08.02.1957
Efri deild: 53. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

107. mál, lögreglustjóri í Bolungavík

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Í 2. gr. l. nr. 14 1934, um lögreglustjóra í Bolungavík, er gert ráð fyrir því, að lögreglustjóranum sé skylt, ef hreppsnefnd óskar þess, að gegna störfum hreppsnefndaroddvita og þar með innheimtu allra hreppsgjalda. Er gert ráð fyrir því, að hann taki fyrir það laun úr sveitarsjóði samkv. samningi milli hreppsnefndar og ríkisstj. Þannig hefur þetta alllengi verið á þessum stað, að þessi embættismaður, lögreglustjórinn, hefur jafnframt gegnt oddvitastörfum fyrir hreppinn:

Á s.l. sumri varð það hins vegar að ráði, að hann hætti að gegna þessu starfl, og hafði hreppsnefndin þá í hyggju að stofna til sértaks sveitarstjórastarfs í Bolungavík. Af þessu leiddi hins vegar það, að laun þessa embættismanns rýrnuðu að miklum mun, þannig að ekki verður sagt, að embætti hans sé lífvænlegt, eftir að þessi breyting hefur verið á gerð. Lögreglustjórinn hefur tekið laun samkv. IX. flokki launalaga, meðan hann hefur gegnt oddvitastarfinu jafnframt, en þessi launaflokkur veitir nokkru lægri laun en fulltrúar hliðstæðra embættismanna njóta annars staðar. Þó má geta þess, að störfin við embætti þessa lögreglustjóra, sem er sá eini á landi hér, sem þannig stendur nú á um, hafa aukizt allverulega. T.d. með lögunum um meðferð opinberra mála 1927 og 1951 var honum fengið dómsvald í öllum opinberum málum, en hafði áður aðeins dómsvald í minni háttar lögreglumálum. Enn fremur má geta þess, að ætlunin mun vera, að hann fari framvegis með einkamál yfirleitt. Það var gert ráð fyrir því í frv. því til nýrra einkamálalaga, sem lagt var fram á Alþingi árið 1955.

Með þessu frv. er lagt til, að þar sem laun þessa embættismanns hafa rýrnað svo mjög við það, að hann hefur látið af störfum fyrir hreppinn, verði lögákveðið, að hann taki laun samkv. VI. flokki launalaga eða sama launalagaflokki og aðrir hliðstæðir embættismenn.

Þetta mál liggur ljóst fyrir. Ég hygg, að hér sé um hreint sanngirnismál að ræða. Það er alveg auðsætt, að þessi embættismaður getur ekki lifað á þeim launum, sem hann fær nú, eftir að hafa látið af störfum fyrir hreppinn.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að þetta mál hefur verið rætt við stjórn Félags héraðsdómara, og mér er persónulega kunnugt um, að form. félagsins er mjög hlynntur því, að frv. þetta nái fram að ganga. Ég tel þó sjálfsagt, að sú hv. þn., sem fær málið til meðferðar, sendi þessum stéttarsamtökum héraðsdómara málið til umsagnar. — Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn., og vænti ég, að málið fái þar greiða og góða afgreiðslu.