06.11.1956
Neðri deild: 12. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Landbúnaðinum er lífsnauðsyn, að dýrtíðarskrúfan stöðvist og jafnvægi geti farið að myndast í efnahagslífi þjóðarinnar. Ég veit því ekki annað en að bændur hafi fagnað þeim bráðabirgðaráðstöfunum, sem núv. hæstv. stjórn gerði með brbl. á s. l. sumri til þess að hefta vöxt dýrtíðarinnar. Þess hefur yfirleitt ekki orðið vart, að vinnustéttir þjóðarinnar, verkamenn, sjómenn og bændur o. fl., hafi sýnt þessum ráðstöfunum annað en velvilja.

Festing á verðlagi vara og vinnu er vissulega fyrsta skrefið, sem stíga þurfti til þess að stöðva óheillaþróun dýrtíðarinnar. En vitaskuld er þetta ekki einhlítt til frambúðar. Þar þarf meira til, því að atvinnuvegirnir þurfa að komast á þann grundvöll, að þeir geti staðið á eigin fótum.

Það er í sjálfu sér ekki nein furða, þótt menn hafi tekið ráðstöfunum ríkisstj. vel, því að enn hefur enginn þurft neinu að fórna, svo að heitið geti, en ógæfan hefur þó verið stöðvuð í bili. Þetta snýr t. d. við bændum þannig, að þeir fá sinn hlut samkv. verðgrundvelli landbúnaðarvara. Hitt stendur enn áhaggað sem fyrr, að bændur hafa ekki tryggingu nú fremur en áður fyrir því, að markaðir þeirra geti gefið þeim þá útkomu, sem verðgrundvöllurinn gerir ráð fyrir, og kemur þar margt til. Fyrir fram er aldrei hægt að segja um það, hvaða endanlegt verð bændur fái fyrir afurðir sínar. Verðgrundvöllurinn er hins vegar viðurkenning á því, að það verð, sem hann gerir ráð fyrir, sé það, sem bændur þurfi að fá, miðað við kaup verkamanna. Stundum gefur einn þáttur framleiðslunnar meira en gert er ráð fyrir í verðgrundvelli og annar minna, og getur þetta mætzt að einhverju leyti og vegið hvað á móti öðru. Vinnan, sem mannshöndin leggur til við framleiðslu og dreifingu flestra vara, er enn sem komið er einn stærsti eða stærsti þáttur í verði varanna.

Þegar verðhækkun er stöðvuð, er eðlilegt, að um leið sé stöðvuð hækkun á kaupgjaldi, og þarf þetta auðvitað að fara saman. Þar er því ekki um lífskjaraskerðingu að ræða, heldur má segja með fullum rétti, að slík ráðstöfun sé til öryggis fyrir alla. Mér þykir því undarlegt, að hv. stjórnarandstæðingar skuli taka á þessu máli hér á hv. Alþingi eins og þeir gera, því að með málflutningi sínum reyna þeir að gera þessar ráðstafanir tortryggilegar í augum þeirra stétta, sem mest eiga undir því, að vel takist framkvæmdin á þeirri byrjun, sem hafin er til stöðvunar verðbólgunni. Ef slíkt á að verða til pólitísks ávinnings fyrir þá, er þjóðin harla fákunnandi um það að vega og meta, hvað horfir til þjóðarhags. En ég trúi því, að svo sé ekki. Ég held, að fólkið hafi fengið fulla sjón og skilji það, að sundrungarstarf í þessu efni, sem og öðrum, er því sjálfu fyrir verstu og eining um að reisa við þjóðarhag er eina leiðin, sem þjóðin á út úr þeim efnahagslegu ógöngum, sem út í er komið.

Í þessum umr. hefur nokkuð verið deilt um, hvað bændur fái fyrir sauðfjárafurðir eða yfirleitt sláturfjárafurðir. Það leit þannig út í ræðu hv. 1. þm. Rang. (IngJ) hér á fimmtudaginn var sem við hefðum borið okkur saman um þetta atriði og ég samþykkt allt með honum, sem hann hefur um þetta sagt. Svo er ekki. Við höfum ekkert um þetta talað saman. Ég ætla í tilefni af þessu að skýra frá verði á 13 kg dilk, eins og Sláturfélag Suðurlands borgaði hann við endanlegt uppgjör fyrir árið í fyrra.

