25.03.1957
Neðri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (3244)

139. mál, eignarnámsheimild á löndum í Hafnarfirði, Gerðahreppi og Grindavíkurhreppi

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. þm. Skagf. og ég höfum leyft okkur að flytja frv. það, sem prentað er á þskj. 370 og er um breyt. á l. nr. 11 1. febr. 1936, um eignarnámsheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindavíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Ég tel ástæðulaust að hafa langar skýringar á þessu máli, m.a. og einkum vegna þess, að þær eru gefnar í grg., þó að hún sé ekki heldur ýkjalöng. Aðalatriðið er, að skv. téðum lögum fékk ríkisstj. heimild til þess að taka eignarnámi vissar jarðir í Gullbringusýslu, og er það orðað í lögunum í þremur málsliðum, ef ég man rétt, í 1. gr. laganna, og tilgangur þessara laga er að breyta 3. tölulið 1. gr., en þar stendur, að ríkisstj. sé heimilt að taka eignarnámi afnotarétt þess landsvæðis í Garðahreppi, sem takmarkast þannig: „Að austan af veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að norðan af Arnarneslæk og Arnarnesvogi, að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogar að vesturhorni Engidals, þaðan meðfram Álftanesveginum að aðalveginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Undanskilið skal þó land nýbýlisins Langholts og land það milli Arnarnes- og Hraunholtslækja, sem þegar er útskipt til bænda í Garðahreppi.“

Þetta er orðrétt sá stafliður, sem við óskum eftir að megi falla niður úr 1. gr. téðra laga. Tilgangur laganna í öndverðu var sá, að þegar það eignarnám, sem þar er gert ráð fyrir, hefði farið fram, ætti að selja eða leigja löndin, sem tekin voru eignarnámi, til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Þá var einnig ætlað, að þegar eignarnámið hefði farið fram og Hafnarfjörður fengið leigumála eða kauprétt eða öðlazt eignarrétt með kaupum á landinu, skyldi landið falla undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, og átti þá að ráðstafa þessum löndum í samráði við Búnaðarfélagið.

Nú hefur aldrei komið til framkvæmda þetta ákvæði laganna, sem hér er ætlað að fellt verði niður. Ákvæðið hefur hins vegar verið þyrnir í augum íbúa þessa hrepps, Garðahrepps, og nú hafa þeir mælzt til þess við okkur flm. og við orðið við tilmælum þeirra um að flytja frv. um, að þessi eignarnámsheimild vofi ekki yfir þeim, enda standa nú mál þannig, ef ég veit rétt, að það er nauðsynlegt, að þetta verði skýrt markað, hvað heimilt er og ekki heimilt. Þessi lönd, sem hér er um að ræða, eru nú að byggjast meira og meira, og ef þessi heimild er notuð, verða þessi eignarnámslönd hluti af lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar og eins og tvær eyjar inni í miðjum Garðahreppi. Ég hygg, að öll stjórn og framkvæmd þessarar landspildu, sem hér er um að ræða, yrði óeðlileg, ef þannig væri með málin farið, og það sé að öllu leyti sanngjarnt, að Garðahreppur haldi þessum sínum löndum, enda verð ég að segja eins og er, að reynslan bendir ekki til, að mikil nauðsyn hafi knúið til þessarar lagasetningar og til þessarar heimildar, sem nú í meira en tuttugu ár hefur ekki verið notuð.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, enda efast ég um, að hv. þm., án þess að hafa fyrir sér uppdrátt af þessu landsvæði, geti gert sér fyllilega grein fyrir, hvað um er að ræða. Ég ítreka aðeins, að hér er um að ræða einróma beiðni hreppsnefndar Garðahrepps og að reyndin bendir til, að Hafnarfjörður þurfi ekki sérstaklega á þessu að halda.

Ég leyfi mér að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn. Ég geng út frá, að hv. n. eigi um þetta viðræður, ja, ég hefði nú heldur kosið við hreppsnefnd Garðahrepps heldur en við mig og er þó að sjálfsögðu reiðubúinn með ánægju að mæta á fundi n., ef þess er óskað og þegar þess er óskað, en hinir kunnugustu menn greina þar náttúrlega ljósast frá. hverjar orsakir liggja til grundvallar fyrir beiðni þeirra. Að sama skapi tel ég sjálfsagt, að n. eigi viðræður um þetta við stjórnarvöld Hafnarfjarðar, hvort heldur er hv. þm. Hafnf. eða við bæjarstjóra, bæjarráð eða bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Skal ég svo ekki um það hafa fleiri orð.