06.11.1956
Neðri deild: 12. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki fara að deila við hv. 1. þm. Rang. (IngJ) um, hversu til hefur tekizt með ræðu þá, er ég flutti hér í hv. Alþingi s. l. fimmtudag. Hitt er mér ljóst, að ræðan hefur haft meiri áhrif en ég vonaðist til í fyrstu, því að það er með öllu óhugsandi, að maður, sem hefur setið hér á hv. Alþingi síðan 1942 og er nýlega kominn úr ráðherrastóli, hefði flutt ræðu á borð við þá, sem hv. 1. þm. Rang. flutti hér s. l. fimmtudag, nema af þeirri einföldu ástæðu, að þm. hafi verið kominn úr algeru jafnvægi.

Hv. 1. þm. Árn. (ÁÞ) hefur nú svarað hv. 1. þm. Rang. út af verðlaginu um lambið, sem hann hefur verið að tala um. Ég vil þó segja þessum hv. þm. það til viðbótar, að svo mikið þekki ég til landbúnaðar, að ég veit, að það eru yfirleitt ekki gerðar upp sauðfjárafurðir fyrr en ári eftir að þær eru lagðar inn. Nú er búið að selja aðeins 10% af sauðfjárafurðum frá 1956, og hver getur þá sagt um, hvað verður endanlegt verð á þessum vörum? Í þeim kaupfélögum, þar sem ég hef starfað og þekki bezt til, hefur ekki verið fylgt það fastri reglu um áætlunarverð að haustinu, að það hafi verið reiknað út upp á prósentu.

Ég veit nú ekki, hvað hv. 1. þm. Rang. hefur stundað landbúnað lengi sem aðalatvinnu, en ég dreg þó í efa, að hann hafi gert það svo miklu lengur en ég, að hann geti brigzlað mér um, að ég þekki þar ekkert til.

Hv. 1. þm. Rang. ræddi um það, hvernig hefði verið farið með verðlagsmál landbúnaðarins á árunum 1934–42, þegar verðlagsnefndir þær, sem settar voru hér á laggirnar samkv. afurðalögunum frá 1934, störfuðu. Hann sagði, að núv. hæstv. landbrh., sem einnig var landbrh. þá, hefði haldið sultarólinni að bændunum og að hann hefði haft þá leið til þess að herða þessa sultaról, að hann hefði skipað formenn þessarar verðlagsnefndar og sagt um, að þeir ættu það eitt að gera að halda niðri verðinu fyrir bændum, þá yrði Alþfl. ánægður og þá gæti ráðherrann setið í sínum stóli.

Í sambandi við þessar fullyrðingar þessa hv. þingmanns er rétt að minna nokkuð á þessi mál, þegar þau voru að gerast. Þegar ríkisstj. Framsfl. tók hér við völdum 1934, voru afurðasölumál landbúnaðarins í mesta öngþveiti. Þá hafði lokazt saltkjötsmarkaðurinn til Noregs, og verð á dilkakjöti var mjög lágt í landinu. Mjólkurbúin voru þá nýlega tekin til starfa og kepptu hvert víð annað hér á markaðinum í Rvík, og hér ríkti mesti glundroði í þeim málum.

Það varð því hlutverk þessarar nýju ríkisstj. að koma skipulagi á þessi mál. En þetta skipulag og þessi löggjöf, sem sett var til þess að tryggja verðið á afurðum bænda, mun hafa átt að mæta meiri andstöðu en flest önnur löggjöf, sem sett hefur verið hér á landi. Og hverjir voru andstæðingar þessarar löggjafar? Hverjir voru það, sem börðust gegn henni? Það voru sjálfstæðismennirnir, sem gerðu það. Og nú ætla ég að taka upp þann hátt, sem hv. 1. þm. Rang. taldi að ég hefði gert um daginn, að lesa upp úr blöðum, — ég gerði það nú ekki þá, — en nú ætla ég að leiða fram vitni í þessu máli, vitni, sem eru þess eðlis, að hv. 1. þm. Rang. ætti a. m. k. að taka mark á þeim.

