15.11.1956
Efri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

52. mál, vegalög

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að samgöngur eru hyrningarsteinn atvinnuveganna í okkar landi og þá ekki sízt landbúnaðarins. Bændur þurfa að hafa vegi til þess að koma afurðum sínum frá sér á markaðsstaði við sjávarsíðuna, til kaupstaða og sjávarþorpa, og fólkið í sjávarbyggðunum þarf á þessum afurðum bændanna að halda, þar sem landbúnaðarafurðirnar eru ein hollustu matvæli, sem Íslendingar eiga völ á. Það er þannig sameiginlegt hagsmunamál fólks í sveitum og við sjávarsíðu, að vegasamband sé sem bezt og samgöngur sem greiðastar í landinu.

Það er staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að á Vestfjörðum, einkanlega norðanverðum Vestfjörðum, við Ísafjarðardjúp og í norðurhluta Strandasýslu, hafa samgöngubætur á landi gengið tregar en í ýmsum, ef ekki flestum öðrum landshlutum. Hefur þetta átt sinn þátt í því, að fólk hefur flúið frá framleiðslu til lands og sjávar í þessum landshlutum í ríkara mæli en víðast hvar annars staðar.

Við Ísafjarðardjúp hefur nú verið tekinn í þjóðvegatölu vegur meðfram endilöngu Djúpinu að sunnanverðu, allt til Bolungavíkur. Að norðanverðu við Djúpið hefur verið tekinn í þjóðvegatölu vegur út að Sandeyri, eftir Langadalsströnd og Snæfjallaströnd, allt út til Sandeyrar, sem er allutarlega við norðanvert Djúpið. Að þessari leið hefur þegar verið lagður vegur að innan út í Mjóafjarðarbotn og nokkur hluti miðsvæðis í Djúpinu, frá Bryggju í Ögurvík inn að brú á Laugardalsá í Laugardal, og að utan frá Bolungavík inn í Álftafjarðarbotn. Með þessum vegum hafa sjávarbyggðirnar að sunnanverðu við Djúpið verið tengdar með akvegum, og þrír sveitarhreppar inni í Djúpinu hafa fengið þjóðveg byggðan um töluverðan hluta sveita sinna. Að norðanverðu við Djúpið hefur vegur verið lagður út Langadalsströnd um Snæfjallaströnd allt út þar, sem heitir Unaðsdalur. Eftir er þar að byggja brú á eitt mesta fljót á Vestfjörðum, Mórillu í Kaldalóni sem er mikið verk og dýrt.

Við Ísafjarðardjúp er vegagerð þannig það á veg komin, að nokkur hluti sýslunnar hefur vegasamband innbyrðis. En ekki er kominn þjóðvegur meðfram sunnanverðu Djúpinu öllu, þannig að Ísafjarðarkaupstaður er ekki kominn í samband við akvegakerfi landsins í heild. Er nú lögð höfuðáherzla á að skapa þetta samband. Ég skal ekki í þessu sambandi fara að minnast á það, að að sunnanverðu frá Barðastrandarsýslu yfir í Arnarfjörð hefur einnig verið unnið að því að skapa vegasamband við norðanverða Vestfirði. Ég álít, að það sé mjög gagnlegt, að það gerist einnig, að það skapist vegasamband beggja vegna, og það beri að vinna jöfnum höndum að því. Það yrði til mjög mikils hagræðis fyrir Vestur-Ísafjarðarsýslu og fyrir Barðastrandarsýslu, að vegur kæmi, eins og ráðgert hefur verið, yfir heiðar norður í Arnarfjörð og skapaðist þannig að suðurleiðinni akvegasamband við Ísafjarðarkaupstað og byggðarlögin við Ísafjarðardjúp. Að báðum þessum leiðum, sem sagt um Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu og meðfram sunnanverðu Ísafjarðardjúpi á að koma vegur, sem getur skapað möguleika fyrir hringkeyrslu um Vestfirði. Það er, eins og ég sagði, lögð höfuðáherzla á það nú að skapa þetta samband við sunnanvert Djúpið og koma þannig sveitunum þar í akvegasamband innbyrðis og í samband við akvegakerfi landsins.

