30.11.1956
Neðri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Hv. 9. landsk. þm., meðnm. minn, gerði hér að umtalsefni það, sem hann hefur reyndar haldið fram áður, að það hefði verið óþarft af hæstv. ríkisstj. að gefa út brbl. um bann við verðhækkunum, vegna þess að það hefði verið mögulegt að banna verðhækkanir samkvæmt eldri lögum. En nm. í fjhn., sumir aðrir, hafa ekki sömu skoðun á þessu, og ég lít svo á, að þetta muni vera á misskilningi byggt hjá hv. 9. landsk.

Í verðlagslögunum frá 1950 er ákvæði um það í einni grein þeirra, að allar verðlagsákvarðanir skuli miða við þörf þeirra fyrirtækja, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Þetta getur naumast þýtt annað en það, að slík fyrirtæki eigi rétt á því að fá greiddan kostnað sinn í vöruverðinu. Við lítum svo á, að vegna þessa lagaákvæðis m. a. sé ekki hægt að skylda fyrirtæki til þess að selja vörur með tapi, ef það eru fyrirtæki, sem hafa ekki óeðlilegan kostnað við sinn rekstur, og þess vegna teljum við, að það hafi ekki verið hægt að banna allar verðhækkanir um nokkurra mánaða skeið án þess að setja um það ný lagafyrirmæli. En það er kunnugt, að það hefur komið fyrir á þessum tíma, sem liðinn er, síðan brbl. voru gefin út, að einstök fyrirtæki hafa vegna verðhækkunarbannsins orðið að selja vissar vörutegundir með tapi. Um þetta eru athugasemdir frá báðum nefndarhlutum í nál., og sé ég ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.

Út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, vil ég aðeins geta þess, að engin till. kom um það í fjhn., þegar málið var þar, að breyta því tímatakmarki, sem þar er sett í 1. gr. frv., enda dreg ég mjög í efa, að um það hefði orðið samkomulag í nefndinni, þó að slíku hefði verið hreyft.