09.05.1957
Efri deild: 96. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (3322)

165. mál, sala Granda og Skógarkots

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þessar tvær jarðir, sem við þrír þm. flytjum frv. um að ríkisstj. sé heimilt að selja, eru hvorar tveggja eyðijarðir.

Ég skal fyrst minnast aðeins á Skógarkot. Það er eyðijörð, sem nú heyrir undir Hvanneyri. Það var kirkjujörð frá Hvanneyri og liggur undir Hvanneyrina núna.

Þegar Árni Magnússon er á ferðinni, kallar hann Skógarkotið eins hundraða jörð, segir þar ekkert tún, en sé bjarglegur skógur til eldiviðar, enginn til kolagerðar og enginn til raftagerðar, tún sé þar ekkert og engar engjar, en ábúandanum, sem þar sé þá og hafi 2 kýr og 12 kindur, sé heimilað að slá svokallaðar Kirkjutungur, sem eru engjastykki frá Hvanneyri, sem liggur langt burtu. Hann bendir þá á það þegar, að það sé óeðlilegt, að jörðin sé ekki inni í Grjóteyri, land jarðarinnar liggi inni í miðju Grjóteyrarlandi eins og dálítil löng og mjó spilda og sé eðlilegast, að það sé nytjað þaðan.

Í Johnsens-jarðatalinu er þetta orðin eyðijörð. Þá er sagt nákvæmlega það sama og Árni telur, það sé mjög óeðlilegt í alla staði, að jörðin liggi undir Hvanneyri, en sé nytjuð frá Grjóteyri, en þó geti aldrei orðið um sjálfstæða jörð þar að ræða, ekkert tún og ekkert engi.

1942 var landið metið á 400 kr., og það var svo þrefaldað eins og aðrar jarðir í Borgarfjarðarsýslunni við fasteignamatið, sem nú er að öðlast gildi, og er þess vegna landið metið á 1200 kr. Þetta land er sem sagt löng og mjó ræma, sem skerst frá hægri hönd, þegar þið keyrið norður, rétt áður en þið komið að Grjóteyri, upp í Grjóteyrarlandið, alveg upp til fjalls, og er 1600 m á lengd og mjótt. Partur af því, hér um bil helmingurinn norðan til í því, er uppblásið land, holt og melar, en hinn hlutinn er vaxinn skógarkjarri. Þetta land hefur verið notað annað veifið af þeim, sem hafa búið á Hvanneyri, ekki nú þó síðan seinast, að Runólfur sálugi Sveinsson var skólastjóri á Hvanneyri. Hann notaði það eitt sumar. Og það hefur verið notað á sömu lund, að reka þangað stóð, ótamin hross, sem gengið hafa í Hafnarskógi og Grjóteyrarlandi, sem liggur þarna að. En allir vita, að í þetta land út af fyrir sig væri ekki hægt að reka neitt.

Það hefur komið til tals að fá þetta land handa Nautgripasambandi Borgarfjarðar fyrir nautagirðingu. Það er mjög illa til þess fallið, það er ekki nema sáralitið af kýrgæfu haglendi í landinu, og það er ákaflega áveðra, eins og kannske einhver hefur einhvern tíma fundið, sem farið hefur fyrir Hafnarfjall, hvernig verið gæti að vera þar, tig algerlega skjólalaust. Það er þess vegna talið óheppilegt til þeirra hluta og mun líklegast aldrei verða til þess notað, þó að það sé talað um nú sem stendur að nota það þannig.

Fjórir af hreppsnefndarmönnunum mæla með sölunni, en einn nm., sem er í stjórn nautgripasambandsins, vill athuga nánar, hvort ekki sé mögulegt að finna einhverja leið til að nota það fyrir naut að sumrinu, sem allir kunnugir telja að ekki sé hægt.

Þetta er að segja um Skógarkot. Og það, sem við leggjum til, er, að orðið sé við þeirri ósk bræðranna, sem búa á Grjóteyri, Óskars og Aðalsteins, — Óskar er nú talinn fyrir reyndar, — og leyft að selja þeim þetta land, sem er núna í fasteignamati 1200 kr., þegar búið er að þrefalda fasteignamatið í Borgarfjarðarsýslunni, og líklega vildi enginn maður kaupa það fyrir það verð, úrskipt og afgirt.

