11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. (JJós), sem tók af hálfu Sjálfstfl. þátt í afgreiðslu þessa máls í hv. fjhn., er fjarstaddur erlendis í erindum Alþingis og ríkisstjórnar og á þess vegna þess ekki kost að mæla fyrir afstöðu sinni í hv. nefnd. Ég taldi þess vegna rétt að fara nokkrum orðum um það mál, sem hér liggur fyrir, og afstöðu Sjálfstfl. til þess.

Það er alkunna, að á undanförnum árum, allt frá því í síðustu styrjöld, hefur íslenzkt efnahagslíf mjög átt í vök að verjast fyrir sakir vaxandi dýrtíðar og verðbólgu. Hér hefur átt sér stað stöðug víxlhækkun á verðlagi og kaupgjaldi, og afleiðingarnar af því kapphlaupi hafa orðið þær, að atvinnulífið og þá fyrst og fremst útflutningsframleiðslan hefur komizt í stórfelld vandræði.

Löggjafarvaldið hefur hvað eftir annað orðið að gera víðtækar ráðstafanir til þess, að framleiðslan gæti borið sig, og orðið að fara þar ýmsar leiðir, sumar óþekktar hér heima, en aðrar troðnar af öðrum þjóðum. Af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið á síðasta áratug í baráttunni gegn dýrtíð og verðbólgu, má nefna dýrtíðarlöggjöf þá, sem ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar setti í árslok 1947, en sú löggjöf var m. a. í því fólgin, að kaupgjaldsvísitala var fest og tilraun gerð til þess að stöðva víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags. Þegar þessi löggjöf var sett, áttu þrír flokkar aðild að ríkisstj.: Alþfl., sem hafði stjórnarforustuna, Sjálfstfl. og Framsfl. Þessir flokkar voru þá allir sammála um nauðsyn þessara ráðstafana. Það voru ýmsar fleiri ráðstafanir gerðar, lagðir á nýir skattar og ýmsar beinar ráðstafanir gerðar til stuðnings framleiðslunni, sem þá var komin á heljarþröm hallarekstrar. En í stjórnarandstöðu var þá flokkur þess hv. þm., sem nú mælti fyrir því frv., sem hér liggur fyrir til umræðu. Sá flokkur snerist þá mjög hatramlega gegn þessari viðleitni þáv. ríkisstj. til þess að halda verðbólgu og dýrtíð í skefjum. Hann kallaði vísitölubindinguna þrælalöggjöf, hnefahögg í garð verkalýðsins og vísvitandi tilraun til þess að arðræna alþýðu manna. Allt þetta eru ummæli, sem eru hv. þd. í svo fersku minni, að ég sé ekki ástæðu til að rekja þau á þessu stigi málsins nánar. En auðsætt er, að flokkur þessa hv. þm. hefur þó eitthvað lært á þeim tíma, sem síðan er liðinn, þar sem hann nú hefur lagt nafn sitt við bráðabirgðalöggjöf, sem sett var á s. l. sumri, þar sem meginatriðið er skerðing kaupgjalds með festingu vísitölu, því að hvað sem um þetta frv. er sagt og um þann tilgang þess að halda niðri verðhækkunum, þá getur engum dulizt, að kjarni þess er að banna kauphækkanir í samræmi við hækkandi vísitölu, þ. e. að festa vísitöluna á nákvæmlega sama hátt og gert var í árslok 1947 og hv. samflokksmenn þessa hv. frsm. fjhn. nú kölluðu hnefahögg í garð alþýðunnar, arðrán og öðrum álíka hugnæmum nöfnum.

Önnur tilraun, sem gerð hefur verið til þess að koma íslenzku efnahagslífi á réttan kjöl og hindra víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, er lögin um gengisbreytingu og ýmsar víðtækar ráðstafanir í efnahagsmálunum, sem sett voru snemma árs 1950 og Sjálfstfl. hafði forustu um að undirbúa, en Framsfl. og Sjálfstfl. síðar stóðu sameinaðir að í nýrri ríkisstj., sem mynduð var á grundvelli þess frv., sem minnihlutastjórn Sjálfstfl. hafði lagt fram um þessi mál. Þar var gengi íslenzkrar krónu skráð í samræmi við raunverulegt gengi hennar til þess að styðja útflutningsframleiðsluna, og enn fremur var reynt að setja nokkrar skorður við víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags með ákvæðum þar um.

