01.11.1956
Neðri deild: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þrír hæstv. ráðh., félmrh. (HV), menntmrh. (GÞG) og viðskmrh. (LJÓs), hafa í umr. undanfarinna daga háð harða viðureign við óvætt eina ferlega, og virðist svo sem þeir telji sig engan veginn enn þá hafa ráðið niðurlögum hennar, því að sú viðureign virtist vera í fullum gangi, er umr. lauk s. 1. þriðjudag með hálftíma ræðu tveggja ráðherranna. Óvætti þessa hafa þeir ýmist nefnt stefnu Sjálfstfl. eða Morgunblaðsins í kaupgjaldsmálum, en sú stefna á að felast í því, að kaupgjaldshækkanir séu einasta orsök verðbólguþróunar, þannig að allar ráðstafanir í dýrtíðarmálum, sem að gagni geti komið, hljóti að vera fólgnar í bindingu eða lækkun kaupgjalds.

Ég hef hlotið nokkrar ásakanir fyrir það af hálfu hæstv. ráðh. að hafa átt drjúgan þátt í því að magna óvætt þessa, og nefndi hæstv. menntmrh. það máli sínu til stuðnings, að ég hefði einhvern tíma skrifað greinar í Morgunblaðið, þar sem stefna þessi hefði verið boðuð. Málefnalega séð er það nú ef til vill aukaatriði, að ég vil með engu móti við því gangast að hafa haldið því fram, að verðbólga orsakist einvörðungu af kaupgjaldshækkunum. Hinu kann ég að hafa haldið fram, að kaupgjaldshækkanir, sem ekki ættu sér stoð í aukinni framleiðslu, mundu óhjákvæmilega leiða til verðhækkana og því ekki geta orðið launþegum til hagsbóta, er til lengdar léti, en það er talsvert annað.

Ég er því smeykur um það, að heimild hæstv. menntmrh. í þessu efni sé ekki Morgunblaðið, heldur sennilega ummæli Alþýðublaðsins um greinar, er ég kann að hafa skrifað um þetta efni í Morgunblaðið.

Í útgáfu Alþýðublaðsins af þessum greinum hefur þetta svo orðið að fullyrðingu um það, að kauphækkanir hlytu ávallt að vera verkalýðnum til tjóns. Þetta er ekki annað en alkunnar blaðamannabrellur, að slíta einstök ummæli andstæðinganna úr eðlilegu samhengi og snúa þannig út úr þeim, að niðurstaðan komi almenningi fyrir sjónir sem fjarstæða. Þetta er ekki annað en það, sem gengur, og er ef til vill erfitt að ásaka þar einn öðrum fremur, en ekki er sá málflutningur til þess fallinn að upplýsa málin.

Það kom líka dálítið annað hljóð í strokkinn hjá hæstv. menntmrh. í síðari ræðu hans, þegar hann las upp úr grg. okkar dr. Benjamíns Eiríkssonar fyrir gengislækkunarlögunum, þar sem orsakir verðbólgunnar frá því í byrjun stríðsins voru skýrðar út frá allt öðrum sjónarmiðum en því, að hún ætti rót sína að rekja einvörðungu til kauphækkana.