Það var á þessum árum stofnað hér félag í Reykjavík, Húsmæðrafélag Reykjavíkur. Og hvert var verkefni þessa félags? Það var að berjast einmitt við skipulagið, berjast gegn þessum verðlagsnefndum, og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp ályktun, sem gerð var á fundi í þessu félagi 22. jan. 1934, en hún er svo hljóðandi:

„Fundur húsmæðra í Gamla Bíó 22. janúar gerir enn þær kröfur til mjólkurverðlagsnefndar, að mjólkurverðið verði lækkað niður í 35 aura strax. Ef ekki verður orðið við þessari till. fyrir 1. febrúar, lýsir fundurinn sig algerlega samþykkan því, að neytendur takmarki við sig neyzlu mjólkur svo sem frekast er unnt til þess að knýja á þann hátt nefndina til að láta undan kröfum húsmæðra.“

Það er nú ekki verið að tala um það í þessari till., að það eigi að hækka verðið á mjólkinni, nema síður sé.

Það kom fleira fram í þessum málum á þessum árum. Það er til hér málfundafélagið Óðinn. Það kvað vera félag sjálfstæðisverkamanna. Það gerði líka ályktun í þessum málum. Þeirra ályktun er frá 1941, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hana líka, hún er svo hljóðandi:

„Fundur í málfundafélaginu Óðinn þann 14. september 1941 mótmælir harðlega þeirri gegndarlausu hækkun á íslenzkum afurðum, sem verður að telja langtum meiri en nauðsyn ber til. Telur fundurinn nauðsynlegt að setja hámarksverð á allar íslenzkar afurðir til notkunar innanlands:“

Þessi till. var líka birt í sjálfstæðisblöðunum, vafalaust til þess að þjóna þeim tilgangi að hækka verðið fyrir bændur, sem hv. 1. þm. Rang. hafði svo mikinn áhuga á.

Og 26. sept. 1934 segir Vísir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjötverðlagsnefnd virðist ekki hafa tekið neitt tillit til kaupendanna. Hún miðar allt við þarfir bænda:“

Og síðasta vitnið, sem ég ætla að leiða hér fram í þessu máli, er sérstaklega tekið með tilliti til þess, hversu þeir, sem þá voru að fjalla um þessi mál úr Sjálfstfl., höfðu álit á Hermanni Jónassyni og gerðum hans í þessum málum. Það er úr Vísi 3. okt. 1940, og ég ætla að lesa þá yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Hermann Jónasson er landbrh. Eins og menn vita, heyra bæði mjólkursölunefnd og kjötverðlagsnefnd undir hann. Á þessum síðustu tímum er talað um það meira en flest annað, að þessar tvær verðlagsnefndir hafi farið að minnsta kosti eitt fet fram yfir það, sem talið var sanngjarnt samanborið við aðra. Og það verður ekki betur séð en látið hafi verið undan þeirri ásælni, og það verður meira að segja ekki betur séð en að böndin berist fyrst og fremst að landbrh. Hermanni Jónassyni fyrir að hafa látið undan ásælninni.“

Þetta var tal þeirra Sjálfstæðisflokksmanna á þessum árum. Og hvað haldið þið að mundi hafa verið sagt í herbúðum Sjálfstfl., ef þeim hefði verið sagt það þá, að eftir 20 ár mundi hér á hv. Alþ. koma fram þm. úr þeirra hópi og segja, að Hermann Jónasson landbrh. hefði sett upp verðlagsnefndirnar til þess að halda sultarólinni að bændum og halda verðlaginu niðri fyrir þeim? Haldið þið, að það hefði verið talið gott innlegg inn í þá baráttu, sem hér var háð einmitt af Sjálfstfl. fyrir því, að það væri verið að níðast á neytendum? Nei, það er furðulegt, að slíkt skuli geta skeð hér á hv. Alþ., að menn skuli geta sungið slíkan tvísöng, því að það er ómögulegt, að mönnum detti það í hug í fullri alvöru, að fólk sé búið að gleyma því, að bændur landsins séu búnir að gleyma þeirri baráttu, sem varð að heyja fyrir þessari löggjöf gegn Sjálfstfl. í Reykjavík.

Til viðbótar þessu vil ég segja það út af hækkuninni, sem varð á kjötinu 1942 og hv. 1. þm. Rang. talaði um að hefði verið 100%, að hækkun á vísitölunni á þeim mánuðum, sem Sjálfstfl. fór með stjórnina þá, var meiri en 100%.

