14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3207)

121. mál, ríkisborgararéttur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 294 að bera fram brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Brtt. er þess efnis, að 2. gr. frv. falli niður, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem heita erlendum nöfnum, skulu þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með lögum þessum, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkv. lögum um mannanöfn.“

Mundi þá greinatala frv. breytast skv. því. Tilgangur þessara ákvæða um nafnaskipti mun hafa verið sá, að slíkt er talið nauðsynlegt eða æskilegt til þess að vernda íslenzka tungu. En í því sambandi leyfi ég mér þó að benda á það, að við komumst aldrei hjá því að nota erlend nöfn í íslenzku máli, bæði nöfn útlendinga, sem hér dvelja og ekki hafa ríkisborgararétt, enn fremur nöfn erlendra stjórnmálamanna, sem við erum alltaf með á vörunum, o.s.frv., og ég veit ekki, hvort það skiptir höfuðmáli í því sambandi, hvort þeir aðilar, sem þessi erlendu nöfn bera, hafa íslenzkt ríkisfang eða ekki. Ég tel því vafasamt, hvort þessi ákvæði hafa þá þýðingu fyrir verndun tungunnar, sem formælendur ákvæðanna hafa látið í veðri vaka. Á hinn bóginn má ekki loka augunum fyrir því, að nafnbreytingin hlýtur að valda því fólki, sem þessi ákvæði taka til, margvíslegum óþægindum. Það hlýtur ávallt að hafa í för með sér nokkurn sársauka að þurfa að ílendast í framandi landi, og verður það til þess að auka á þann sársauka, ef það öryggi, sem ríkisfang hefur í för með sér í því landi, sem maður dvelur í, þarf að kaupa því verði að skipta um nafn. Þetta mál er þó engan veginn eingöngu tilfinningamál, þó að ég áliti að vísu, að sú hlið málsins sé þýðingarmikil. En nafnbreytingin mundi einnig í mörgum tilfellum valda viðkomandi aðilum meira eða minna tilfinnanlegu fjárhagslegu tjóni. Ég skal nefna eitt dæmi, sem mun reyndar vera alkunnugt. Erlendur maður, sem hér hafði dvalið nokkra áratugi og fengizt við kennslustörf, varð að skipta um nafn samkvæmt ákvæðum eldri laga um ríkisfang. Þessi maður hafði getið sér hinn bezta orðstír í sínu fagi og unnið sér upp undir sínu nafni allstóran viðskiptavinahóp, hann hafði gefið út kennslubækur í sínu fagi o.s.frv. Nú er hann neyddur til að taka upp nafn, sem enginn maður kannast við, og það fer ekki hjá því, að slíkt hefur hlotið að valda honum örðugleikum í hans atvinnu og fjárhagslegu tjóni.

E.t.v. mundi það bregða nokkru ljósi yfir þessi mál, ef litið væri á þau frá öðrum sjónarhól, nefnilega þeim, að við hugsuðum okkur, að erlendar þjóðir hefðu slík ákvæði eða slík skilyrði fyrir ríkisfangi í sínum lögum. Mundi okkur ekki þykja það harðir kostir, ef Kanadamenn hefðu t.d. krafizt þess af öllum Vestur-Íslendingum, sem ríkisfang hefðu fengið í Kanada, að þeir hefðu tekið upp nöfnin Jackson eða Smith eða einhver önnur nöfn, sem fara vel í enskri tungu, eða ef allir Íslendingar, sem ílengzt hafa í Danmörku, væru skyldaðir til þess að taka upp heiti eins og Sörensen, Pedersen o.s.frv., ef þeir ættu að öðlast ríkisfang í því landi? Hvernig mundum við t.d. líta á það, svo að nefnd séu nöfn Íslendinga, sem hafa unnið sér orðstír sem vísindamenn í Danmörku, eins og t.d. Lárus Einarsson prófessor og Jón Helgason prófessor, ef þessum mönnum hefði verið gert það að skilyrði fyrir ríkisfangi í Danmörku, að þeir hefðu tekið upp nýtt heiti, þannig að prófessor Jón Helgason hefði t.d. framvegis orðið að gefa út bækur sínar undir nafninu Johannes Pedersen eða einhverju slíku, sem hljómar vel í dönskum eyrum? Það er sýnt, að þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, hefðu þótt þessir kostir svo harðir, að það hefði útilokað þá frá því að sækja um ríkisfang í Danmörku, eða m.ö.o. afleiðingin af þessari stefnu yrði sú, að enginn maður, sem unnið hefur sér nafn, mundi sjá sér fært að hlíta slíkum skilyrðum. Það er ekki von, að norrænufræðingar t.d., sem að vísu kannast vel við nafn próf. Jóns Helgasonar, kannist við bók, sem kæmi út undir nafninu Johannes Pedersen. Hún mundi ekki vekja athygli norrænufræðinga, því að þeir mundu ekki kannast við vísindamann á þessu sviði, sem bæri slíkt nafn.