En hvaða ályktun ber nú að draga af því, sem virðist skoðun þessara hæstv. ráðh. allra, að kaupgjaldið hafi litla þýðingu fyrir þróun verðlagsins? Enga aðra en þá, að af samþykkt þessa frv., sem eingöngu ber að líta á sem kaupbindingarfrv., þar sem verðfestingarákvæðin ganga sízt lengra en heimild eldri laga um það efni, er einskis teljandi árangurs að vænta í baráttunni gegn verðbólgunni. Hæstv. viðskmrh. taldi það firru eina að kenna hinum smávægilegu kauphækkunum, eins og hann orðaði það, ef ég hef tekið rétt eftir, sem áttu sér stað vorið 1955, um allar þær verðhækkanir, sem síðan hafa orðið. En ef sú 16% kauphækkun, sem þá átti sér stað, hefur ekki haft teljandi verðhækkanir í för með sér, hvað á það þá eiginlega að þýða að vera að ákveða með lögum, að skerða skuli umsamið kaup launafólks í landinu um 3%? Ef heil brú væri í málefnaafstöðu þessara hæstv. ráðh., þá ættu þeir allir að greiða atkv. gegn þessu frv. eða a. m. k. beita sér fyrir því, að því yrði breytt á þann veg, að kaupbindingarákvæðin féllu niður, en það hafa þeir þó áreiðanlega ekki hugsað sér. Ef nokkurt skynsamlegt vit á að vera í ráðstöfunum þeim, sem hér á að samþ., þá hljóta þær einmitt að grundvallast á Morgunblaðsstefnunni einni, sem hæstv. ráðh. hafa nefnt svo, þó að þeir hafi beitt öllum kröftum mælsku sinnar til þess að rífa hana niður. Það hlýtur að vera sjaldgæfur viðburður hér á hv. Alþingi, að slík óheilindi og loddaraskapur í málflutningi eigi sér stað.

Ég vil í beinu framhaldi af þessu leyfa mér að leiðrétta alvarlega rangtúlkun hæstv. viðskmrh. á ræðu þeirri, er ég flutti hér s. l. mánudag. Hann taldi mig hafa haldið því fram, að verðfestingarákvæði frv. væru óþörf, því að nóg væri að festa kaupgjaldið, þá mundi verðlagið stöðvast af sjálfu sér. Ég hef aldrei sagt neitt í þá átt. Ég hélt því hins vegar fram, og það hefur enginn vefengt, sem hér hefur talað, að engin ástæða væri til lagasetningar um verðfestingu, því að til slíkrar ráðstöfunar og jafnvel miklu víðtækari ráðstafana í verðlagsmálum væri full heimild í eldri lögum. Í öðru lagi hélt ég því fram, að verðfestingin væri gagnslaus, af því að eftirlit með henni væri óframkvæmanlegt, og við það stend ég. Ég bætti því við, að ef löggjöf þessi ætti að hafa nokkur áhrif á verðlagið til lækkunar, þá gæti það aðeins verið með því móti. að minni kaupgeta launafólks héldi aftur af því, að verð á vöru og þjónustu yrði hækkað, en það er talsvert annað en það, sem hæstv. viðskmrh. lagði mér í munn. Ég skal svo ekkert um það fullyrða, hverja þýðingu þetta atriði kann að hafa. En því minni þýðingu sem það hefur, þeim mun minni árangurs er að vænta af lögunum.

Hæstv. viðskmrh. talaði um það sem einhverja algera nýjung, að lagt væri almennt bann við verðhækkunum. Það er vægast sagt furðulegt að heyra slíku haldið fram af manni, sem hefur þó átt sæti á Alþingi samfleytt síðan 1942, að því er ég bezt veit. Almennt bann við verðhækkunum nema með torfengnu leyfi stjórnarvalda var sett af utanþingsstjórninni, er við völdum tók í árslok 1942, og var það bann óslitið í gildi til ársins 1951, að slakað var á því hvað þær vörutegundir snerti, er frjáls innflutningur var á. Á öllum öðrum vörum hefur bannið verið í gildi óslitið til þessa dags. Um þá ráðstöfun að slaka á verðlagsákvæðunum hefur verið deilt, svo sem kunnugt er, og skal það ekki rætt hér. En benda má á það, að sé því haldið fram, að þörf sé á verðlagsákvæðum, enda þótt innflutningur sé frjáls, þá felst í slíku algert vantraust á samvinnuhreyfinguna í landinu og getu hennar til þess að gegna hlutverki sínu. Allar tilraunir kaupmanna til þess að leggja óeðlilega á vörur, sem frjálst er að flytja inn, hlytu að leiða til þess, að öll viðskipti færðust til kaupfélaganna, og sú þróun mun varla talin óæskileg frá sjónarmiði flestra þeirra, er verðlagseftirliti fylgja.

