22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Þetta frv. er að nokkru leyti ávöxtur af starfi n., sem skipuð var í tíð fyrrverandi ríkisstj., formlega af mér, en með samkomulagi innan ríkisstj., sérstaklega milli mín og hæstv. þáverandi félmrh., Steingríms Steinþórssonar, og er frv. í nánum tengslum, eins og hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir, við önnur frv., sem enn liggja fyrir hv. Ed.

Það er ljóst, að tímabært var orðið að endurskoða þessa löggjöf, og ber því að fagna, að árangur hefur orðið af. Hins vegar er ljóst, að þetta frv. er nokkuð annars eðlis en þær till., sem sú nefnd samdi, er ég áður gat um og skipuð var af fyrrv. ríkisstj. Mér finnst það á vanta við grg. þessa frv. og þó sérstaklega grg. um frv. um vísindasjóða, að glögglega komi fram, í hverju breytingarnar eru fólgnar. Það er að vísu auðvitað í höndum hæstv. menntmrh. að breyta till. stjórnskipaðra nefnda. Slíkt þarf ekki að taka fram, að til þess hefur hann fullan rétt, og sjálfsagt er, að hann geri það, eftir því sem honum þykir henta. Hann hafði þá aðferð í þessu máli að skipa aðra nefnd til viðbótar hinni fyrri. Það er að vísu óvenjulegra, að sú aðferð sé höfð. Ég skal þó ekkert setja út á það, — það var sjálfsagt á hans valdi að gera það, — en fyrir bragðið er í allri þessari frumvarpagerð mjög erfitt að átta sig á, hvað kemur frá hverjum, frá fyrstu n., frá annarri n. og svo loksins frá hæstv. menntmrh. sjálfum og menntamálaráðinu. Nú skal ég auðvitað ekki segja, að það skipti öllu máli að vita, hvaðan hvert ákvæði um sig er upprunnið. En vissulega hefur það þó a.m.k. fræðilega þýðingu, og fróðlegsatriðin eru ætíð nokkurs virði, og ég tel, að þegar þessi vinnubrögð eru viðhöfð, þurfi að fylgja nánari grg. en þessum frv. fylgir um það, hvað hver um sig af aðilunum hefur lagt til, vegna þess að það gerir mönnum auðveldara að átta sig á viðfangsefnunum. Það er hægara að sjá, hvar í vandinn og vafinn liggur, ef allar till. liggja ljóst fyrir, sem fram hafa verið bornar, og menn geta borið þær saman, heldur en einungis ef ein till. er borin fram og ekki gerð grein fyrir neinum öðrum.

Ég vil því mælast til þess, að hinu háa Alþingi verði gerð grein fyrir þessu nánar, hverjar hinar mismunandi till. eru. N. getur auðveldlega aflað sér upplýsinga um það og látið þær þá koma fram í sínu nál.

Þá vildi ég einnig beina því til hæstv. ráðh., að hann léti uppi, hvort menntamálaráðið hefur fengið þessar till. til umsagnar. Ég veitti því ekki athygli, að þess væri getið í frv. Það kann að hafa farið fram hjá mér. En vegna þess að þar eru menn, sem starfa að þessum málum, er mikilsvert, að þeirra álit fáist bæði í heild og hvers einstaks. Sjálfsagt hefur þess verið leitað, en þá er nauðsynlegt, að þingheimur fái vitneskju um það.

Eins er það ekki óeðlilegt, að leitað hafi verið álits þeirrar upphaflegu n., sem sett var til athugunar málsins. Ég geri einnig ráð fyrir, að svo hafi verið gert. En hafi svo verið, þarf sú grg., sem n. gerði fyrir afstöðu til hinna endanlegu till., einnig að koma fram.

Ég minnist þess, að þegar ég hafði slík mál til meðferðar, var það minn háttur að leita samkomulags við þær n., sem skipaðar höfðu verið til meðferðar málanna, og man ég ekki, að breytingar hafi verið á gerðar einstökum atriðum nema með fullu samkomulagi við n. eða þá sérstök grein hafi verið gerð fyrir, af hverju frávikin áttu sér stað.