Afleiðingin af þessu verður m.ö.o. sú hvað okkur snertir, að ef um sérfræðinga, vísindamenn eða listamenn er að ræða, sem hafa getið sér eitthvert nafn, þá er útilokað, að þeir sæki um ríkisfang hér á landi. En nú hefur okkur verið það nauðsynlegt að undanförnu og verður ábyggilega að meira eða minna leyti nauðsynlegt í framtíðinni að lokka slíka sérfræðinga til okkar. Það má nefna um það dæmi frá okkar atvinnusögu, að þegar nýjungar á sviði atvinnumála hafa rutt sér til rúms hér á landi, höfum við í byrjun orðið að leita til erlendra manna til að veita þeim forstöðu. Svo að nefnd séu dæmi af handahófi, þá mætti nefna það, að fyrsti forstjóri símans hér á landi var norskur, fyrsti vitamálastjóri hér á landi var danskur, og að því er ég bezt veit, var fyrsti forstjóri Eimskipafélags Íslands líka danskur. Við áttum ekki mönnum á að skipa, sem gátu annazt þau störf. En hefði ekki verið einkennilegt, ef Olaf Forberg símamálastjóra hefði verið sett það að skilyrði fyrir því að hann gæti öðlazt hér ríkisfang, að hann tæki t.d. upp nafnið Sigurjón Sveinsson eða eitthvað þess háttar, eða ef Thorvald Krabbe hefði orðið að kalla sig Guðmund Jónsson o.s.frv.?

Afleiðingin af þessu hlýtur að verða sú, að við getum ekki vænzt þess, að sérfræðingar, sem okkur getur verið nauðsynlegt að leita til í sambandi við ýmsar nýjungar, vilji ílendast hér. Ef þetta væri tekið upp sem alþjóðleg regla, mundi það verða til þess að torvelda mjög alþjóðlega samvinnu á sviði tækni, vísinda og annarra málefna. Ég álít því, að við hljótum fyrr eða síðar að reka okkur á það, að löggjöf af þessu tagi verður óframkvæmanleg. Og því fyrr, sem hv. Alþ. horfist í augu við þá staðreynd, því betur tel ég farið.

Ég er sannfærður um það, og það er engin ástæða til þess að draga það í efa, að tilgangur þeirra manna, sem fyrir þessum fyrirmælum hafa staðið, hefur verið góður. En ég tel, að ástæðan til þess, að þessi ákvæði hafa undanfarin ár verið samþykkt hér á Alþ., hljóti að vera sú, að málið hefur ekki verið athugað frá öllum hliðum. Eins og ég þegar hef minnzt á, tel ég vafasamt, hverja þýðingu þessi ákvæði hafa fyrir verndun tungunnar. Hitt er aftur á móti vissa, að slík ákvæði valda þeim, sem við þau eiga að búa, margvíslegum óþægindum, og sömuleiðis getur þetta orðið til þess að baka þjóðfélaginu ýmislegt tjón, auk þess sem ég er ekki í vafa um, að með þessari löggjöf gerum við okkur að viðundri í augum alheimsins. En ef það væri tillitið til tungunnar, sem hér ætti að vera aðalatriðið, þá tel ég athyglisverða hugmynd, sem fram hefur komið í þessu efni, en að því er ég bezt veit, mun núverandi hæstv. menntmrh. vera faðir þeirrar hugmyndar, en hún gekk út á það, að til álita gæti komið að skylda afkomendur þeirra aðila, sem hér er um að ræða, til þess að taka upp íslenzk heiti.

Það mundi vera allt annað mál, ég álít, að slíkt mundi koma mjög til álita. En mér finnst, að Íslendingar geti ekki verið þekktir fyrir að framfylgja löggjöfinni í þeirri mynd, sem hún nú er.