Hæstv. menntmrh. furðaði sig á því, að ég hefði ekki nefnt lánsfjárþenslu af hálfu bankanna og greiðsluhalla á fjárlögum sem orsök verðbólgunnar. Vitanlega hafa bæði þessi atriði þýðingu, ef gera á sér grein fyrir orsökum verðbólgunnar. En ræða mín á mánudag átti ekki að vera neinn fyrirlestur um almennar orsakir verðbólgunnar, heldur vildi ég þar aðeins ræða frv. það, sem hér er til umr. En úr því að á þessi atriði er minnzt, er ekki úr vegi að minna þm. þeirra tveggja flokka, er undanfarið hafa verið í stjórnarandstöðu, á afstöðu þeirra til afgreiðslu fjárlaga og útlánastarfsemi bankanna undanfarið. Hvernig ætli fjárlögin hefðu litið út síðustu ár, ef samþykktar hefðu verið allar þeirra till. um hækkun útgjalda annars vegar og lækkun tolla og skatta hins vegar? Og enda þótt því megi vissulega halda fram með allgildum rökum, að útlán bankanna hafi undanfarin ár verið meiri en samrýmist jafnvægi í efnahagskerfinu, þá hafa þessi útlán þó aldrei fullnægt þeim kröfum, sem fyrrv. stjórnarandstæðingar hafa jafnan gert á hendur lánastofnununum um lán til alls konar framkvæmda. Ég tel því, að hæstv. menntmrh. hafi fremur gert þessum flokkum bjarnargreiða með því að hreyfa þessari hlið málsins, en hins vegar er það gleðilegt, ef vænta má ábyrgari afstöðu af þeirra hálfu framvegis til þessara mála.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. félmrh. (HV). Hann kvað mig hafa boðað stefnu Morgunblaðsins í kaupgjalds- og kjaramálum, en ekki unnið að hagsmunum launafólks. Að vísu er það ekki fyllilega ljóst, hvað hæstv. félmrh. hefur átt við með stefnu Morgunblaðsins í þessum málum, en ef miða á t. d. við lýsingu hæstv. menntmrh. á þessari stefnu, þá virðist erfitt að komast hjá því að draga þá ályktun, að hæstv. félmrh. sjálfur hljóti nú að vera skeleggasti málsvari Morgunblaðsstefnunnar.

Það er aðeins út frá því sjónarmiði einu, að verðlagið væri ekkert annað en kaupgjald, að það væri hægt að halda fram þeirri staðhæfingu hans, að kauplækkun hafi engin áhrif á kjör launafólks. Ef verðlagið lækkaði alltaf að sama skapi og kaupgjaldið er lækkað, væri það náttúrlega rétt. Sé gengið út frá því, að önnur atriði en kaupgjaldið hafi áhrif á verðlagið, þá er ekki hægt að halda því fram, að kauplækkun, hvort sem hún er 3%, 5% eða 10%, skerði ekkert kjörin. Hæstv. félmrh. taldi þó, að ég hefði raunverulega náð meiri árangri í launabaráttunni fyrir mína umbjóðendur en hann fyrir sína, svo að Morgunblaðsstefnan virðist þá, þegar öll kurl koma til grafar, ekki hafa verið árangurslaus með öllu.

Ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta nokkuð að mínu áliti villandi samanburð hæstv. félmrh. á tillögum ráðh. Sjálfstfl. um niðurgreiðslur á s. l. vori og brbl. þessum, en hann taldi þær till. hafa verið launþegunum til muna óhagstæðari en lög þau, sem nú á að samþykkja.

Það ætti þó að gefa auga leið, að þessi staðhæfing er fráleit. Till. ráðh. Sjálfstfl. voru við það miðaðar, að launþegar fengju fulla dýrtíðaruppbót samkv. vísitölu, þannig að hlutfallið milli kaupgjalds og vísitölu varð undir öllum kringumstæðum hagstæðara en með framkvæmd skerðingarinnar. Þetta verður ekki hrakið með því að benda á vísitölufölsunina, því að hennar hlýtur auðvitað að gæta jafnmikið í báðum tilfellum.