Um þessar tilraunir, bæði 1947 og 1950, er það í stuttu máli að segja, að enda þótt þær hafi borið verulegan árangur fyrst í stað, þá fór þannig að lokum, að þær runnu út í sandinn. Ef við lítum t. d. á árangur gengisbreytingarlaganna, þá kemur í ljós, að á fyrstu fjórum árunum á eftir tókst að skapa mjög aukið jafnvægi í íslenzkum þjóðarbúskap. Greiðsluhallabúskap ríkisins var útrýmt og fjárhag þess komið á traustan og öruggan grundvöll, og tókst að halda verðlagi nokkurn veginn í skefjum, þegar undan er skilið það áfall, sem yfir reið með Kóreustyrjöldinni og almennt hækkandi verðlagi í heiminum af hennar völdum. Það var reiknað út, að ég hygg á árinu 1955, af hagfræðingum, sem Alþýðusamband Íslands og ríkisstj., sitt í hvoru lagi, fengu til þess að athuga kaupmátt launa, að s. l. tvö ár, þ. e. frá 1953 eða nánar tiltekið frá desember samkomulaginu 1952, frá því að samkomulag var þá gert við verkalýðssamtökin, hefði kaupmáttur launa ekki rýrnað, svo að teljandi væri.

Á þessu sést ef til vill greinilegast, að áhrif gengisbreytingarlaganna höfðu orðið í rétta átt. Það hafði tekizt að skapa nokkurn veginn jafnvægi og hindra um skeið kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags. En í þessum efnum var síðan brotið blað í ársbyrjun 1955. Þá settu verkalýðsfélögin fram stórfelldar kröfur um hækkað kaupgjald, kröfur, sem námu þá allt að 74%, og það er rétt, að hv. þm. hafi þá staðreynd í huga, þegar þeir minnast ummæla hv. 8. landsk. hér áðan um það, að verkalýðshreyfingin hefði á undanförnum árum aldrei sett fram kröfur, sem miðuðust við annað en að vega upp á móti þeim verðhækkunum, sem orðið höfðu, og skerðingu á launum.

Í ársbyrjun 1955 voru þessar kröfur settar fram og háð stórfelld verkföll, þau lengstu og harðsvíruðustu verkföll, sem hér hafa verið háð á síðari árum. Niðurstaðan varð sú, að á árinu 1955 hækkaði kaupgjald að meðaltali á Íslandi um 22%. Þegar þessi verkföll hófust, var það vitað mál, að meginhluti útflutningsframleiðslunnar var rekinn með stórfelldu tapi. Það var þess vegna ljóst, að það var allt annað en hagsmunir launþega og verkalýðsins í landinu yfirleitt, sem hafðir voru bak við eyrað, þegar kröfurnar um hinar stórfelldu kauphækkanir voru settar fram í ársbyrjun 1955, enda var það líka játað af þeim, sem þeirri kröfugerð stýrðu, að verkföllin væru fyrst og fremst pólitísks eðlis. Þau voru hafin með bréfaskriftum forseta Alþýðusambandsins til stjórnmálaflokkanna, vinstri flokkanna svokölluðu í landinu, þar sem skorað var á þá að nota nú tækifærið til myndunar ríkisstj., svokallaðrar vinstri stjórnar. Það, sem var að gerast þess vegna í ársbyrjun 1955 með verkföllunum, var ekki það, að verkalýðurinn væri að rísa upp til baráttu fyrir hagsmunum sínum. Mikill meiri hluti fólks í landinu vissi, að kauphækkun, eins og þá stóð á, eins og hallarekstri atvinnulífsins var háttað, þýddi alls ekki kjarabætur fyrir verkalýðsstéttirnar og launþega almennt. En niðurstaðan varð, eins og ég sagði áðan, sú, að kaupgjald hækkaði á árinu 1955 að meðaltali um 22%, þegar öll áhrif voru komin fram.

