10.12.1956
Efri deild: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

79. mál, hlutur sveitarfélaga af söluskatti

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Um margra ára skeið hefur það verið flestum mönnum ljóst, að nauðsyn væri að endurskoða fjárhagsmálefni sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa, eins og kunnugt er, svo til eingöngu einn tekjustofn, sem er útsvörin. Mikið af útgjöldum þeirra er lögboðið, og hefur ríkisvaldið á undanförnum árum hvað eftir annað hlaðið nýjum útgjöldum á sveitarfélögin, sem þeim er lögskylt að inna af hendi, án þess að sjá jafnframt fyrir tekjum og þar með vísað aðeins á hækkun útsvaranna.

Á fundum Sambands íslenzkra sveitarfélaga og bæjarstjórafundum hafa þessi mál verið margsinnis rædd, og ætla ég, að allir, sem við sveitarstjórnarmál fást, séu á einu máli um, að við svo búið má ekki lengur standa. Hefur þá verið rætt um það jöfnum höndum, ýmist að létta lögboðnum útgjöldum af bæjar- og sveitarfélögunum eða á hinn bóginn að afla þeim nýrra tekjustofna, sem ekki verður nema með lögum. Varðandi fyrra atriðið hefur einkum verið um það rætt að létta af sveitarfélögunum kostnaði við fræðslumál, við tryggingamál, við lögreglumálefni og raunar fleira. Ekkert af þessu hefur þó fengizt fram enn þá. Á hinn bóginn hefur svo margsinnis verið um það rætt að afla sveitarfélögunum nýrra tekjustofna, einkum í því formi, að á meðan söluskattur er álagður og innheimtur, skuli sveitarfélögin fá hluta af honum. Fyrir að ég ætla fjórum árum var samþykkt þál. í sameinuðu Alþingi um að endurskoða fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, verkaskiptingu ríkisins og þeirra og gera tillögur til umbóta í þessum efnum. Kosin var nefnd manna í þessu skyni, og skilaði hún frá sér till. um nokkurn þátt í skattamálefnum ríkissjóðsins, en varðandi þessi meginmál bæjar- og sveitarfélaganna hefur lítið frá henni heyrzt.

Sveitarfélögin hafa beðið í þolinmæði eftir einhverjum till. til umbóta, en þær hafa ekki komið. Hins vegar hefur enn verið haldið áfram á þeirri leið að bæta nýjum og nýjum útgjöldum á sveitarfélögin, og er þess skemmst að minnast, að í sambandi við lausn vinnudeilunnar vorið 1955 var svo ákveðið, að sveitarsjóðirnir skyldu greiða nokkurt framlag eða til hálfs við ríkissjóðinn sjálfan í atvinnuleysistryggingasjóð. Var það síðan lögfest á s.l. þingi. Ekki var þá heldur hugsað fyrir því að afla sveitarfélögunum tekjustofna til að standa undir þessu og raunar ekki einu sinni sýnd svo mikil tillitssemi, að sveitarfélögin fengju að tilnefna einn einasta mann í stjórnarnefndir þessara atvinnuleysistryggingasjóða.

Til þess að koma nú nokkurri hreyfingu á þessi mál og rétta að nokkru hlut sveitarfélaganna hef ég tekið upp hér að nýju frv., sem flutt var fyrir nokkrum árum, um það, að sveitarfélögin skuli fá hluta af söluskatti. Efni þessa frv, er um það, að meðan innheimtur er söluskattur til ríkissjóðs, skuli fjórðungur skattsins renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skiptast þaðan milli bæjar- og hreppssjóða, eftir þeim reglum, sem í lögum þessum segir. En í 2. gr. segir svo um það nánara, að tekjum jöfnunarsjóðs af söluskatti skuli skipt milli bæjar- og hreppsfélaga eftir fólksfjölda, eins og hann var samkv. manntali næstliðins árs. Þá eru enn fremur ákvæði um það í 3. gr., að falli ábyrgðarskuldbindingar á ríkissjóð vegna sveitarfélags, sé félmrh. heimilt að ákveða, að hluti sveitarfélagsins af söluskattinum gangi til greiðslu á slíkum kröfum.

Ég vænti þess, að frv. þetta fái góðar undirtektir, enda hafa á undanförnum árum alþingismenn úr öllum þingflokkum lýst sig fylgjandi þessari leið.

Nú mun því ef til vill svarað, að með þessu sé ráðizt harkalega á ríkissjóðinn og hann muni ekki þola slíka blóðtöku. En þau andmæli fá ekki staðizt. Ef litið er yfir söluskatt þriggja síðustu ára, þá kemur í ljós, að hann hefur farið stórkostlega fram úr áætlun á hverju ári. Árið 1954 var söluskatturinn áætlaður í fjárlögum 951/2 millj. kr., en varð 117.6 millj., eða fór 23% fram úr áætlun. M.ö.o., hann fór fram úr áætlun sem næst því hlutfalli, sem með þessu frv. er ætlað að sveitarsjóðirnir fái. Árið 1955 var hann áætlaður 112 millj., en varð í reynd 132.7 millj., fór 18.5% fram úr áætlun. Á þessu ári, sem nú er að líða, má gera ráð fyrir að söluskatturinn fari einnig mjög verulega fram úr áætlun. Þó að sem sagt sveitarfélögunum eða jöfnunarsjóði þeirra væri þannig ætlaður fjórðungur söluskattsins, má gera ráð fyrir, að ríkissjóður mundi engu að síður fá eftir reynslu undanfarinna ára um það bil þá upphæð, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum að hann fái af þessum tekjustofni.

Ég vænti þess, að mál þetta, sem er mikið nauðsynjamál fyrir öll sveitarfélög landsins, fái góðar undirtektir í þessari hv. deild, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.