Verðfestingarákvæði brbl. breyta engu hér um, því að vitað er, að þau eru gagnslaus með öllu og eftirlit með þeim óframkvæmanlegt, þó að ég dragi hins vegar engan veginn í efa fullan og góðan vilja hæstv. ríkisstj, á því að leitast við að framkvæma þau. Það má í þessu dæmi benda á það, að jafnvel þó að hægt væri að hafa fullkomið eftirlit með því, að verðlag í verzlunum hækkaði ekki, sem þó er ærið erfitt, þá fer mjög mikill hluti allra daglegra viðskipta fram milli einstaklinga utan við öll verzlunarfyrirtæki. Má þar t. d. nefna öll húsaleiguviðskipti, en í þau fer oft þriðjungur eða jafnvel helmingur af tekjum manna, alls konar viðskipti með þjónustu o. s. frv., enda er skylt að geta þess, að hv. 2. landsk. (KGuðj) virtist í þessu efni vera miklu raunsærri en aðrir stjórnarliðar, því að ég gat ekki skilið hann betur við fjárlagaumr. en að hann drægi nokkuð í efa möguleikana á því að hafa eftirlit með þessu verðhækkunarbanni, og er það í rauninni ekki annað en heilbrigð skynsemi ætti að geta sagt hverjum manni. En sú kaupgeta, sem fólki kann að skapast vegna eftirlits með verðlagi í verzlunum, kemur óhjákvæmilega fram sem aukin eftirspurn á þeim markaði, sem eftirlitið nær ekki til, og leiðir til samsvarandi hækkunar á verðlagi þar og lækkanirnar kunna að hafa orðið annars staðar, svo að heildarárangur verðfestingarinnar verður nákvæmlega enginn. Auk þess að vera lagalega séð óþörf að mínu áliti, eru verðfestingarákvæðin því aðeins til þess að slá ryki í augu almennings.

Það hefur ekki verið hrakið, sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni, að lög þessi hefðu ekki verið borin undir neinn þann aðila, er heimild hefði til þess að taka ákvarðanir um breytingu á kaupi og kjörum launafólks.

Hæstv. félmrh. afsakaði það, að brbl. hefðu ekki verið borin undir stjórn B. S. R. B., með því, að ég hefði verið erlendis og því ekki getað um þetta mál fjallað. Það er að vísu rétt og skylt að staðfesta það, að ég var þá erlendis. Að vísu komst ég ekki alla leið austur til Kína, en var þó nógu langt undan landi, að ég hefði ekki getað um þetta fjallað. En mér finnst, að mér sé gert hærra undir höfði sem ráðamanni þeirra samtaka en efni standa til með þessu. Ég held, að fullyrða megi, að nægilega margir af mönnum úr aðalstjórn og varastjórn handalagsins hafi verið í bænum, til þess að hægt hefði verið að halda lögmætan stjórnarfund, og mér finnst, að ríkisstj. hefði a. m. k. átt að snúa sér til ritara bandalagsins í því efni. Að fengnum þeim upplýsingum frá honum, að ekki væri unnt að halda ákvörðunarhæfan stjórnarfund, hefði hæstv. ríkisstj. svo auðvitað verið laus allra mála.

Hæstv. menntmrh. fór í seinni ræðu sinni inn á ýmsar fræðilegar skýrgreiningar á stefnum í stjórnmálum og efnahagsmálum. Ég ætla ekki að gera þetta að sérstöku umræðuefni hér, því að ég tel, að hér sé ekki sá rétti vettvangur til slíks. Að mínu áliti þarf enginn að lá hæstv. menntmrh. það, þó að honum gengi erfiðlega að skilgreina, hvað væri hægri og vinstri stefna í stjórnmálum og efnahagsmálum, því að sannleikurinn er sá, að hér er um slagorð ein að ræða, sem ekki hafa neina merkingu og eru því ónothæf að mín áliti í skynsamlegum umræðum um þessi mál.