Verðið var kr. 17.25 á kg, samtals kr. 224.25 kjötið. Innmaturinn var 24 kr., mörinn kr. 12.60 og gæran 25 kr., eða fyrir dilkinn alls kr. 285.85. Nú er verð á sömu afurðum: kjötið kr. 19.05 á kg, innmatur kr. 19.00, mör kr. 7.50 og gæran kr. 15.00, eða fyrir dilkinn kr. 289.15. Þá standa eftir af verði gærunnar, eins og var í fyrra, kr. 10.00, sem vænta má nú eins og að undanförnu að borgað verði til bænda á næsta sumri. Er þá verð á 13 kg dilk orðið kr. 299.15, sem nokkurn veginn má treysta að bændur fái.

Bændurnir hafa sjálfir, eða fulltrúar þeirra í framleiðsluráði, lækkað verð á innmat og mör vegna sölutregðu á þessum vörum í fyrra. Dilkakjötið hefur hins vegar, eins og hæstv. landbrh. sagði, hækkað um 10.2%, og hefði verð á innmat og mör verið hækkað einnig um 10.2%, þá væri dilkverðið nú kr. 312.98, miðað við það, að endanlegt verð á gærunum verði 10 kr. kg. En vegna þeirrar lækkunar, sem framleiðsluráðið taldi hyggilegt að gera á innmat og mör bændanna vegna, án íhlutunar frá hæstv. ríkisstj., verður dilkverðið, miðað við að gæran verði 10 kr. kg, kr. 299.15, eins og ég sagði áðan. Þetta eru staðreyndirnar í þessu máli.

Um aðra þætti þessara verðlagsmála ræði ég ekki, enda hefur hæstv. landbúnaðarráðherra gert þeim þau skil hér í umræðunum, að ég tel það óþarft.

Ég ber engar brigður á það, að hv. 1. þm. Rang. vilji bændum vel. En ég tel, að velvilji hans í garð bænda þurfi m. a. og fyrst og fremst að koma fram í því að styðja ráðstafanir hæstv. ríkisstj. til að stöðva dýrtíðina. Ég vil segja, að ekkert sé eins og stendur bændunum nauðsynlegra en stöðvun dýrtíðarinnar. Dýrtíðin hefur farið eins og eyðandi eldur í tekjum bænda hin síðari ár. Verðbólgan og þenslan í efnahagslífi þjóðarinnar hefur verkað á mörg byggðarlög í landinu eins og svartidauðinn gerði. Héruð fóru í eyði, og ættir dóu út. Eftir stendur auðn og tóm sums staðar í byggðum landsins nú, þegar verðbólgu- og dýrtíðarsýkillinn hefur unnið sitt verk.

Ég tel mér skylt sem bónda og fulltrúa bændahéraðs hér á hv. Alþingi að styðja ráðstafanir hæstv, ríkisstj. til þess að koma á jafnvægi í efnahagslífinu og rétta atvinnuvegina til lands og sjávar við.

Frv. það, sem hér er rætt, er fyrsta skrefið. Ég tel, að það sé bæði efnahagsleg og þjóðmenningarleg nauðsyn og skylda þeirra, sem völd hafa í þessu landi á hverjum tíma, að sporna við því, að bændastéttin yfirgefi atvinnuveg sinn og óðul. Ég tel það á sama hátt skyldu valdhafanna að búa svo í haginn fyrir aðrar vinnustéttir þjóðarinnar í borg og bæ, að fólkið geti uppfyllt lífsþarfir sínar af þeirri vinnu, sem það stundar. Ég vil hins vegar krefjast mikillar og góðrar vinnu af öllum þeim, sem fulla heilsu hafa, og ég vil, að fólkinu sé sagt á hverjum tíma satt og rétt frá um afkomu atvinnuveganna. Þjóðin þarf að fá að horfa fyrir opnum tjöldum á meðferð allra sinna mála. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur sett sér það mark að hafa með sér í ráðum vinnustéttir þjóðarinnar. Þetta tel ég hyggilegt og gott verk. Dýrtíðin verður, eins og ég sagði áðan, ekki stöðvuð með þeim ráðstöfunum einum, sem frv., sem hér er til umr., fjallar um, en þær voru nauðsynlegur undirbúningur, og ég tel, að bændur eins og aðrir hafi gott af því verki.

