26.10.1956
Efri deild: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

22. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið flutt á tveimur undanförnum þingum af okkur flm. þess nú. Enn fremur mun það hafa verið flutt einu sinni áður efnislega af núverandi hæstv. menntmrh. Frv. hefur hins vegar dagað uppi, það hefur verið flutt í Nd. og orðið þar á milli þils og veggja, ef svo mætti að orði komast, í hv. fjhn. En sú hv. n. hefur af hv. neðrideildarþingmönnum oft verið kölluð grafreitur margra mála og það jafnvel góðra mála.

Ég vil nú vænta þess, að þegar við flytjum þetta frv. hér í hv. Ed., fái það betri undirtektir, ekki sízt þar sem svo vill nú til, að einn af flm. þess frá undanförnum árum á nú sæti í hæstv. ríkisstj., hæstv. menntmrh. Vænti ég, að hann muni hafa góð áhrif á hæstv. fjmrh., sem mun hafa átt sinn þátt í því, að þetta sanngirnismál hefur ekki náð fram að ganga.

Þegar þetta mál var flutt upprunalega, þá er, eins og segir í grg. þess, um 80% verðtollur á hljóðfærum. En með lögum nr. 3 frá 29. jan. 1956, um bráðabirgðabreyting nokkurra laga, hækkaði álag á vörumagnstoll úr 250% í 340% og álag á verðtoll úr 45% í 80%. Með lögum nr. 4 31. jan. 1956, um framleiðslusjóð, var 9% framleiðslusjóðsgjald lagt á tollverð allra innfluttra vara að viðbættum aðflutningsgjöldum og 10% áætlaðri álagningu. Skv. sömu lögum skal greiða 3% framleiðslusjóðsgjald af sölu þeirri og veltu, sem skattskyld er. Eftir þessar breytingar er verðtollur á hljóðfærum kominn upp í 144%. Eftir er þá að reikna með vörumagnstolli og framleiðslusjóðsgjaldi.

Af þessum upplýsingum er það augljóst, hversu gífurlegan þátt tollarnir eiga í verðlagi á hljóðfærum eins og raunar flestöllum vörum, sem fluttar eru til landsins, að undanteknum þó nokkrum allra brýnustu nauðsynjum, sem vitað er að hafa verið undanþegnar þeim tollahækkunum, sem samþykktar hafa verið á síðustu árum.

Þessi gífurlega hæð tolla á hljóðfærum á að sjálfsögðu sinn þátt í því, að almenningur í landinu á stöðugt erfiðara með að eignast þessi tæki, sem telja verður frumskilyrði þess, að unnt sé að iðka almennt þá menningarstarfsemi, sem fólgin er í iðkun hljómlistar. Það er vissulega illa farið, að svo skuli vera komið, að í raun og veru geti aðeins efnafólk eignazt algengustu heimilishljóðfæri, en þau eru fyrst og fremst orgel og slagharpa.

Það er mikil] misskilningur, ef menn halda, að það séu aðeins einhverjar yfirstéttir í þjóðfélaginu, sem vilji eignast þessi tæki og iðka hljómlist. Allir menn, sem eitthvað þekkja til meðal almennings, vita það, að á fjölmörgum heimilum alþýðufólks til sjávar og sveita hafa á liðnum tíma verið til hljóðfæri, og þráin meðal fólks til þess að iðka hljómlist hefur verið mjög rík. Mér er næst að halda, að hún fari vaxandi. Það sést m.a. á því, að í fjölmörgum byggðarlögum hafa á undanförnum árum risið upp tónlistarskólar, sem byggðarlögin og einstaklingar hafa lagt mjög mikið á sig til þess að geta haldið uppi. Og mér þótti það allmerkilegt, að t.d. í morgun birtist í einu blaðanna frétt um það, að í miðju einu sveitarhéraði langt frá tónlistarstarfsemi þéttbýlisins hefði nýlega verið stofnaður tónlistarskóli. Þetta gerðist austur á Hvolsvelli í Rangárvallasýslu, ef rétt hefur verið farið með, sem ég dreg ekki í efa, í því blaði, sem skýrði frá þessu.

Þetta sýnir það, að þráin eftir því að iðka tónlist og nema hljóðfæraleik er fjarri því að vera á undanhaldi í landinu. Þvert á móti, með bættum efnahag þjóðarinnar, jafnari lífskjörum, gefur fleira og fleira fólk sér tóm til þess og getur veitt sér tóm til þess að iðka fagrar listir og þá ekki sízt þá listina, sem kölluð hefur verið drottning listanna, tónlistina.

Það er álit margra uppeldisfræðinga, að tónmenntun hljóti jafnan að verða snar þáttur í menningarlegu uppeldi fólksins. En til þess að iðkun hljómlistar geti orðið enn almennari en hún er í dag, þarf hljóðfæraeign í landinu mjög að aukast.

Með þessu frv. er lagt til, að niður verði felldir tollar af helztu hljóðfærum, sem til landsins eru flutt. Ég hef upplýsingar um það, að innflutningur á hljóðfærum til landsins hefur verið tiltölulega lítill á undanförnum árum, og sprettur það, eins og ég sagði, að mjög verulegu leyti af því, hversu tollar eru orðnir geysiháir og algengustu heimilishljóðfæri eru orðin dýr. Það er ekki hægt að fá nú sæmilegt píanó nema fyrir tugi þúsunda króna og orgel fyrir margar þúsundir króna.

Ég býst við því, að þeir, sem sitja við stjórn, þeir, sem gæta hagsmuna ríkissjóðsins, muni nú koma með þá mótbáru, að þetta muni kosta ríkissjóð allmikinn tekjumissi. Þetta er þó ekki að öllu leyti rétt, eins og aðeins er vikið að í grg. þessa frv.- Samkv. upplýsingum, sem við flm. fengum, þegar við fluttum þetta frv. upprunalega, voru flutt á árinu 1953, að ég hygg, inn hljóðfæri fyrir rúml. 975 þús. kr. að innflutningsverðmæti. Vörumagnstollur, verðtollur og söluskattur af þessum innflutningi nam hins vegar rösklega 915 þús. kr. Eftir að tollarnir hafa verið hækkaðir, eins og ég gat um í upphafi máls míns, eru tekjur ríkissjóðs nokkru meiri, miðað við svipaðan innflutning og var fyrir þremur árum.

Ég hef ekki nákvæmar tölur um það, hvað innflutningurinn hefur verið mikill t.d. á s.l. ári, en mér er næst að halda, að hann hafi verið svipaður og hann var árið 1953. Sú mótbára stenzt þess vegna trauðla, að ríkissjóður missi mikils í af tekjum, þó að þetta frv. verði samþykkt.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. hafi nú með því að fá hæstv. menntmrh. með sér í stjórn, sem hafði mjög góðan skilning á þessu á tveimur s.l. árum, öðlazt aukinn skilning á þessu, og í stað þess, að málið sofnaði undanfarin ár í fjhn. hv. neðri deildar, þá vænti ég nú, að hv. fjhn. geti í góðri samvinnu bæði við hæstv. fjmrh. og menntmrh. afgreitt þetta mál og Alþ. samþykkt það sem lög á þessu þingi og þannig sýnt enn einu sinni skilning sinn á því fyrir menningarlíf þjóðarinnar, að fagrar listir séu iðkaðar í landi hér.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.