07.02.1957
Sameinað þing: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

Varamenn taka þingsæti

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil í fáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni á fundi kjörbréfanefndar í morgun. Ég bar þar fram dagskrártillögu, svo hljóðandi:

„Kjörbréfanefnd telur það utan verksviðs síns, sbr. 4. gr. þingskapa, að fjalla um þetta mál, eins og það er fyrir hana lagt, og skilar því ekkí áliti á þessu stigi.“

Í 4. gr. þingskapa Alþingis er tiltekið, hvert sé hlutverk kjörbréfanefndar. Samkv. þeirri gr. er hlutverk nefndarinnar þríþætt. Í fyrsta lagi á hún að prófa kjörbréf, er síðar koma fram en svo, að þau verði prófuð eftir 1. gr., þ.e.a.s. í þingbyrjun. Í öðru lagi á hún að rannsaka kosningar og kjörgengi, er þingið hefur frestað að taka gilt. Og í þriðja lagi á hún að rannsaka kærur yfir kosningum eða kjörgengi, er þegar eru teknar gildar.

Undir ekkert af þessu kemst þetta mál, sem lagt var þó fyrir kjörbréfanefnd, og af þeim sökum fannst mér mjög vafasamt, að málið kæmi fyrir n. á því stigi, sem það var á. Í samræmi við þessa afstöðu mína á nefndarfundinum sat ég hjá við atkvgr., sem fól í sér afgreiðslu á málinu, og af þeim sökum einum sat ég hjá, er till., sem þar var samþykkt, var afgreidd.

Ég vil taka það fram skýrt, að með þessari afstöðu á fundinum lýsi ég ekki afstöðu minni til málsins sjálfs og áskil ég mér þar með allan rétt til að greiða atkv. í því eftir því, sem ég tel sannast og réttast, þegar þar að kemur.