17.12.1956
Efri deild: 31. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3288)

84. mál, breyting á framfærslulögum

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um breytingu á framfærslulögum, sem hér liggur fyrir, varðar samskipti sveitarstjórna og þess fólks, sem sakir elli eða örorku er ekki megnugt þess að sjá sér farborða.

Það er alkunnugt, að ellilaun og örorkubætur samkv. gildandi lögum um almannatryggingar eru nú ekki það háar, að nokkur leið sé til þess að lifa af þeim sómasamlegu lífi einum saman, og allra sízt eru þessar bætur nægjanlegar, þegar viðkomandi getur ekki haldið hús eða heimili og verður að dvelja á elliheimilum eða öðrum hliðstæðum stofnunum eða annars staðar, þar sem fullu verði verður að gjalda dvalarkostnað. Fyrir það fólk, sem þannig er ástatt um og ekki hefur framfærsluskylda vandamenn við að styðjast eða á eignir eða reiðufé, verður það óhjákvæmilega þrautalending að leita eftir framfærslustyrk fyrir þeim mismun, sem er á dvalarkostnaði viðkomandi og elli- og örorkubótunum, eins og þær eru á hverjum tíma.

Með ákvæðum í 37. gr. framfærslulaganna er sveitarfélögum tryggður réttur til þess að taka til sín allar bótagreiðslur styrkþega, sem þannig er ástatt um, og mun framkvæmdin yfirleitt vera sú, að þessi réttur sé notaður til fulls. Af þessu ákvæði og framkvæmd þess leiðir óhjákvæmilega, að styrkþeginn er í rauninni sviptur öllum fjárráðum og verður að sækja allar þarfir sínar, smáar sem stórar, undir framfærslunefndir og sveitarstjórnir. Nú er lögunum um almannatryggingar auðvitað ætlað það hlutverk að gera líf sjúkra manna, örkumla og ellihrumra bærilegra, og vissulega orka þau verulega í þá átt, þrátt fyrir ýmsa annmarka og vankanta, sem leitazt verður við að sníða af þeim smátt og smátt. En fyrir þetta fólk, sem hér ræðir um og er efnahagslega verst sett allra þjóðfélagsþegna, auk þess sem það á við aðrar raunir að búa, er raunverulega harla lítil réttarbót að tryggingunum. Þær þýða í þessum tilfellum raunverulega aðeins það, að framfærslustyrkurinn verður minni en ella, og svara því ekki tilgangi sínum um hagsbætur til handa þeim, sem þiggja þær. Þær verða þarna í reyndinni aðeins ákvæði um það, hvernig hinni raunverulegu framfærslu er skipt milli Tryggingastofnunarinnar og sveitarfélaganna.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir nokkru frjálslegri og menningarlegri samskiptum sveitarstjórna og bótaþega elli- og örorkulauna en tíðkazt hafa. Þar er gert ráð fyrir, að bótaþegunum sé ætíð tryggður ráðstöfunarréttur á fjórðungi lífeyrisins til þess að mæta hinum smærri persónulegu þörfum, sem að sjálfsögðu eru mismunandi eftir aðstöðu og hugðarefnum hvers og eins.

Flm. telja, að með þessum hætti sé betur tryggt en nú er, að tryggingalöggjöfin svari þeim tilgangi sínum að gera hlut olnbogabarna þjóðfélagsins betri og líf þeirra bjartara. Þeir telja ekki aðeins, að það sé með öllu óþarft að neyða þetta fólk til sífelldra bænargerða til framfærslunefnda og sveitarstjórna, heldur beinlínis, að í því felist virðingarleysi fyrir tilfinningum þess, tilfinningum, sem oft og tíðum eru næmari en annarra manna af skiljanlegum ástæðum. Enda þótt framfærslustyrkur til þurfandi manna sé lögfestur réttur, en engin ölmusa, verður ekki fram hjá því gengið, að í hugum mjög margra manna er það lítillækkandi að leita slíkrar hjálpar og þau spor þung, sem gengin eru til að leita eftir henni. Við viljum með þessari breytingu fækka þeim sporum aldurhniginna og örkumla einstæðinga og koma í veg fyrir handahófslega og tilviljunarkennda framkvæmd á framfærsluréttinum, sem óhjákvæmilega leiðir af því, að engin ákveðin regla er gildandi um aðstoð til handa þessu fólki eða hvernig henni skuli hagað.

Við teljum einnig, að með lögfestingu þessara breytinga sé betur en nú er viðurkenndur og tryggður réttur þessa fólks til þess að móta sjálft líf sitt. Við teljum það óhæft, að þeim, sem oft eiga lengstan starfsdag að baki í þjóðfélaginu og hafa borið skarðastan hlut frá borði að kvöldi, sé sýndur minni trúnaður til fjárráða en nærri því að segja óvita börnum er oft veittur, og teljum það ekki viðunandi, að það sé háð neinu handahófsmati, hvort smærri þörfum slíks fólks, þörfum, sem þó geta oft haft mikla þýðingu fyrir líðan þess, sé sinnt eða ekki.

Við bendum á, að á Norðurlöndum, a.m.k. sumum, ef ekki öllum nema hér, er lögfest lágmarksfjárráð þeirra, sem dveljast t.d. á elliheimilum. Samkv. heimildum, sem ég hef undir höndum, var þessi lágmarksupphæð í Svíþjóð fyrir tveimur árum 200 sænskar kr. á ári, en í framkvæmdinni er hún talin oftast mun meiri, eða um 350 kr. á ári, og er þessi upphæð tekin af tryggingalífeyri viðkomandi manna, en afgangurinn gengur til greiðslu dvalarkostnaðar.

Fátt mun betri leiðarvísir um menningu þjóðar en það, hvernig hún býr að því fólki, sem þungbærast hlutskipti hreppir í lífinu vegna sjúkdóma, örkumla eða elli. Við Íslendingar erum stoltir af ýmsu, sem gert hefur verið fyrir þetta fólk. Reykjalundur hefur verið eftirlætisbarn þjóðarinnar. Dvalarheimili aldraðra sjómanna, mikilli stofnun og veglegri, er ætlað að búa sjómönnum okkar björt ævikvöld. Framkvæmdir sem þessar sýna, að þjóðin sér ekki eftir því, sem varið er til slíkra hluta af viti og fyrirhyggju, og að hún vill ekki, að neinn ölmusubragur sé á aðstoðinni til handa gamla fólkinu eða þeirra, sem vanheilir eru.

Nú tel ég raunar vafasamt, að sú breyting, sem hér er lagt til að gerð verði á 37. gr. framfærslulaganna, leiði af sér nokkur umtalsverð útgjöld fyrir sveitarfélögin. En þótt þau væru einhver, er ég þess fullviss, að enginn teldi þau eftir.

Ég vil svo að lokum skýra frá því, að þetta frv. er flutt í samræmi við samþykkt, sem gerð var einróma á 25. þingi Alþýðusambands Íslands um þetta efni.

Ég tel ekki þörf á að fara um þetta fleiri orðum. Ég vænti góðs stuðnings allra hv. þdm. við þetta mál og tel, að um það ætti ekki að þurfa að vera mikill ágreiningur. Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.