Hæstv. menntmrh, eyddi allmiklu af ræðutíma sínum til þess að sýna fram á það, að stefna hæstv. ríkisstj. í utanríkismálum væri ekki kommúnistísk. Ég er sannfærður um það, að hæstv. menntmrh. óskar síður en svo eftir því, að Ísland verði gert að austrænu leppríki. En það, sem að mínu áliti er kjarni þessa máls, er, að þessi ríkisstj. lifir hvorki skemur né lengur en kommúnistar óska. Stefna kommúnista í kaupgjaldsmálum er að vísu reikul, og þar er keyrt fram og aftur og í allar áttir, enda er það haft eftir einum verkamanni frá því í byrjun september, að hann hafði á orði, að hann færi að segja upp Þjóðviljanum, því að allt, sem nú stæði í honum daglega, gæti hann alveg eins lesið í gömlu Morgunblaði. En þó að þetta eigi við um kaupgjaldsmálin, þá á ekki það sama við um utanríkismálin. Þar vita kommúnistar, hvað þeir vilja, og þar er einstefnuakstur, og allir vita, í hvaða átt er stefnt. Og þegar að því kemur, að hæstv. menntmrh. og aðrir andkommúnistar, sem eiga sæti í ríkisstj., gerast þess ófúsir að halda lengra, þá munu kommúnistar stöðva vagninn, en spursmálið er, hvað langt verður þá komið.

Ég ætla svo að lokum að leiðrétta nokkra útúrsnúninga úr ræðu hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann á þess ekki kost að taka oftar til máls við þessa umr. í sumum málgögnum ríkisstj. hafa verið hent á lofti mismæli, sem honum varð á í lok ræðu sinnar, þegar hann sagði, að gengislækkunarlögin hefðu verið misráðin, en átti við gerðardómslögin, eins og raunar mátti ljóst verða af fyrri ummælum hans.

Hv. 1, þm. Reykv. varaði einnig með tilliti til fenginnar reynslu við of mikilli bjartsýni um það, að hægt væri að framkvæma varanlega allsherjarlausn á efnahagsvandamálum þjóðarinnar, og nefndi í því sambandi, að árangur lagasetninga, eins og gerðardómslaganna, dýrtíðarlaganna frá áramótum 1947–48 og gengislækkunarlaganna, hefði ekki orðið svo varanlegur sem menn gerðu sér vonir um, er lög þessi voru sett. Þetta hefur, bæði í ræðum hér og í málgögnum ríkisstj., verið túlkað þannig, að varaformaður Sjálfstfl. hafi með þessu játað, að allt, sem sjálfstæðismenn og þeir, sem með þeim hafa staðið að stjórn landsins undanfarin ár, hafi gert til viðreisnar efnahagslífinu, hafi í rauninni verið glópska ein.

