sé bót á ráðin.