Þetta er einungis til almennrar athugunar, ef svo má segja, og að svo miklu leyti sem upplýsingar kunna ekki að liggja nú þegar fyrir, þá treysti ég hv. n. til þess að afla þeirra í sínu starfi.

Um frv. sjálft vil ég taka undir það með hæstv. menntmrh., að nauðsyn var á því að afla meira fjár til þessara starfa.

Hins vegar verð ég að segja það nú þegar, að ég er ekki samþykkur fjáröflunarleiðinni. Ég hygg, að fyrsta n., sem skipuð var til athugunar þessum málum, hafi lagt megináherzlu á, að tekið yrði af áfengisgróða fé til þeirrar vísindastarfsemi, sem hér er um að ræða.

Mér er ljóst, að mjög er hlaðið á þá bikkju, en hún er líka sú, sem reynist óvenju traust og gefa vel af sér jafnt nú og áður, svo að ég hygg, að það væri alveg óhætt að taka fé til hliðar úr þeim sjóði. En ég hef verið því andvígur áður og lét það t.d. uppi við forustumenn hljómsveitarmálanna á sínum tíma, sem hreyfðu því við mig, hvort skynsamlegt mundi vera að leggja aukaskatt á kvikmyndahús til hljómsveitar hér. Ég taldi, að það væri mjög óráðlegt. Ég held, að það sé óhyggilegt og geri starfsemi nytjafyrirtækja lítt vinsæla, að lagður sé á slíkur beinn skattur til þeirra á jafnalmenna neyzluvöru og telja verður að kvikmyndirnar séu. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því og leggja á það megináherzlu, að kvikmyndir eru sannast sagt bezta almenningsskemmtun, sem völ er á hér á landi. Menn geta margt sett út á kvikmyndahúsin, og það er rétt, að þeirra myndir eru misjafnar, en ég held, að engum, sem þekkir til bæjarlífs, hér í Reykjavík a.m.k., geti blandazt hugur um það, að ólíkt heldur vilja menn t.d. vita unglinga í kvikmyndahúsi en hvort heldur á dansleik eða drykkjustað. Og það á ekki einungis við um unglinga. Fyrir roskna menn gildir það ekki síður, að það er mikil dægradvöl að því að fara í kvikmyndahús, og þar fá menn oft hollustu og beztu skemmtunina. Ég held, að það sé mjög misráðið að íþyngja þeirri almenningsskemmtun með enn einum skatti, að það sé miklu skynsamlegra að taka skatt til slíkra nytja, sem hér er um að ræða, af því, sem óþarfara er og óhollara en kvikmyndaferðir.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta. Þetta er ekki nýtt viðhorf hjá mér, heldur hef ég haft þessa sannfæringu lengi, og það er ekki af því, að ég vilji spilla fyrir framgangi þessa frv., að ég vík að þessu. Ég hef áður, eins og ég hef sagt, aðvarað áhugamenn í menningarmálum um að ætla að tengja þau við nýjan skatt á kvikmyndahús, og ég vil enn vara við því í þessu sambandi.

Um þarfirnar, sem hér er að ræða, má auðvitað margt segja. Ég tek undir það, að margt af þessu ber að styrkja og þarf að styrkja meira en gert hefur verið. Það verður þó að segja eins og er, að starfsemi menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins hefur um sumt að undanförnu verið miður heppileg. Sumt af þeim bókum, sem þessi stofnun hefur gefið út, er allsendis óþarft að gefa út af opinberri hálfu og með opinberum kostnaði. Og það er eðlilegt, að ef menn vilja gefa út slíkar bækur, þá sé það gert af fyrirtækjum, sem standa undir sínum kostnaði sjálf.

Aftur á móti tek ég fram, að t.d. verk eins og Íslandslýsing er vonlaust að unnið verði nema með töluverðri meðgjöf, en það er mikið nytjaverk, og það er eðlilegt, að einmitt opinber aðili, eins og hér er um að ræða, taki slíka útgáfu að sér. En það hefur ekki hingað til strandað á útgáfufyrirtækinu, heldur á því, að vísindamennirnir hafa ekki enn talið sig reiðubúna til þess að inna þetta verk af höndum.