Hér er þó vitanlega um útúrsnúning einn að að ræða. Hvorki hv. 1. þm. Reykv. né aðrir, sem að gengislækkunarlögunum stóðu, munu hafa skipt um skoðun á því, að gengislækkunarlögin höfðu í för með sér stórbætt ástand í efnahagsmálum landsmanna og voru langsamlega haldbezta ráðstöfunin, sem framkvæmd hefur verið í efnahagsmálum, frá því að seinni heimsstyrjöldin hófst, því að jafnvægi það, er þá náðist, hélzt næstu fimm ár, er það raskaðist af ástæðum, sem á engan hátt áttu rót sína að rekja til setningar laganna á sínum tíma. Það hefur ekki heldur verið hrakið af neinum, að þessi leið var sú bezta, sem á þeim tíma var völ á, og hefur það í rauninni verið óbeinlínis viðurkennt af andstæðingum laganna með því, að þeir bentu ekki á neinar leiðir aðrar til úrlausnar vandamálunum, sem þeim hefði þó verið skylt að gera, ef þeir hefðu þekkt nokkrar slíkar leiðir. En þótt reynslan hafi þannig sýnt, að árangur löggjafar þessarar var mikill og góður, þá er ekki ástæða til þess að draga fjöður yfir hitt, að margt fór öðruvísi en ætlað var í sambandi við þá löggjöf, þannig að árangur hennar varð aldrei að fullu sá, sem til var ætlazt. Þrem mánuðum eftir það að lögin voru samþ. á Alþ., brauzt út styrjöldin í Kóreu, en áhrif hennar röskuðu að verulegu leyti þeim grundvelli, sem byggt hafði verið á við undirbúning löggjafarinnar, þannig að fullyrða má, að löggjöf þessi hefði aldrei verið sett óbreytt, ef hægt hefði verið að sjá þá atburði fyrir. Alvarlegasta afleiðing þessa var sú, að óhjákvæmilegt varð skömmu síðar að taka upp bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, sem að ýmsu leyti kom í bága við grundvallartilgang gengisbreytingarinnar.

Með þessar staðreyndir í huga benti hv. 1. þm. Reykv. á það, hversu óvarlegt það væri að tala um frambúðarlausn efnahagsvandamálanna, og ætti að mínu áliti ekki að vera neinn ágreiningur um það, að sú ábending er bæði réttmæt og tímabær.

Til viðbótar því, sem þegar hefur verið tekið fram af hv. 1. þm. Reykv. um aðdraganda verkfallsins í apríl 1955, tel ég rétt að rifja það upp, að fyrrv. ríkisstj. fól okkur Klemenz Tryggvasyni hagstofustjóra um áramótin 1954–55 að gera athugun á þeirri breytingu á kaupmætti tímakaups verkamanna, sem orðið hefði frá verkfallinu í des. 1952. Niðurstaða okkar varð sú, að um lítilfjörlega aukningu kaupmáttar væri að ræða, en til þess að vera vissir um það að fullyrða ekki meira en efni stóðu til, sögðum við í áliti okkar, að ekki yrði séð, að um neina breytingu væri að ræða. Hins vegar var vitað, að hagur verkamanna hafði raunverulega batnað vegna mun meiri eftirvinnu, þótt ekki tækjum við tillit til þess í okkar skýrslu.

Er skýrsla okkar var birt, rak Þjóðviljinn upp ramakvein og taldi útreikninga þessa tómar falsanir og fór hinum verstu orðum um hagstofustjóra í því tilefni. Stjórn Alþýðusambandsins fól þá tveim hagfræðingum, er hún treysti, að framkvæma endurskoðun þessara útreikninga. En árangurinn af rannsóknum þessara hagfræðinga Alþýðusambandsins varð sá, að þeir staðfestu í einu og öllu niðurstöður okkar Klemenzar. En til þess að eitthvað hefðist upp úr krafsinu, voru þeir látnir gera útreikninga, er sýna áttu svo og svo mikla rýrnun á kaupmætti launanna frá því í júlí 1947. Mjög verður að telja þá útreikninga hæpna að vísu, og hefur mig furðað á því, að svo vel metnir hagfræðingar sem þar áttu hlut að máli skyldu fást til þess að leggja nafn sitt við þá. En þá var kaupgjaldsbaráttunni snúið upp í það að krefjast bóta fyrir kjaraskerðingu, sem aðallega hafði átt sér stað árin 1947–49 sem afleiðing löggjafar, er forseti Alþýðusambandsins, hæstv. félmrh., hafði sjálfur átt þátt í að setja ásamt öðrum þm. flokks þess, er hann þá tilheyrði og fór með stjórnarforustu. Má af þessu ráða, hve fjarri lagi það er, er hæstv. félmrh. fullyrðir, að stórfelld skerðing á lífskjörum, frá því að desemberverkfallinu 1952 lauk, hafi knúið verkamenn út í verkfallið 1955.