Þá vil ég næst koma hér að fullyrðingum hv. 1. þm. Rang. um það, að fé til framkvæmda í landbúnaði hafi ekki komið fyrr en Sjálfstfl. fékk landbrh. Þangað til var ekki sýnt nema smásálarskapur og skammsýni í þessum málum, stórhugurinn kom með landbrh. Sjálfstfl. og framkvæmdirnar í sveitum landsins, að dómi hv. 1. þm. Rang.

Nú ætla ég til gamans og í fullri alvöru þó að benda þessum hv. þm. og öðrum á það, hvað staðreyndirnar segja nú í þessu máli. Það var nefnilega oft vitnað í þær í ræðu þessa hv. þm.

Á árunum 1944–1946, þegar Sjálfstfl. átti landbrh., voru veittar til sjóða Búnaðarbankans, byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs, samtals 2 millj. og 80 þús. Það fór í byggingarsjóð; í ræktunarsjóð kom ekkert frá ríkinu. Á árunum frá 1947 til 1955, báðum meðtöldum, þegar Framsfl. hefur farið með þessi mál, hafa farið í þessa sjóði fyrir áhrif ríkisstjórnarinnar, framlag í byggingarsjóð 37 millj. og 90 þús., lán í sama sjóð 28 millj. 145 þús., eða samtals 65 millj. 235 þús.

Í ræktunarsjóð hafa farið á sama tíma: framlag 27 millj. og 90 þús. og lán 72 millj. 372 þús., eða samtals 99 millj. 461 þús., og í veðdeild Búnaðarbankans 5 milljónir, eða samtals til þessara sjóða tæpar 170 millj. móti 2 millj. á nýsköpunarárunum.

Ég hefði nú haldið, að þetta væri óhægur samanburður og sýndi, hvenær fjármunum hefði verið veitt í þessa sjóði. En af því að því verður vafalaust haldið fram, að það hefði ekkert verið gert í þessum málum, nema af því að sjálfstæðismenn voru líka í ríkisstj., ætla ég að vítna hér í eldra tímabil. árin 1934–39 annars vegar, þegar framsóknarmenn voru einir í ríkisstj., og 1944–46, þegar Sjálfstfl. fór með landbúnaðarmálin, og nú ætla ég að lesa tölur í sambandi við þetta, staðreyndir, sem ekki verður á móti mælt.

Árið 1934 lánaði byggingarsjóður Búnaðarbankans 32 lán að upphæð 166400 kr. 1935 lánaði sami sjóður 53 lán að upphæð 228 þús. 1936 lánaði hann 39 lán að upphæð 192255 kr. 1937 lánaði hann 57 lán að upphæð 208 þús. 1938 lánaði hann 103 lán að upphæð 356 þús., og 1939 lánaði hann 122 lán að upphæð 425 þús. En takið þið nú eftir, nú byrjar framfaratímabilið í sveitum landsins, þegar Sjálfstfl. átti landbrh. 1944 lánar byggingarsjóður Búnaðarbankans 31 lán að upphæð 206 þús., 1945 lánar hann 37 lán að upphæð 311 þús., og 1946 lánar hann 29 lán að upphæð 247 þús., eða á árunum 1937, 1938 og 1939 eru lánuð 282 lán, en 97 lán á tímabili Sjálfstfl. Þetta er framfaratímabilið að dómi þessa hv. þingmanns.

Það er ekki öll sagan sögð enn, því að ræktunarsjóður er líka til samanburðar frá þessum árum. Hann lánaði 1934 132 lán að upphæð tæp 300 þús., 1935 183 lán að upphæð 445 þús. 1936 115 lán að upphæð 241 þús., 1937 114 lán að upphæð 221 þús., 1938 113 lán að upphæð 258 þús. og 1939 105 lán að upphæð 231 þús. Svo byrjar framfaratímabilið í sveitum landsins. 1944 lánar ræktunarsjóður 10 lán, 70 þús., einmitt sem hv. 1. þm. Rang. vitnaði hér til. Hann vitnaði til þess, að það hefðu verið lánuð 70 þús. úr sjóðum Búnaðarbankans, nýsköpunarárið 1944 var það gert. Það eru 2½ fjós í landsfjórðungi á landi hér. Og 1945 heldur framfaratímabilið áfram, stórhugur ríkir og mikið er gert. Þá eru lánuð 10 lán líka, að upphæð 231 þús. Og 1946 eru lánuð 12 lán að upphæð 92800 kr.

