18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

121. mál, ríkisborgararéttur

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði, sem ég ætlaði að taka fyrir af því, sem fram hefur komið. Mér finnst það ekki koma greinilega fram hjá þeim, sem standa að till. á þskj. 351, um hvað þetta snýst, heldur er vísað til þess, að þarna sé verið að koma í veg fyrir það, að menn séu beittir ofbeldi jafnvel eða ójöfnuði eða harðýðgi, en sé hins vegar ekki verið að brjóta þá reglu, sem Alþingi hafi skapað.

Þetta finnst mér ákaflega mikið villandi. Málið hlýtur að snúast um það: viljum við, að þróunin verði slík, að hér fjölgi ættarnöfnum, með hættu á því, að þau festist í máli, eða viljum við vinna að því, að ættarnöfnunum fækki og þau helzt hverfi?

Um þetta snýst í raun og veru málið. Eins og nú standa sakir með okkar löggjöf, er það þannig, að það er ekki leyfilegt að taka upp nein ný íslenzk ættarnöfn, en vitanlega verða þessi ættarnöfn útlendu mannanna, sem verða íslenzkir ríkisborgarar, að íslenzkum ættarnöfnum, um leið og þeim er leyft að bera þau á Íslandi. Sem sagt, þarna er opnuð eina gáttin í því efni að leyfa að taka upp ný ættarnöfn í íslenzka tungu, og það held ég að sé einmitt höfuðatriði, sem maður þarf að festa augun á, af því að hitt, að þarna sé eitthvert mannréttindamál þessara einstaklinga, er vitanlega eins og hver önnur fásinna. Mér dettur í hug brosleg fásinna eins og að bera þetta saman við það að gera strangar kröfur um, að þeir menn, sem fá íslenzkan ríkisborgararétt, kunni íslenzkt mál til hlítar og geti talað það rétt. Það fyndist mér vera ofbeldi.

Ég er persónulega kunnugur og náskyldur einum af þeim, sem hafa sótt um ríkisborgararétt hérna. Kristín Obermann heitir hún. Móðir hennar og ég erum systkinabörn. Hún vill vera íslenzk, en ég er alveg viss um það, að hún mun aldrei bera gæfu til þess að læra íslenzku svo vel, að hún geti talað hana gallalaust. Hún getur alls ekki lært það þannig, en hún vill vera íslenzk, móðir hennar er alíslenzk, og hún er gift íslenzkum manni.

Það fyndist mér vera harðræði, ef það ætti að gera slíkar kröfur, eins og við vitum, hvað fullkomin kunnátta í íslenzku er mikið erfiðleikamál. En hitt er ekki annað en sjálfsagt mál, að við segjum við þá menn, sem vilja gerast íslenzkir ríkisborgarar: Þá verðið þið að beygja ykkar nöfn að venjum íslenzku þjóðarinnar og íslenzks máls.

Það er sem sagt hér verið að opna það, sem Alþingi var búið að loka og raunverulega — og það er vert að undirstrika það — var búið að ákveða að ekki skyldi takast upp á Íslandi. Frá því að nafnalögin voru sett 1925, var mönnum á hverju ári eða a.m.k. oftast nær á hverju þingi veittur íslenzkur ríkisborgararéttur og ekki hirt um að láta þá skipta um nöfn. Þannig var Alþingi á hverjum tíma að breyta með tilliti til hvers einstaks manns útlends, sem fékk íslenzkan ríkisborgararétt, nafnalögunum frá 1925. Það var ekki fyrr en Björn Ólafsson varð menntmrh., sem hann benti Alþingi á þetta, að í hvert skipti, sem verið væri að samþykkja ríkisborgararétt eins einstaks manns, væri verið að samþykkja undanþágu frá nafnalögunum 1925. Eftir að Björn Ólafsson, sem þá var menntmrh., var búinn að benda á þetta, varð það ofan á, að meiri hluti þingsins féllst á þessar skoðanir hans, að það vitanlega næði engri átt að vera þannig í hvert einasta skipti, sem ríkisborgararéttur er veittur erlendum manni, að breyta okkar lögum um nafngiftir, og frá þeim tíma hefur Alþingi hætt við það.

