15.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Rannsókn kjörbréfa

Aldursforseti (JJós):

Áður en ég gef orðið næsta hv. þm., vil ég geta þess út af ósk hæstv, forsrh. (HermJ) hér fyrir nokkru um, að haldinn yrði kvöldfundur til að ljúka þessu máli í dag, þar sem honum þótti tími þingsins vera kominn of mikill eða nægur í umr. þessar, að í þessu máli hafa 13 þm. alls kvatt sér hljóðs, einungis 3 þeirra hafa talað tvisvar, enginn enn þá þrisvar. Fundir hafa verið haldnir á reglulegum fundartíma, eins og tíðkast í byrjun þings, og er ekki venja snemma á þingi að halda kvöldfundi. Þó að þessar umr. hafi orðið svo miklar sem ég lýsti nú, þá er þess að gæta, að þær verða að vera eins og málefni standa til, meðan enginn þm. brýtur af sér hvað snertir hans ræðumeðferð eða annað, sem ekki hefur orðið. — Vegna þess að ósk hæstv, ráðh. um kvöldfund kom rétt í þessu, vil ég geta þess, að þar sem enginn vissi áður um það, að kvöldfundur yrði ákveðinn á þessu kvöldi, þá er mér kunnugt um að ýmsir hv. þm. eins stjórnmálaflokksins hafa ráðstafað sér annað á þessu kvöldi. Í dag stendur svo á, að það eru, að ég hygg, venjulegir flokksfundir í öllum þingflokkunum frá kl. 5 og tímanum þess vegna ráðstafað að því leyti frá 5–7. Ég sé mér því ekki fært, af þeim ástæðum, sem ég hef þegar nefnt, sérstaklega af því að ýmsir hafa ráðstafað sér fyrir þetta kvöld, að halda kvöldfund nú til að ljúka umr. Hins vegar vil ég lofa því, að verði þessum umr. ekki lokið á venjulegum fundartíma á morgun, skal ég boða til kvöldfundar, og læt þess getið nú, til þess að menn viti það og ráðstafi sér þá ekki annað. Ég vænti þess, að hæstv. ráðherra geti eftir atvikum sætt sig við það.