Þetta er framfaratímabilið í sögu Sjálfstfl. Og haldíð þið, að það hafi ekki verið mikið fyrir 6000 bændur á landinu að byggja 10 gripahús á ári? Það hefur verið glæsilegt. Og svo mikill stórhugur ríkti yfir þessu tímabili, að hv. 1. þm. Rang., sem var óánægður með þessa stjórn í upphafi, lýsti sérstöku trausti á hana í lokin fyrir að byggja tvö fjós og hálft fjárhús í landsfjórðungi eða því sem næst.

Síðan hefur svo Framsfl. tekið við þessum málum, og 1947 átti hann landbrh. Hvað gerist þá? Þá er veitt úr ræktunarsjóði, í staðinn fyrir 92 þús. 1946, 1.7 millj.; úr byggingarsjóði, í staðinn fyrir 247 þús. 1946, tæpar 5 millj. 1950 eru þessi lán orðin úr ræktunarsjóði 7½ millj. og svipað úr byggingarsjóði. 1955 er þetta komið svo, að úr ræktunarsjóði eru lánaðar 34 millj. og úr byggingarsjóði 10 millj.

Ég segi eins og hv. 1, þm. Rang.: Er þetta tilviljun, að þessi breyting á sér stað? Nei, það er ekki tilviljun. Það er stefnubreyting. Annars vegar er það flokkur, Framsfl., sem trúir á sveitirnar og framkvæmdirnar þar, en hins vegar er það flokkur, sem er andstæður sveitunum og trúir ekki á framkvæmdir þar. Þess vegna var stefnan svona, og þess vegna er samanburðurinn. En það er gleðilegt, að það skyldi vera hv. 1. þm. Rang., sem óskaði eftir því, að þessi samanburður yrði gerður.

Þá kem ég næst að löggjöfinni. Þessi hv. þm. taldi, að Framsfl hefði alltaf verið utan dyra, eins og hann orðaði það, þegar sett hefði verið landbúnaðarlöggjöf, sem einhvers virði hefði verið. Ég vil í því sambandi minna á nokkur lög, þó að það verði ekki tæmandi upptalning. Ég ætla að nefna lögin um Búnaðarbankann frá 1928, lögin um byggingar- og landnámssjóð frá sama tíma, lög um innflutning á tilbúnum áburði og lög um áburðareinkasölu. Ég ætla að nefna frá seinni árum margar breytingar á jarðræktarlögum, sem Framsfl. hefur staðið fyrir. Ég ætla að nefna afurðasölulögin. Ég ætla að nefna lögin um áburðarverksmiðjuna, lögin um búnaðarmálasjóð, lögin um framleiðsluráð, fjárskiptalögin frá síðasta Alþingi. Og ég ætla einnig að geta þess, að lögin um landnám og nýbyggðir, sem sett voru 1946, voru að mestu leyti gerð upp úr eldri lögum um byggingar- og landnámssjóð, nýbýli og samvinnubyggðir frá 1936 og þar af leiðandi ekki nema að nokkru leyti frumsmíð þessarar nefndar, sem um þau fjallaði. Hins vegar voru fjárframlög hækkuð þá vegna þeirrar hækkunar, sem orðið hafði á verðlagi í landinu.

Áður en ég skil við þennan kafla um fjárframlög Framsfl. og löggjafarstarfsemi hans í þágu landbúnaðarins, vil ég minna á það, að hv. 1. þm. Rang. talaði mikið um það, að í hvert sinn, sem ætti að koma til framkvæmda í málum landbúnaðarins, væri það vanaviðkvæðið hjá forustumönnum Framsfl., að það væru engir fjármunir til og þess vegna ekkert hægt að gera; það væri alltaf sami smásálarskapurinn, sem einkenndi framkomu þeirra. Það var nú annað, þegar þeir sjálfstæðismenn fjölluðu um þessi mál. Þá var nú ekki smásálarskapur eða talað um það, að fjármagn væri ekki til, þá var það bara látið af hendi. En ég fór að gamni mínu að gá í umræður um fjárveitingamál til landbúnaðarins á nýsköpunarárunum og kom þar niður, þegar verið var að ræða um fjárframlög vegna breytingar á ræktunarlögunum. Það voru hækkaðir styrkir til túnasléttna, sem þar voru til umræðu. Og þar tók til máls þáverandi landbrh. Sjálfstfl. og lýsti skoðun sinni í málinu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftur á móti finnst mér, að ég fari rétt með, að í heim áætlunum, sem hér liggja fyrir, sé gert ráð fyrir, að jarðræktarstyrkurinn geti komizt upp í 6 millj. 650 þús. Þótt þessi kostnaður verði talsvert lægri, þá verð ég að segja það, að eins og hag ríkissjóðs er nú komið, þá veit ég ekki vel, hvar á að taka þetta fé. Og það er a. m. k. ekki langt síðan að heyrðust nokkuð margar raddir um það, að erfitt mundi vera að standa undir öllum þeim gjöldum, sem þegar er búið að skapa ríkissjóði, enda er það sjálfsagt rétt, og það mundi þá líka verða þungt fyrir fæti, ef ætti að bæta svo stórfelldum útgjöldum við sem hér er um að ræða:“