Eftir að það hafði gerzt, eftir þessar stórfelldu launahækkanir, eftir að þetta stórfellda kapphlaup var hafið milli kaupgjalds og verðlags og eftir að búið var að brjóta niður alla varnargarða frá gengisfellingarlöggjöfinni 1955, mátti segja, að tekið hefði verið úr öllum flóðgáttum dýrtíðarinnar. Fyrri hluta þessa árs hélt verðlag og kaupgjald áfram að hækka. Á s. l. vori, í marz eða aprílmánuði, fluttu sjálfstæðismenn, sem þá voru enn í stjórnarforustu, till. um það innan þáv. hæstv. ríkisstj., að reynt yrði að sporna nokkuð við fæti til bráðabirgða. Þeir lögðu til, að auknar yrðu mjög niðurgreiðslur á verðlagi ýmissa nauðsynjavara. Þeir lögðu þetta fyrst og fremst til sem bráðabirgðaráðstöfun, meðan unnið væri að frambúðarráðstöfunum í þessum efnum og meðan kosningar færu fram og aukið pólitískt jafnvægi skapaðist í landinu.

Samstarfsmenn okkar í ríkisstj., hv. framsóknarmenn, snerust þá gegn þessum till. Niðurstaðan hefur svo orðið sú, að á s. l. sumri hefur kaupgjald og verðlag haldið áfram að hækka á víxl. Vísitalan hefur hækkað allverulega á árinu, og engar ráðstafanir voru gerðar til þess að hindra vöxt dýrtíðar, fyrr en núv. hæstv, ríkisstj. setti brbl. þau, sem hér liggja nú fyrir til umræðu og staðfestingar á hv. Alþingi.

Ég vil segja það, sem bent hefur verið á af okkur sjálfstæðismönnum, að það hefði orðið miklum mun hægara að ýmsu leyti að ráða við þessi mál nú, ef fylgt hefði verið till. okkar á s. l. vori, ef verðlaginu hefði verið haldið niðri og þar með kaupgjaldsvísitölunni. Sú byrði, sem launþegarnir nú hafa orðið að taka á sig með þessum bráðabirgðaráðstöfunum, hefði orðið allmiklu léttari, ef okkar till. hefði verið fylgt á s. l. vori. Um þetta tjóar nú ekki að fjölyrða, þetta tilheyrir liðnum tíma, en engu að síður er rétt, að þetta komi fram í umr. um þetta mál nú.

Eins og bent er á í grg. hv. þm. Vestm. (JJós) í nál. um frv. það, sem hér liggur fyrir, er meginefni þessa frv. tvíþætt: annars vegar almennt bann við verðhækkunum, hins vegar ákvæði um, að ekki skuli greidd hærri dýrtíðaruppbót á kaup en nemur 78% grunnlauna, og verð landbúnaðarafurða í samræmi við það.

Hv. þm. Vestm. bendir réttilega á það, að í lögum voru ákvæði, sem gerðu kleift að banna hækkun verðlags. Þetta frv. er þess vegna fyrst og fremst um skerðingu á kaupgreiðslum og skerðingu á samningsrétti verkalýðsfélaga, en ekki um bann við verðhækkunum, eins og hv. 8. landsk. vildi láta liggja að hér áðan. Hæstv. ríkisstj. hafði heimild í gildandi lögum til þess að stöðva hækkun verðlags, en hún hefur sennilega talið líta betur út gagnvart launþegum, að hún hefði í ákvæðum, þar sem kaupgjaldsgreiðslur væru skertar, einnig ákvæði um bann gegn verðhækkunum.

Það þarf ekki að endurtaka það, sem lýst hefur verið yfir af hálfu sjálfstæðismanna, bæði í grg. hv. þm. Vestm. í þessu nál. og eins í hv. Nd., að sjálfstæðismenn eru alltaf reiðubúnir til stuðnings við hvers konar skynsamlegar ráðstafanir í baráttunni gegn dýrtíð og verðbólgu. Ég gæti rakið þá sögu lengra, sem ég aðeins hef drepið á hér á undan, að á undanförnum árum hafa sjálfstæðismenn alltaf verið í fararbroddi í baráttunni gegn verðbólgunni, gegn rýrnandi verðgildi peninganna og gegn versnandi aðstöðu framleiðslunnar. Við höfum sífellt varað þjóðina við þeirri geigvænlegu hættu, sem í því felst, að atvinnuvegir hennar séu stöðugt reknir með vaxandi halla og að aðstaða þjóðarinnar til samkeppni á erlendum mörkuðum verði stöðugt verri og verri. Þess vegna hljótum víð sjálfstæðismenn að styðja þá viðleitni, sem telst til baráttu gegn vaxandi verðbólgu og dýrtíð í þessu frv., og að sjálfsögðu er okkur ljúft að viðurkenna það, að í þessu frv. felst ákveðin viðleitni til þess að halda niðri verðlagi og til þess að stöðva víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Hitt er svo annað mál, að við höfum talið sjálfsagt og þjóðina eiga rétt á því af okkar hálfu, að bent væri á ýmiss konar yfirborðshátt í sambandi við þessa lagasetningu, og kem ég þá með nokkrum orðum að ræðu hv. frsm., hv. 8. landsk., hér áðan.

