18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3219)

121. mál, ríkisborgararéttur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Með því að ég tel, að till. sú, sem hér hefur verið lögð fram, nál megintilgangi minnar upphaflegu till., en hins vegar er komið að verulegu leyti að mínu áliti til móts við þau veigamestu rök, sem fram hafa verið borin gegn því að fella niður skyldur þeirra erlendu manna, sem hér sækja um ríkisborgararétt, til þess að skipta um nafn, þá hef ég ákveðið, jafnframt því sem ég hef gerzt meðflutningsmaður að þessari till., að taka mína upphaflegu till. aftur og óska því, að hún komi ekki til atkv.

Ég hef annars í rauninni engu að bæta við það, sem ég hef hér áður sagt, en langar þó til að gefnu tilefni að geta þess, að ég átti núna fyrir helgina tal við nokkra af starfsmönnum þjóðskrárinnar svonefndu. Því hefur verið haldið fram hér, að allt væri í bezta lagi hvað snerti framkvæmdina á þessu máli, en þessir menn höfðu þar aðra sögu að segja.

Þeir minntust á það í fyrsta lagi, að það væri mjög algengt, að íslenzkar konur þeirra manna erlendra, sem um ríkisborgararéttinn sækja, héldu áfram að bera þessi ættarnöfn og teldu sér ekki skylt að skipta um nafn, þar sem þær hafa haldið sínum ríkisborgararétti.

Í öðru lagi sögðu þessir menn mér frá því, að mjög væri það algengt, að óskilgetin börn erlendra manna hér á landi væru kennd við föður sinn eða bæru hans ættarnafn. Sé þetta rétt, sem ég tel enga ástæðu til að rengja, þá sýnir það, að möguleiki er á því, að erlend nöfn komist inn í málið eftir öðrum leiðum en þeim, sem hér er um að ræða, þannig að á því vandamáli ræður það ekki bót nema að takmörkuðu leyti, þó að þessir menn, sem sækja um ríkisborgararétt, séu skyldaðir til þess að skipta um nöfn. En hins vegar, eins og komið hefur fram í umr., veldur það þessum mönnum miklum óþægindum og jafnvel fjárhagslegu tjóni.