Þennan kafla úr ræðu þessa hæstv. ráðh. er að finna í Alþingistíðindum frá 1944, í C-deild, bls. 168, og hann heldur áfram, þessi ráðh., og lýsir stefnu Sjálfstfl., þar sem stórhugur ríkir og ekki neinn smásálarskapur. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég geri einnig ráð fyrir því, ef yrði horfið að því ráði að auka svo mjög sem hér er lagt til framlög til ræktunar landsins, þá mundi reynast óhjákvæmilegt að skera niður önnur framlög, sem veitt eru til landbúnaðarins.“

Þarna kom stórhugurinn, þarna er ekki smásálarskapur Framsfl. að verki. Þetta er stórhugur höfðingjanna í Sjálfstfl. Ég nefni þessi dæmi sem táknræn upp á stefnu Sjálfstfl. í þessum málum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þessi landbrh., sem þarna var, hafi samt verið framsýnni og velviljaðri landbúnaðinum en stefna flokksins sagði þá til, svo að þá geta menn markað nokkuð, hvernig þessum málum hefði verið fyrir komið, ef hún hefði notið sín til fulls.

Það getur nú ekki hjá því farið, að ég sýni þeim Sjálfstæðisflokksmönnum þá sanngirni að nefna helztu löggjafarstarfsemi frá þeim tíma, er þeir fóru með landbúnaðarmálin, þá löggjöf, sem mesta athygli vakti.

Ég kem þá að baráttu þeirra fyrir búnaðarráðinu. Þegar bændur landsins voru að halda til stofnfundar Stéttarsambands bænda, fengu þeir þá kveðju frá ríkisstj., að sett var upp búnaðarráð, sem átti að fara með verðlagsmál bændanna. Þetta ráð var stjórnskipuð nefnd, sem landbrh. einn valdi, án þess að bændur landsins hefðu þar nokkurn tillögurétt, og það átti svo að skammta bændunum. Þessu ráði var harðlega mótmælt af stéttarsamtökum bænda og Búnaðarfélaginu, en þrátt fyrir það fékkst engin leiðrétting þessara mála. Og hvernig tókst svo framkvæmdin hjá þessu búnaðarráði á verðlagsmálum landbúnaðarins? Hv. 1. þm. Rang. gat um eftirgjöfina 1944 og að flokkarnir hefðu staðið að henni, Sjálfstfl. og Framsfl. En í sambandi við þá eftirgjöf er rétt að minna á það, að hún var gerð með ákveðnum skilyrðum, og það var vegna þeirra skilyrða, sem var horfið að þessu ráði, en ekki af öðrum ástæðum. En hvernig framkvæmdi svo búnaðarráðið þetta? Það lét 9.4% af verði á vörum bænda falla niður án nokkurra skilyrða og án þess að nokkuð kæmi á móti. Þetta var ekki leiðrétt, fyrr en Framsfl. kom aftur í ríkisstj. og framleiðsluráðið tók við þessum málum. Þetta var að halda niðri verði bændastéttarinnar, og það var hið stjórnskipaða búnaðarráð, sem gerði það.

Annað mál er frá þessum tímum, sem vakti þá miklar deilur og mikið umtal. Það var búnaðarmálasjóðurinn, sem bændur landsins stofnuðu til þess að fá fé handa félagssamtökum sínum. Það mál var fyrst flutt hér inn í hv. Alþingi að till. Búnaðarfélags Íslands af þáverandi hv. þm. Mýr., Bjarna heitnum Ásgeirssyni, hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf.