Um annað, sem ég las einhvers staðar í morgun, að til stæði að gefa út almennt bókmenntatímarit, hlutlaust, skemmtilegt og fræðandi, um bókmenntir og annað slíkt, þá verð ég að láta uppi nú þegar miklar efasemdir um, að slík útgáfa takist. Ég er einmitt hræddur um það og vek athygli á því, að útgáfa menningarsjóðs að undanförnu hafi verið svo skelþunn sem raun ber vitni um vegna þess, að þar er um opinbera útgáfu að ræða, og þegar sætta á marga aðila við útgáfuna, þá falla burt öll deiluatriðin, en deiluatriðin eru oft merki um, að um lífræna starfsemi sé að ræða, fjör og vöxt. Þess vegna hefur ekki tekizt að blása neinum lífsanda í jafnmerkt tímarit og Andvara. Það er vegna þess, að þar er verið að sætta ólík sjónarmið. Og þó að eigi að koma slíkri útgáfu í eitthvað nýtízkulegra horf, þá er ég ósköp hræddur um, að það verði fljótt, sem menn reka sig á, að hlutleysisins sé erfitt að gæta, og þá spyrja menn eðlilega: Ja, á að fara að halda uppi með opinberum kostnaði útgáfu, sem er þessum til hags í dag, öðrum til hags á morgun, eftir því, hver við völd er í þjóðfélaginu hverju sinni?

Ég held, að það sé miklu skynsamlegra að láta hina stríðandi þætti í þjóðfélaginu standa að þessari útgáfu, og við vitum, að þar er stríðið ekki takmarkað eingöngu við hin stjórnmálalegu viðhorf, heldur koma þar inn líka mjög mismunandi viðhorf til lista og menningar, sem eiga ekkert skylt við stjórnmálaágreining.

Ég skal ekki ræða þetta meira. Ég vildi láta þessar ábendingar koma fram nú við 1. umr., en að öðru leyti fagna því, að sá ávöxtur er þó orðinn af því endurskoðunarstarfi, sem hafið var, að þessi frumvörp eru komin fram. En ég vil þó að lokum geta þess, að ég tel miður farið, að hæstv. ráðh. skuli vera svo síðbúinn með þessi frv., vegna þess að eðlilegt væri, að þm. gæfist nokkru lengur kostur á að athuga slík mál en nú verður færi til, ef ætlunin er að knýja þau fram fyrir þinglok.

Ég hefði talið eðlilegra, að hæstv. ráðh. léti sér nægja að leggja frumvörpin nú fram og leyfa þeim að vera til athugunar til haustþingsins. Hans gerð er engu að siður. En hér er ekki um slíkt pólitískt deilumál að ræða eða valdabaráttu, svipaða og um bankalöggjöfina, sem gerir það, hvort sem menn eru með henni eða móti, skiljanlegt, að valdhafarnir, úr því að þeir leggja inn á þessa braut á annað borð, vilja hafa því sem fyrst lokið. Það sjónarmið get ég skilið, þó að ég sé samt ekki að mæla með löggjöfinni, það er allt annað mál. En um slíka löggjöf sem þessa horfir öðruvísi við, og það er ekki nema sanngjarnt, að þm. fái meiri tíma en þeim er ætlaður nú, að því er virðist, til þess að athuga þessi mál ofan í kjölinn. Ráðh. sjálfur hefur haft marga mánuði til þess að velta þeim fyrir sér, og þess vegna er ekki óeðlilegt, að þm., sem fyrst sjá þessi frv. í síðustu viku, eru síðan önnum kafnir dag með nótt í fundahöldum og kynna sér þau mest varðandi deilumál, sem fyrir hendi eru, óski eftir því að fá frekara færi en horfur eru á, til þess að þeim gefist tóm til að athuga málin.

Það á við um þetta eins og önnur mál, að meiri hl. hefur auðvitað í hendi sér að knýja það fram, sem hann vill. En bezt er kapp með forsjá, og reynslan er sú, að það borgar sig oft ekki að beita aflinu víðar en þar sem þess er óhjákvæmileg þörf að mati þess, sem telur sig vera sterkari um sinn.