Síðan eru liðin a.m.k. ein fimm ár, ef ekki sex, þannig að það er ekki rétt, sem hæstv. menntmrh. segir, að hér hafi oltið á ýmsu. Alþingi hefur verið alveg einhuga um þetta. Hitt er annað mál, og ég efast ekki um það, að það eru ýmsir örðugleikar í framkvæmd á þessu atriði, og kann að vera, að í einstökum nafnaákvörðunum hafi ekki alveg verið í fyllsta máta fylgt þeim ströngustu reglum, sem sagt, að í framkvæmdinni hafi eitthvað verið sveigt til samkomulags. Ég er ekki kunnugur því. Það kann vel að vera. Ég veit, að þetta er erfitt mál og sérstaklega erfitt að beita þvingunum í þessu efni. En það breytir alls ekki hinu, að Alþ. verður að halda sér við „prinsip“ engu að síður, ef það er vilji alþm. að fyrirbyggja, að það elzta í okkar tungu og menningu, nafnagjafareglan íslenzka, sé ekki brotið á bak aftur og látið hverfa út í sandinn, eins og orðið hefur í okkar nágrannalöndum. Slík tillitssemi getur á engan hátt breytt afstöðu Alþingis.

Það er að vísu alveg rétt, að framkvæmd nafnalaganna er ábótavant. Það er erfitt að beita valdi í þessu máli. En þó vil ég benda á það, að hæstv. menntmrh. gerði of mikið úr þeim ágöllum, sem verið hafa í framkvæmd þessara laga, vegna þess að af þeim ættarnöfnum, sem upp voru komin, í fyrsta lagi þau ættarnöfn, sem ég gat um áðan og menn mega halda uppi um alla framtíð, eru ættarnöfnin, sem voru komin á fyrir aldamót, og ættarnöfnin, sem tekin voru upp á árunum 1900–1913 og fengu löglega staðfestingu skv. ákvæðum laganna frá 1913. En hin nöfnin, sem tekin voru upp skv. lögunum frá 1913, eiga að hverfa með börnum þeirra, sem tóku nöfnin upp. Og það er nú ekki komið lengra en svo, að núna er sem sagt þriðji liðurinn frá þeim, sem tóku upp nöfnin, yfirleitt unglingar í skólum, og þeir hafa margir haldið sínum nöfnum, sem þeir hefðu átt að fella niður. En ég hef ekki trú á því í sjálfu sér, að það sé hægt að halda uppi þessari nafnareglu, ef það tekst ekki að skapa það almenningsálit á Íslandi, að þetta sé óþjóðlegt og óviðurkvæmilegt, á nákvæmlega sama hátt og okkur tókst að skapa það almenningsálit, að það væri ekki sæmilegt að nota danskar slettur í daglegu tali. Ef það tekst ekki að skapa slíkt almenningsálit um nöfnin, þá vitanlega tekst okkur ekki að verja nafnaregluna. En það er einmitt einn verulegur þáttur í því, að ekki hefur tekizt að halda þessu uppi, að við höfum stöðugt verið að hleypa inn mönnum með erlend nöfn og þannig skapað ný ættarnöfn í fyrsta lagi, og svo í öðru lagi þær stöðugu deilur, sem orðið hafa um þessa reglu, stöðugu tilraunir með að brjótast í gegnum íslenzk nafnalög með einstök ættarnöfn, sem nú er upp tekið af hæstv. menntmrh. og þeim þremur hv. þm., sem eru meðflm. að till. hans á þskj. 351. Þeir eru sem sagt með þessum þráa, með því að neita að viðurkenna þær reglur, sem Alþ. hefur verið að skapa á síðustu fimm árum, að hindra það, að hér skapist það almenningsálit, sem eitt getur varið okkar nafnareglu og forðað okkur frá því að renna út í það að verða með sömu reglu í þessu efni og nágrannaþjóðirnar okkar og þar með skaða okkar tungumál mjög alvarlega. Þessi barátta er því okkur sérstaklega hættuleg, ef við metum það einhvers að viðhalda íslenzku máli.