Eftir að frv. hafði farið í gegnum báðar deildir og var komið hér aftur í hv. Nd., tókst ríkisstj. að koma fleyg inn í það, þar sem gert var ráð fyrir, að landbrh. yrði að samþykkja ráðstöfun á fé sjóðsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér var eingöngu um að ræða fé bændanna sjálfra. Það var tekið ½% af því verði, er þeir áttu að fá fyrir vörur sínar, og alveg laust við alla aðra aðila. Þess vegna gat það ekki komið til mála, að nokkrir aðrir en bændur landsins sjálfir hefðu ráðstöfunarrétt yfir þessu fé. En ríkisstj. Sjálfstfl. sá ekki, að það ætti að virða þennan rétt. Hún gat gert þessa árás á bændastéttina, til þess að það væri ekki hægt að efla félagssamtök þeirra. Leiðrétting á þessu máli fékkst ekki heldur fyrr en Framsfl. var búinn að taka við landbúnaðarmálunum á nýjan leik. Og svo hrifinn var hv. 1. þm. Rang. af þessu ákvæði, sem svipti bændur landsins ráðstöfunarrétti á sínu eigin fé, að hann greiddi atkvæði gegn málinu, þegar var þó búið að semja um það á milli flokkanna.

Hver var svo tilgangurinn með þessum tveim lögum, um búnaðarráð og búnaðarmálasjóð, af hendi Sjálfstfl.? Hann var sá að koma í veg fyrir, að bændasamtökin í landinu, sem voru að myndast, gætu myndazt, að bændur stæðu saman í einu stéttarfélagi og réðu sínum málum sjálfir. Þess vegna þurfti að sjá um, að þeir hvorki hefðu umráðarétt yfir verðlagningu á búvörum sínum né hefðu fjármuni til þess að starfrækja sín félagssamtök.

Fleira mætti minna á um afrek Sjálfstfl., þegar hann fór með landbúnaðarmálin, því að það gleymdist nú flest af því, sem átti að framkvæma. Frv. um áburðarverksmiðjuna var lagt í skúffuna, og framkvæmdir í raforkumálum urðu engar á þessum tíma. Og ég vil í sambandi við raforkumálin geta þess nú, af því að ég tók það ekki fram áðan, að það var einmitt á Alþingi 1942, sem Framsfl. flutti þáltill. um að skipa mþn. í því máli, og það var nefndin, sem samdi raforkulögin.

Ég hef hér að framan drepið á helztu þætti í afskiptum Sjálfstfl. og Framsfl. um málefni bændastéttarinnar. Ég er óhræddur við að leggja þessa málavexti undir dóm kjósendanna í landinu, undir dóm bændastéttarinnar. Ég hef hér farið með staðreyndir einar, sem sýna, hvernig hefur verið á málum haldið og hverjir það hafa verið, sem hafa haft forustuna í íslenzkum landbúnaði á síðari árum.

Hv. 1. þm. Rang. getur, ef það hentar innræti hans, haldið því fram, að maður, sem hefur lifað á landbúnaði frá því að hann fæddist, að einu ári undanteknu, hafi aldrei komið þar nærri. Hann getur líka haldið því fram, að flokkur, sem hefur haft forustu um öll landbúnaðarmál hér á landi um þrjá tugi ára, hafi alltaf verið utangátta, þegar þau mál hafi verið ráðin, sem landbúnaðinum hafi verið fyrir beztu. En hann á ekki að leggja það, hvorki á sjálfan sig né þá menn, sem á hann hlusta, að tala um rök eða staðreyndir í sambandi við þetta.

Hv. 1. þm. Rang. sagði orðrétt hér í ræðu sinni á fimmtudaginn, með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður að finna önnur ráð til þess að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum en þau ein, að hún fái hvergi lán.“

Þessi játning mun sennilega vera fram komin vegna stefnuyfirlýsingar þeirra sjálfstæðismanna um, að þeir standi að öllum góðum málum ríkisstj. Þetta mun vera framlag þeirra til framkvæmdanna í landinu, bæði til sjávar og sveita.

Enda þótt mikið hafi verið gert í framkvæmdamálum sveitanna á síðari árum, er þó margt ógert. En það verður hlutverk annarra en sjálfstæðismanna að leysa þau verkefni, og þau munu verða leyst, þótt þeir leggi sig alla fram um það, að ríkisstj. fái hvergi fjármagn til þess.