Hann byrjaði á því að tala um málsmeðferðina, og hann lagði áherzlu á það, að í raun og veru væri þessi löggjöf samningur á milli verkalýðs og bænda annars vegar og ríkisstj. hins vegar um það, að kaupgjaldi og verðlagi skyldi haldið niðri um skeið, og hv. þm. skýrði frá því, að það hefði verið haft samráð við verkalýðsfélögin og við bændasamtökin, áður en þessi löggjöf hefði verið sett.

Það er nú ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fara að svara þessu, svo oft er búið að gera það. En staðreyndirnar í þessu máli eru þær, að það voru engin samráð höfð við verkalýðsfélögin í heild. Það var, daginn áður en löggjöfin var sett eða í þann mund. sem var verið að prenta bráðabirgðalögin, hóað saman fundi formanna nokkurra þeirra verkalýðsfélaga hér í Rvík, sem náðist til, og þeir látnir standa frammí fyrir gerðum hlut. Til verkalýðsfélaganna úti um land var alls ekki leitað. Það, sem gerzt hefur í þessu máli um samráð við verkalýðsfélögin um setningu þessarar löggjafar, er þess vegna ekkert annað en það, að hæstv. félmrh., sem forgöngu hafði um setningu þessara brbl., sem hér liggja fyrir til staðfestingar, hefur haft samráð við örfáa menn innan verkalýðshreyfingarinnar, en ekki við verkalýðshreyfinguna í heild. Það er óþarfi að láta það standa ómótmælt hér í hv. þd., þessar stöðugu falsyfirlýsingar um það, að verkalýðssamtökin í heild hafi staðið að setningu þessarar löggjafar og það sé um einhvern samning að ræða milli þeirra og hæstv. ríkisstj. um þetta mál. Því fer víðs fjarri. Það veit hver einasti maður, sem er meðlimur í verkalýðsfélagi úti um allt land, að þetta er falsyfirlýsing og blekking. Það eru örfáir menn hér í Rvík, sem hæstv. félmrh. talaði við um þessi mál, og aðrir ekki, og slíkt verður aldrei kallað samráð við verkalýðssamtökin í landinu.

Það hefði a. m. k. ekki verið kallað samráð, ef það hefðu verið sjálfstæðismenn, sem stóðu að setningu brbl. Þá er hætt við því, að það hefði verið efnt til mótmælafunda og stráð mótmælaályktunum yfir Alþingi gegn þessum brbl., ef það hefðu verið sjálfstæðismenn, sem slík samráð hefðu haft við verkalýðsfélögin um setningu jafnþýðingarmikillar löggjafar, sem snertir jafnmjög hagsmuni fólksins og raun ber vitni.

Sama máli gegnir um bændasamtökin, og þar er falsið enn augljósara, vegna þess að það var enn hægara um vik að hafa raunverulega samráð við samtök bænda. Samtök bænda eru ekki byggð upp af hundruðum lítilla félaga úti um allt land, heldur eru það heildarsamtök eins og Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og framleiðsluráð landbúnaðarins. Það var ákaflega auðvelt að ná stjórnum þessara samtaka saman eða jafnvel að ná saman fundi í Stéttarsambandi bænda. Ekkert slíkt var gert. Það var talað sumpart í síma og sumpart munnlega við formann Stéttarsambandsins, en við stjórn Stéttarsambandsins sem heild var ekki rætt einu orði. Við stjórn Búnaðarfélagsins sem heild var ekki rætt eitt orð heldur. Við stjórn framleiðsluráðs sem heild ekki heldur. Hvers konar samráð voru þá höfð við stéttarsamtök bænda? Og hvers konar samningur er hægt að tala um að hafi verið gerður milli bændastéttarinnar og ríkisstjórnarinnar á grundvelli slíks samráðs? