15.03.1957
Neðri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (3214)

121. mál, ríkisborgararéttur

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frá því að þau lög voru sett, sem mest er deilt um í þessari umr., hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að þau hafi verið mjög illa ráðin og óskynsamleg. Ég tel í fyrsta lagi, að þessi lög séu illframkvæmanleg, í öðru lagi, að þau séu ómannúðleg, og í þriðja lagi, að þau beri vott um þjóðernisdramb, sem sé okkur ekki til sóma. Eftir því sem ég þekki bezt til, hefur gengið mjög misjafnlega fyrir það fólk, sem hefur orðið að fara eftir þessum lögum, að festa sér íslenzk nöfn. Í mörgum tilfellum brostu menn að þessu fyrst, tóku sem hálfgerða kímni, þótti skrýtið að eiga allt í einu að kalla fólk, sem það hafði þekkt og umgengizt í mörg ár, nýjum nöfnum. Þar sem ég þekki til, hafa menn yfirleitt haldið áfram að kalla fólkið sínum gömlu nöfnum eftir sem áður, jafnvel þó að þeir viti, að þeir heita nú löglega sínu nýja íslenzka nafni. Menn reyna við hátíðleg tækifæri, þegar þarf að skrifa nöfnin eða eitthvað slíkt, að fylgja þeirri reglu. En sín á milli kalla menn þetta fólk oftast nær þeim nöfnum, sem það hét, þegar menn kynntust því fyrst.

Ég tel, að það sé ómannúðlegt að neyða fólk til þess að skipta um nafn. Það eru mjög margar og ólíkar ástæður, sem valda því, að fólk óskar eftir íslenzkum borgararétti. Tökum t.d. síðustu 50 útlendingana, sem komu hingað til lands, ungversku flóttamennina. Það má gera ráð fyrir því, að eitthvað af þeim, jafnvel meiri hluti þeirra, verði með tímanum íslenzkir borgarar. Og íhugum þær aðstæður, sem valda því, að þetta fólk verður að flytjast á milli landa og verður að setjast að hér langt frá ættjörð sinni. Mér finnst það ekki vera mannúðlegt ofan á allt annað að neyða það til þess að taka upp íslenzk nöfn.

Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) sagði hér, að að þessu leyti væri þessu fólki veittur meiri réttur en innfæddum Íslendingum, af því að þetta fólk fengi að bera nöfn, sem Íslendingar mundu ekki fá að bera. En þess ber að gæta, að fólkið hefur verið skírt þessum nöfnum, og sé það neytt til að taka upp ný nöfn, þá er tekinn af því rétturinn til að bera það nafn, sem gefið var í bernsku, og ég tel, að sá réttur sé meira virði en nokkuð annað í þessu sambandi.

Ég tel það mjög vafasamt, að þetta atriði skipti svo geysimiklu máli menningarlega og fyrir tunguna sem af er látið, a.m.k. finnst mér, að það sé margt annað, sem hefði þá átt að athuga fyrst og hafi miklu meiri og hættulegri áhrif á tunguna en nöfn manna. Ég vil aðeins nefna eitt, en það eru vörumerki og vöruheiti. Samkvæmt landsins lögum eru lifandi menn, sem fá borgararétt, neyddir til þess að skipta um nafn, en dauðir hlutir, sem streyma hingað inn í landið, fá að bera sín nöfn, enda þótt það hljóti að hafa miklu meiri áhrif á tunguna og hið talaða mál í landinu í ákaflega mörgum tilfellum. Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi mikil menningarleg áhrif, þó að einhver eiginkona, sem býr á sínu heimili og lifir venjulegu húsmóðurlífi hér, beri nafn, sem henni var gefið í bernsku einhvers staðar úti í löndum. En það hlýtur að hafa mikil áhrif á daglegt íslenzkt mál og jafnvel þróun þess, þegar umsvifalaust eru skrásett alls konar vörumerki á öllum mögulegum tungumálum. Vörumerkin eru ekki sett inn á eitt heimili í úthverfi einhvers bæjar, og þau eru ekki fyrir sárafáa menn til þess að nota og umgangast. Vörumerkin eru notuð, tilgangur þeirra er beinlínis að auglýsa, þau eru auglýst, þeim er klínt utan á bíla, sem aka um götur og vegi, utan á verzlanir og í glugga þeirra, þau eru auglýst í dagblöðum og á allan mögulegan annan hátt. En við þetta hafa menn ekki séð neitt að athuga. Og ég held, að menn ættu að íhuga örlítið, hvort nöfn á einstaklingum eru eins hættuleg íslenzku máli og nöfn á vörum, t.d. cóca-cóla eða pepsi-cóla, svo að byrjað sé á einhverju, en lesa mætti upp hálfan daginn slík heiti. Þessi heiti eru á allra vörum á hverjum degi, ekki sízt þau, sem eru þess eðlis, að fyrst og fremst unga fólkið temur sér þau.

Ef mannanöfnin eru geysilega stórt atriði fyrir íslenzka tungu, þá held ég, að það megi vissulega segja, að við ættum að íhuga, hvaða vörumerki eru opinberlega skrásett hér, því að þar er um að ræða orð og heiti, sem eiga eftir að verða mikið notuð, miklu meira en nokkurt einstaks manns nafn.