02.04.1957
Neðri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (3253)

144. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann taldi það að leysa þetta vandamál, sem hér liggur fyrir, skv. því, sem lagt er fyrir í þessu frv., væri sama og að leysa það ekki.

Ég skal játa, að það er ekki hátt stefnt með því að fara fram á að leggja fram 5 millj. kr. á ári í þessu skyni. Raunverulega hefur aldrei verið farið lengra á undanförnum árum af hálfu Búnaðarbankans en að veita veðdeildarlán að hámarki 35 þús. kr., og náttúrlega er það allsendis ófullnægjandi.

Þegar við vorum að athuga þessi mál í mþn., reiknuðum við ekki með hærri upphæð en það, að það yrði þá farið í 50 þús. kr. á mann, og þær 5 millj., sem hér er farið fram á á ári, mundu þá nægja handa 100 mönnum. En eins og ég sagði áðan, er kunnugt, að það liggja fyrir óafgreiddar umsóknir hjá Búnaðarbankanum um lán úr veðdeild svo að skiptir hundruðum, svo að það er út af fyrir sig nokkuð til í því hjá hæstv. ráðh., að málið væri ekki fullnægjandi leyst, þó að þessi upphæð væri lögð fram. En að það sé þó ekki nokkur bót frá því aðgerðaleysi, sem verið hefur og er á þessu sviði, að fá þessa upphæð, það get ég ekki fallizt á, og þegar svo er komið, að hæstv. núverandi ríkisstj. hefur skv. áætlun hækkað útgjöld ríkisins að meðtöldum útflutningssjóði á einu ári um 400 millj. kr.. þá þykir mér það nokkuð kaldranalegt að fá þau svör, að það sé enginn eyrir til til þess að lána frumbýlingum til vélakaupa, bústofnskaupa og jarðakaupa.

Að það hafi sýnt sig á undanförnum árum, að þetta mál hafi ekki verið leyst eftir þeim leiðum, sem farið hafi verið fram á, sýnir ekki það, að við, sem höfum flutt till. í þessa átt, höfum ekki haft á réttu að standa, heldur hefur það sýnt hitt, að hér á Alþ. vantar skilning hjá meiri hluta þingmanna til þess að leysa þetta mál á eðlilegan og réttmætan hátt.

Það er út af fyrir sig ekki nema gott um það að segja, sem hæstv. forsrh. gat um í lok ræðu sinnar, að það væri verið að undirbúa það að útvega fjármuni til þess að leysa þetta mál, og að sjálfsögðu fögnum við flm. því, ef það verður gert. En fyrir fáum dögum átti ég tal við bankastjóra Búnaðarbankans, sem ætti allra manna helzt um þetta að vita, og hann hafði þá ekki neinar vonir um að fá neina fjármuni í veðdeild Búnaðarbankans á þessu ári. Hins vegar er það svo, að ef það er alvara hjá hæstv. ríkisstj. og hennar flokkum að leysa þetta mál á eitthvað fullkomnari hátt en hér er farið fram á, þá ber að fagna því. En ég vil þá mega vænta þess, að það komi eitthvað í ljós um það áður en þessu Alþ. verður slitið. — Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið, en vænti þess, að það gangi sína leið áfram.