Það má deila um það, hvort það sé rétt að viðhalda íslenzku máli. Það væri kannske miklu þægilegra að taka upp mál einhverrar milljónaþjóðar. En ég býst við því, að þegar út á það svið er komið, muni enginn þm. vilja segja, að það væri til góðs fyrir íslenzku þjóðina að fella niður mál sitt. En þeir þurfa að gera sér það ljóst, að þegar þeir eru að reyna að brjóta þarna skarð í okkar varnarveggi hvað snertir mannanöfnin, eru þeir einmitt að vinna í þá átt að brjóta niður hina hefðbundnu reglu okkar í sambandi við íslenzkt mál, af því að mannanöfnin, eins og ég benti á áðan, eru ekki lítill þáttur í íslenzkri tungu. Það er t.d. vitað mál, að alls konar nafnaskrípi, — ég víl ekki segja, að það séu nein skrípi út af fyrir sig, þau eru skrípi, þegar þau eru komin inn í íslenzkt mál, — gera það að verkum, að það er útilokað t.d. að beygja slík ættarnöfn að hætti okkar málfræði, og það kemur til með að raska hugmyndum manna og tilfinningu fyrir fallbeygingum og öðrum slíkum beygingum í íslenzkri tungu og mun kippa töluvert mikið fótunum undan þeirri viðleitni að viðhalda hér góðu máli, sem er alveg sérstaklega hættulegt núna, þegar svo mikið hefur sótt í það horf, að við verðum meira og meira fyrir alls konar erlendum áhrifum og verðum að gera okkur það ljóst, að við getum vitanlega ekki neitað okkur um eðlileg samskipti við aðrar þjóðir, en verðum þó að gera það á þann hátt, að við glötum ekki okkar tungu og okkar sjálfstæðu menningu.

Það er engin röksemd fyrir því að taka upp ný ættarnöfn, þó að misbrestur hafi orðið á framkvæmd, siður en svo. Eftir því sem við tökum upp fleiri ný ættarnöfn, eftir því verður það óviðráðanlegra að stöðva þetta. Það er eins og hr. 3. þm. Reykv. benti á, það er vitanlega tilfinningamál fyrir menn að viðhalda sínum ættarnöfnum, kannske gömlum ættarnöfnum, sem menn hafa borið og ættmenn þeirra borið lið fram af lið, kynslóð eftir kynslóð. Og það segir sig sjálft, að það verður mikil freistni fyrir þá menn, sem nú fá að halda sínum erlendu nöfnum, að láta börn sín, barnabörn og lengra niður, eftir því sem þeim endist aldur til að geta haft áhrif á, bera sín nöfn. Og ef þeir verða varir við, að það sé viss misbrestur á framkvæmd þessara laga í afnámi þeirra ættarnafna, sem upp voru tekin á árunum 1913–25, þá náttúrlega er það aukin freistni fyrir þá til þess að viðhalda sínum nöfnum, og þá geta þessar sömu mannréttindahetjur, sem nú standa að þessari till., komið og sagt: Hví þá að banna þessum mönnum að gera þetta, fyrst öðrum hefur verið leyft að gera þetta? — Þannig má lengi telja.

Stóra atriðið í þessu er það: Hvað viljum við að verði niðurstaðan í þessu? Viljum við, að okkar íslenzka nafnaregla hverfi og við tökum upp erlenda siði í þessu efni, eða viljum við það ekki? Ef við viljum það ekki, þá eigum við ekki að brjóta nein skörð í þessar reglur, ekki gefa neinar undanþágur í þinginu. Og þá eru þessir menn, sem standa að till. á þskj. 351, einmitt hér að losa um steina í okkar varnargarði, varnargarði þessarar gömlu nafnareglu okkar, varnargarði íslenzku tungunnar. Ég vil láta í ljós þá von mína, að þessi hv. þd. verði ekki svo misvitur að hlaupa inn á svo lélegar röksemdir sem hér hafa verið fram bornar fyrir því að rifa niður það, sem Alþ. hefur í þessu efni verið að byggja upp á fimm árum.