Með þessu frv. er lagt til, að nokkrir vegir í Norður-Ísafjarðarsýslu verði teknir í þjóðvegatölu. Það er í fyrsta lagi vegur frá Sandeyri, þ.e.a.s. við norðanvert Djúpið, yfir Snæfjallaheiði að Sætúni í Grunnavík. Þar fyrir norðan Bjarnarnúp er lítill hreppur, sem hefur barizt við að halda sinni byggð. Um hann hefur verið lagður þjóðvegur, um byggð hans nærri alla, þ.e.a.s. úr Grunnavík og inn á sveitina þar fyrir innan. Hins vegar hefur ekki verið unnt enn þá að leggja veg alla leið norður í Reykjarfjörð á Ströndum, sem er eini bærinn, sem nú er þar í byggð fyrir norðan svokallaða Skorarheiði.

Það er í fyrsta lagi lagt til með þessu frv., að þjóðvegur verði framlengdur frá Sandeyri norður í Grunnavík, þannig að hægt verði að fara landleiðina alla leið þangað norður. Í öðru lagi er lagt til, að tekinn verði upp nýr þjóðvegur, Laugardalsvegur, af Ögurvegi hjá Laugardalsárbrú fram Laugardal að Efstadal. Þetta er mjög blómleg dalbyggð, og hefur verið byrjað á að leggja sýsluveg fram dalinn, hreppurinn hins vegar mjög lítill og getur lítið lagt fram í þessu skyni. Sýslan á heldur ekki mikið aflögu til þess að leggja í vegaframkvæmdir, þannig að hreppsnefndin hefur farið þess á leit hvað eftir annað og ég hef raunar flutt till. um það hér á þingi áður, að þessi vegur yrði tekinn í þjóðvegatölu.

Í þriðja lagi er lagt til með þessu frv., að tekinn verði í þjóðvegatölu Reiðhjallavegur, af Bolungavíkurvegi í mynni Syðri-Dals að Reiðhjallavirkjun, sem er fremst frammi í svokölluðum Syðri-Dal, en þar er nú unnið að því að byggja 600 hestafla orkuver fyrir Hólshrepp, Bolungavík og sveitirnar í nágrenni kauptúnsins. Það er mjög nauðsynlegt, að góður vegur verði lagður þarna um og honum verði vel við haldið, ekki sízt vegna þess, að orkuver er nú að rísa þarna.

Þá felst í þessu frv. till. um að framlengja Bolungavíkurveg frá Bolungavík út í Skálavík ytri, sem er vestasta byggðin í Norður-Ísafjarðarsýslu, á mörkum Vestur-Ísafjarðarsýslu og Ísafjarðardjúps. Þar er blómlegur landbúnaður og allmikið sótt til heyfanga þangað frá Bolungavík, og bændur þar selja enn fremur afurðir sínar til kauptúnsins, þannig að það er mjög nauðsynlegt að fá þann veg tekinn í þjóðvegatölu.

Í fjórða lagi felst svo í frv. þessu till. um að taka í þjóðvegatölu álmu af Snæfjallastrandarvegi eða Ármúlavegi fram í svokallaðan Skjaldfannadal, sem er stutt leið til tveggja bæja, þar sem rekinn er mjög þróttmikill búskapur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. Hv. þdm. eru kunnugir vegalögum, og ég veit, að sú hv. n., samgmn., sem fær þetta mál til meðferðar, muni hafa um afgreiðslu þess samráð við hv. vegamálastjóra, sem þessi mál heyra undir. En eins og ég sagði, þá er frv. þetta flutt í samræmi við óskir hreppsnefnda í ýmsum hreppum Norður-Ísafjarðarsýslu, sem telja það mikils um vert að fá þá vegi, sem hér um ræðir, tekna í þjóðvegatölu.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. samgmn.