24.01.1957
Efri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (3295)

88. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að gera örstutta athugasemd við ræðu hv. þm. V-Sk. í sambandi við það mál, sem hér er til umræðu. Hv. þm. mæltist til þess, að mér skildist, að málið færi til nefndar og að nefnd, sem fengi það til athugunar, legði til um bráðabirgðaákvæði, sem heimiluðu þennan hátt á innheimtunni, en að hann yrði ekki lögákveðinn eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil benda hv. þm. á, að þessi heimild er þegar til. Hún er einmitt í 4. gr. l. um samþykktir um sýsluvegasjóði. Þar er einmitt ákveðið, að hreppsfélagi sé heimilt að greiða sýsluvegasjóðsgjaldið úr sveitarsjóði að nokkru eða öllu leyti, sé það samþykkt með meiri hl. atkvæða á lögmætum sveitarfundi.

Þessi heimild, eins og ég gat um eða drap á í framsöguræðu, hefur verið notuð í 10 af 12 hreppum í Eyjafjarðarsýslu, og ég verð að segja það af þeirri reynslu, sem ég hef af framkvæmd þessara laga, bæði í þeim hreppum, þar sem greiðsla vegasjóðsgjaldsins fer fram beint úr sveitarsjóði, og eins úr hinum, þar sem skrifstofa mín sér um innheimtu á vegasjóðsgjaldinu, að þar er tvennu ólíku saman að jafna.

Ég get því miður ekki sagt sömu sögu og hv. þm. um það, að þessi gjöld innheimtist yfirleitt á manntalsþingum, því að það er þannig í þeirri sýslu, sem ég veiti forstöðu, að þar sækja menn mjög lítið manntalsþing og þinggjöld greiðast yfirleitt alls ekki nema að mjög litlu leyti á manntalsþingum og innheimtan dregst því meira og minna, eins og þekkt er í kaupstöðum landsins. þó að það sé ef til vill talsvert betri innheimta í sýslunni.

Hins vegar hefur það verið svo, að sýsluvegasjóðsgjaldið, sem greiðist úr sveitarsjóðum, hefur í mörgum tilfellum verið greitt á manntalsþingi, og í öðrum tilfellum, þegar greiðslan hefur ekki farið fram á manntalsþingum, hefur ekki liðið á ýkja löngu, þar til greiðsla gjaldsins hefur farið fram. Það byggist á því, að hrepparnir hafa þá, þegar manntalsþing eru haldin, fyrir æði löngu verið búnir að jafna niður útsvörum og útsvarsinnheimtan hefur verið komin vel á veg, en manntalsþing hafa yfirleitt ekki verið háð fyrr en síðast í júní eða í júlímánuði. Hins vegar hefur það ævinlega verið svo, að um áramót hafa verið einhverjar eftirstöðvar óinnheimtar af sýsluvegasjóðsgjöldum í þeim hreppum, þar sem sýsluvegasjóðsgjaldið er lagt á af skrifstofu minni sem skattur af fasteignum, en engar eftirstöðvar þar, sem það er greitt beint úr sveitarsjóði.

Ég verð því að halda mér við þá skoðun mína, sem ég lýsti í framsöguræðu, að ég tel, miðað við þá reynslu, sem ég hef af þessum hlutum, að þetta frv. sé spor í rétta átt og miði að því að auðvelda innheimtu þinggjalda, en það er aðalatriðið með flutningi frv.