06.12.1956
Efri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

77. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o. fl.

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi flutti ég ásamt þáv. hv. þm. Barð. (GíslJ) frv. shlj. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 113, en þá var frv. afgr. með rökstuddri dagskrá hér úr deildinni. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Deildin lítur því svo á, að aðkallandi sé, að fram sé látin fara heildarendurskoðun á l. nr. 77 5. júní 1947, um félagsheimili, og að í þeim lögum verði sett ákvæði um það, að saman skuli fara sem mest byggingarframkvæmdir félagsheimila og framlög úr félagsheimilasjóði, enda verði sjóðnum séð fyrir eðlilegum tekjum til þess að mæta útgjöldum, og í trausti þess, að ríkisstj. láti framkvæma endurskoðun laganna á þessum grundvelli og leggi síðan till. til breyt. á lögunum fyrir næsta reglulegt Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Síðan hef ég engar fregnir haft af þessu máli, og það bólar ekkert á neinum till. frá hæstv. ríkisstj. til lausnar á málinu.

Ég þykist þess fullviss, að allir hv. þingdeildarmenn, ekki sízt þeir, sem utan af landsbyggðinni eru, séu mér sammála um það, að brýn nauðsyn sé að koma upp félagsheimilum í sveitunum. Með félagsheimilum er að því stefnt að gera unga fólkinu kleift að halda uppi félagsstarfi. En það er blátt áfram frumskilyrði þess, að unga fólkið fáist til að una hag sínum í sveitunum, að það geti varið tómstundum sínum við heilbrigt félagsstarf.

Nú eru þessi mál öll í fullkominni óreiðu. Hvaðanæva að af landinu berast beiðnir um byggingu félagsheimila, og geti félögin herjað út fjárfestingarleyfi, þá byrja þau byggingu, því að venjan er sú, að byrjað er að byggja félagsheimilin fyrir gjafafé og gjafavinnu, en þessi þegnskaparvinna er ótrúlega mikil. Hún er unnin jafnt af konum sem körlum, ungum

sem gömlum og lýsir mikilli fórnfýsi. Hún sýnir, að fólkið vill mikið á sig leggja til þess að fá félagsheimili. En svo, þegar leitað er til ríkisins eftir hinu lögboðna framlagi þaðan, þá er svarið jafnan þetta eitt og sama: Ekkert fé til - og skuldir hrúgast upp jafnt og þétt.

Ég spyr: Hvað á að gera til þess að ráða bót á þessu? Á að banna byggingu félagsheimilanna strax í byrjun og þar með myrða fórnfýsi fólksins? Eða er hitt hyggilegra, að auka tekjur félagsheimilasjóðs þannig, að hann verði fær um að sinna hlutverki sínu? Ég held, að sú leið sé heilbrigðari og réttara að fara hana.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er reynt að ráða hér nokkra bót á. Í frv. er lagt til, að félagsheimilasjóði verði á ný tryggður sá hluti skemmtanaskattsins, sem hann hafði til 1. jan. 1952, þ.e. 50% skattsins í stað 35% nú.

En séu væntanlegar einhverjar tillögur frá hæstv. ríkisstjórn, sem ráða bót á þessu máli, þá fagna ég því.

Ég leyfi mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.