20.05.1957
Efri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. frsm. gat þess í framsöguræðu sinni af hálfu hv. menntmn., að í frv. þessu væri sett bann við frekari undanþágum frá greiðslu skemmtanaskatts en nú væri í lögum. Þetta er ekki rétt.

Í e-lið 1. gr. frv. er svo kveðið á, að kvikmyndasýningar í Reykjavík á vegum sáttmálasjóðs og kvikmyndasýningar bæjarsjóðs Akraness og Hafnarfjarðar, enda sé tekjunum varið á sama hátt og nú, skuli vera undanþegnar greiðslu skemmtanaskatts.

En á eftir þessu ákvæði kemur ný og miklu viðtækari heimild en nokkru sinni hefur verið í l. um undanþágur frá greiðslu skemmtanaskatts. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur er ráðherra heimilt að undanþiggja skemmtanaskatti kvikmyndasýningar eins kvikmyndahúss, er rekið sé af opinberum aðila, í hverjum hinna annarra kaupstaða, enda sé tekjum af þeim varið til menningar- eða mannúðarmála.“

Ég hygg, að hér sé um mjög varhugaverða undanþáguheimild að ræða, undanþáguheimild, sem gæti haft það í för með sér, að mjög verulega rýrnuðu þær tekjur, sem gert er ráð fyrir að félagsheimílasjóður og rekstrarsjóður þjóðleikhússins skuli fá skv. frv. Ég hef þess vegna talið rétt ásamt hv. þm. V-Sk. að flytja skriflega brtt. um það, að annar málsliður e-liðar 1. gr. falli niður.

Í 4. gr. þessa frv. er lagt til, að lagður skuli nýr skattur á alla selda aðgöngumiða að kvikmyndasýningum, öðrum en kvikmyndasýningum fyrir börn, og dansleikjum í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri. Skal gjald þetta nema einni krónu á hvern seldan aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og tveim krónum á hvern seldan aðgöngumiða að dansleik. Gert er ráð fyrir því, að þessi nýi skattur muni gefa af sér um 2 millj. kr. á ári. Þessi skattur á skv. frv. að renna óskiptur í menningarsjóð og verjast samkv. lögum, sem um hann gilda. Það er auðvitað mjög gagnlegt að fá auknar tekjur í menningarsjóð, en svipað mun nú ástatt um marga gagnlega sjóði og stofnanir í okkar landi, að þeim er þörf meiri tekna.

Ég hygg, að hæstv. menntmrh. sé hér á nokkuð hálli braut að leggja til, að enn skuli lagður nýr skattur á þjóðina. Í þetta skipti er að vísu verið að skattleggja skemmtanalíf og eyðslu, en engu að síður er það nú þannig, að þessar skemmtanir eru ákaflega ríkur þáttur í daglegu lífi fólksins, og kvikmyndasýningar eru ódýrustu skemmtanirnar, sem fólkið á kost á. Enda þótt ég sé því mjög fylgjandi, að menningarsjóður fái auknar tekjur, verð ég að segja það, að mér finnst þessi nýi skattur mjög hæpinn. Ég vil þó ekki flytja brtt. um að fella þessa grein niður og mun eins og aðrir fagna því, ef hægt er að efla starfsemi menningarsjóðs. En mér finnst hæstv. ráðh. vera á hálli braut með þessari nýju skattheimtu.

Við erum þegar komnir það langt á skattabrautinni í okkar landi, að þar er naumast við bætandi, ekki einu sinni við það bætandi að því er snertir skatta á þær skemmtanir almennings, sem ódýrastar eru og almenningur helzt getur veitt sér, eins og þær, sem einmitt á að fara að skattleggja með þessu ákvæði í 4. gr. frv.

Þá verð ég einnig að benda á það, að allhæpin eru ákvæði frv. í ákvæðinu til bráðabirgða. Þar er gert ráð fyrir því, að hagnaður af viðtækjaverzlun ríkisins skuli framvegis tekinn af ríkisútvarpinu allt fram til ársins 1960. Eins og kunnugt er, rann hagnaður af viðtækjaverzluninni til útvarpsins fram til ársins 1950, þegar hann fyrirvaralaust var af stofnuninni tekinn.

Ég ljóstra áreiðanlega ekki upp neinu leyndarmáli, þegar ég upplýsi það sem útvarpsráðsmaður, að fjárskortur háir starfsemi útvarpsins ákaflega og þá fyrst og fremst það, að útvarpinu hefur svo að segja verið bannað að bæta svo hag sinn, sem það auðveldlega hefði getað gert með skynsamlegum og skaplegum hætti, að það geti leyst úr húsnæðisvandræðum sínum. Þetta háir stofnuninni stórkostlega, og er satt að segja ekki vansalaust, að á sama tíma sem bæði einstaklingar og opinberar stofnanir bæta húsnæðisaðstöðu sína stórkostlega, skuli menningarstofnun eins og ríkisútvarpinu vera áratugum saman bannað að koma sér upp skaplegu húsnæði, þannig að það geti rækt vel þá þjónustu, sem þjóðin krefst af stofnuninni.