Hv. 1. þm. Rang. var hér með langan lestur um það, hvað Sjálfstfl. hefði gert bændum mikið gott, en framsóknarmenn hins vegar mikið illt. Ég vil nú vera miklu sanngjarnari en hann og játa, að þó að sjálfstæðismenn hafi æði oft verið bændum óþarfir á Alþingi, þá hafa þeir að vísu stundum lagt málum landbúnaðarins lið, sem framsóknarmenn hafa haft forustuna um. Af þeirri ástæðu, forustuhlutverki Framsfl. í landbúnaðarmálum, er það, sem mikill meiri hl. bænda hefur falið Framsfl. forsjá sinna mála á Alþingi. Ég veit, að nú setja bændur almennt traust sitt á Framsfl., að honum takist í samvinnu við fulltrúa verkalýðsstéttanna að reisa efnahagslíf þjóðarinnar úr rústum og skapa atvinnuvegunum örugga afkomu til lands og sjávar.

Ég þykist vita, að ekki verði hægt nú í næstu framtíð að tryggja hverjum manni fastar og ábyggilegar árstekjur. Til þess eru að mínum dómi ekki fyrir hendi neinir möguleikar. Þjóðin og hinar ýmsu starfsstéttir hennar verða að byggja afkomu sína áfram að verulegu leyti á eigin dugnaði og hagsýni í meðferð fjármuna.

Bændum hafa t. d. ekki, eins og ég sagði áðan, verið tryggðar vissar árstekjur, þótt verðgrundvöllurinn geri ráð fyrir og segi til um, hverjar þær þurfi að vera, og er þá miðað víð árskaup Dagsbrúnarverkamanns, ef hann hefur vinnu alla vinnudaga ársins. Á sama hátt er verkamanninum ekki heldur tryggt þetta árskaup, vegna þess að hann hefur hvergi tryggingu fyrir vinnu allan árstímann.

Bóndinn verður því að gera allt, sem hann getur, til þess að ná sínu kaupi og auka það, og hann hefur til þess tvær leiðir: í fyrsta lagi að auka framleiðslu sína fram yfir það meðaltal, sem gert er ráð fyrir, og í öðru lagi að gæta sparnaðar við rekstur búsins. Verkamaðurinn verður að fara nokkuð svipað að, ef hann vill auka sínar tekjur, en það er með þeim hætti að afla sér aukavinnu og með sparnaði í meðferð sinna tekna.

Það, sem hefur grundvallarþýðingu í því að efla og styðja sjálfsbjargarviðleitni hins vinnandi fólks, er það, að efnahagsmálum þjóðarinnar í heild sé stjórnað þannig, að fólkið fái traust á gildi vinnu og fjármuna. Það er undirstöðuatriði til tryggrar velmegunar. Þess vegna þarf að tryggja atvinnulífinu jafnan grundvöll, hvar sem er á landinu, svo að lífskjörin jafnist, en fólk dragist ekki í þétta hnappa á nokkra staði. Slíkt veldur óeðlilegri þenslu á vissum sviðum atvinnulífsins, en samdrætti í öðrum þáttum þess.

Þá er það og höfuðatriði í þessum efnum, að það fjármagn, sem myndast í landinu fyrir störf þjóðarinnar, haldi fullu gildi til lífsþarfa og framkvæmda, en bráðni ekki jafnharðan upp í eldi þeirrar gróðahyggju, sem gegnsýrt hefur þjóðfélagið á undanförnum árum. Ég hygg, að vandinn, sem nú bíður fyrir dyrum í því að leiða efnahagsmál þjóðarinnar til farsælla lykta, sé vel yfirstíganlegur, ef saman fer skilningur þjóðarinnar á viðfangsefninu og sterkt taumhald og forusta þeirra, sem með völdin fara.