Um hina jörðina, Granda, sem liggur í Ketildalahreppi við Arnarfjörð, er ég ekki eins kunnugur. Ég hef ekki komið á jörðina sjálfa og þekki það ekki eins vel. Árni Magnússon telur hana tólf hundraða jörð. Þá, þegar hann er á ferðinni, er landsafgjald þaðan tvær vættir af fiski og þar að auki er ábúandanum gert að skyldu að mæta til róðra á skipi prestsins í Selárdal, hvenær sem hann óski, svo að hafi hann óskað þess oft, þá gat það orðið dálitið hátt afgjald. Hann segir þá um þessa jörð, að landið sé hrjóstrugt og mjög lélegir hagar, bærinn liggi undir skemmdum af tveimur ám, sem hann kallar Grandaá og Feitsdalsá, og það sé búið að þríflytja bæinn undan þessum ám. Hann segir, að þegar klakahlaup komi í árnar, þá flæði þær þarna yfir; þá flæði fyrst, þegar lítið sé, upp á það, sem hann kallar neðstu tóftirnar; þar hafi bærinn staðið að fornu; þegar meira komi, þá flæði þær upp á næstu tóftirnar, sem hann segir, og þegar mjög mikil hlaup komi, flæði þær í kringum sjálfan bæinn. Af þessu segir hann að bænum stafi hætta og túninu spjöll. Hann segir þá, að það séu á búinu tvær kýr, níu ær, fjórir gemlingar og fimm lömb, og segir, að heyskapurinn sé það mikill, að það sé hægt að fóðra þar þrjú kúgildi. Johnsens-jarðatal segir svipað um þetta. Það segir, að það sé tólf hundraða jörð, alveg eins og Árni segir, og þá er afgjaldið komið í hundruð og hálft hundrað á landsvísu.

Árið 1942 eru húsin þar virt á 1600 kr. og jörðin sjálf á 1600. Þá er heyjað þarna 60 hestar af töðu og talið, að megi heyja þar 60 hesta af útheyi. Þá voru þar 2 kýr og 40 kindur og 2 hross. Núna er þetta svipað. Túnið er 1,8 hektarar í sæmilegri rækt, það gefur af sér um 60 hesta, eins og það gerði. Engjar eru ekki nytjaðar.

Jörðin hefur verið í eyði nokkuð lengi. Hún er landlítil. Aðliggjandi jarðir hafa nóg land og telja sig ekki þurfa á þessu landi að halda, og það eru ekki líkur fyrir, að hægt sé að klípa út úr þeim land til viðbótar við Granda, svo að hægt sé að reisa þar nýbýli. Þess vegna er það, að það hefur verið fallizt á að hafa þessa jörð hér með og heimila sölu á henni. En sá, sem vill kaupa hana, er maður, sem þar bjó um eitt skeið. Nú er jörðin orðin húsalaus að kalla, það eru að vísu metin á henni hús núna, þegar búið er að hækka þau, á 2100 kr. Hann býr á Bíldudal, þessi maður, sem nú óskar eftir að fá jörðina keypta, og hugsar sér að slá hana þaðan. Hann hugsar sér að fá aðgang til þess að slá þetta tún, sem gefur um 60 hesta af töðu, og geta haft þær skepnur á Bíldudal, því að jörðin er ekki langt frá Bíldudal, þó að hún sé náttúrlega hvergi svoleiðis, að hún liggi að Bíldudalslandinu eða komi til greina sem slík. Við mælum með því, þessir flm., og flytjum þetta frv. til þess að greiða fyrir því, að þessum tveim mönnum, bóndanum á Grjóteyri og seinasta bóndanum, sem var á Granda, verði leyft að kaupa þessar jarðir eða ríkinu leyft að selja þeim þær.

Ég skal viðurkenna, að það er dálítið sitt hvað með þessar jarðir að því leyti til, að það er útilokað, að Skógarkotið nokkurn tíma verði nytjað sem sjálfstæð jörð, en ég vil ekki segja, að það sé alveg útilokað með hina. Ég vil ekki segja, að það væri ekki kannske með mikið aukinni ræktun alls staðar þarna í kring mögulegt, að þar skapaðist aðstaða til þess, að einhverjar af nágrannajörðunum vildu selja einhvern part til viðbótar við Granda, svo að hægt væri að búa þar. Ég vil ekki fullyrða það, en sá möguleiki er a.m.k. ákaflega langt fram undan og hann er ekki til staðar núna.

Ég óska eftir því fyrir hönd okkar flm., að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til landbn.

Ég skal geta þess með Granda, sem mér láðist að geta, að hreppsnefndin mælir óskipt með því, að jörðin sé seld.