Ég mun ekki flytja brtt. um að fella þetta bráðabirgðaákvæði frv. niður. En ég er mótfallinn því og tel, að bæði árið 1950 og nú, þegar breyting var á þessu gerð með viðtækjaverzlunina, hafi útvarpinu verið sýndur vítaverður ágangur og skeytingarleysi af hálfu löggjafarvaldsins og ríkisstj.

Að öðru leyti fagna ég því, að hæstv. menntmrh. hefur með þessu frv. lagt til, að skipt skuli öðruvísi skemmtanaskattinum en gert hefur verið áður og hlutur félagsheimilasjóðs aukinn verulega. Bæði ég og hv. þm. V-Sk. höfum barizt mjög fyrir því á þessu þingi og á undanförnum þingum, að hlutur félagsheimilasjóðsins yrði aukinn og starfsemi hans, sem er mjög þýðingarmikil, þar með studd. Samkvæmt þeirri prósenttölu, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. frv., munu tekjur félagsheimilasjóðs á ári verða um 2.8 millj. kr. í stað 1.9 millj. kr. áður, meðan sjóðurinn hafði 35% af skemmtanaskattinum. Er það strax nokkur bót og ætti að hafa í för með sér, að sjóðurinn geti sinnt fleiri umsóknum af þeim mikla umsóknafjölda, sem fyrir honum liggur árlega.

En ég vil taka undir það, sem hv. þm. V-Sk. sagði hér við i. umr. þessa máls, að þessa aukningu er hægt að gera að engu með því að auka mjög skyldur sjóðsins, bæta á hann nýjum aðilum, sem styrks mega njóta úr honum. Skal ég ekki fara að ræða það mál frekar hér, það hefur verið margrætt hér í hv. d. einmitt á þessu þingi, og fyrir liggur mjög góð grg. frá stjórn sjóðsins um efnahag hans og starfsmöguleika alla.

Það má vel vera, að rétt sé það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði hér áðan, að ekki sé rétt að binda sig lengur við 1500 íbúa takmarkið í kaupstöðum og kauptúnum, eins og gert hefur verið undanfarin ár og eins og lagt er til í þessu frv. Aðstæður allar hafa gerbreytzt í landinu, og það má vissulega segja, að það sé alveg eins ástæða til þess að skattleggja fjölmennar samkomur, sem sóttar eru fyrst og fremst úr þéttbýlinu, þó að haldnar séu úti í sveitum, eins og þær samkomur, sem þetta sama fólk heldur í sínum byggðarlögum. Það er til íhugunar fyrir hv. nefnd að athuga það.

Ég vil svo leyfa mér að vænta þess, að hv. Nd. fallist á þá brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér skriflega ásamt hv. þm. V-Sk. og vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir.

Ég hafði ætlað mér að beina hér einni fsp. til hæstv. menntmrh., en hann er ekki viðstaddur. Það mundi nú einhver af hans ágætu stuðningsmönnum ef til vill geta flutt honum hana. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þær till., sem í þessu frv. felast, séu byggðar á áliti þeirrar mþn., sem hæstv. fyrrv. menntmrh., Bjarni Benediktsson, skipaði árið 1956, en henni var falið það hlutverk að endurskoða gildandi lagaákvæði um félagsheimill og bera fram till. um eflingu félagsheimilasjóðs.

Það kemur ekki fram í grg. þessa frv., að hve miklu leyti þessar tili. eru byggðar á hennar áliti, en mér er kunnugt um það, að nefnd þessi hafði lokið störfum og skilað áliti til hæstv. ráðh.

Ég vænti, að á einhverju stigi málsins, annaðhvort í þessari hv. þd. eða hv. Nd., muni hæstv. ráðh. svara þessu. Ég spyr vegna þess, að mér er ekki grunlaust um, að í þeim till., þó að mér sé ekki kunnugt um þær í einstökum atriðum, hafi verið uppi ábendingar um það, hvernig hægt væri að auka verulega tekjur af skemmtanaskatti yfirleitt, sem þá hefði komið þeim aðilum öllum að gagni, sem hans eiga að njóta. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að skemmtanaskatturinn sem slíkur vaxi nokkuð. Það er einungis flutt till. um að breyta skiptingu hans. Það er gert ráð fyrir, að skatturinn allur verði 5.6 millj. kr. og skiptist jafnt á milli félagsheimilasjóðs og rekstrarsjóðs þjóðleikhússins. En það er álit mitt, sem einnig hefur komið fram í frv., sem ég hef áður flutt hér á hv. Alþingi, að hægt sé að stórauka tekjur af skemmtanaskatti, ef hann er skynsamlega og réttlátlega lagður á. En því miður er þetta ekki leiðrétt með þessu frv. Það er gert ráð fyrir, að allar sömu undanþágur haldist og að stórar og víðtækar nýjar undanþágur komi til, sami glundroðinn haldist og verið hefur í þessum efnum áður.

Ég álít þetta mjög miður farið og hafði búizt við því, að hæstv. menntmrh. mundi ganga lengra í umbótum í þessum efnum en gert er með þessu frv., enda þótt till. hans um skiptingu sjálfs skattsins sé að mínu viti til bóta.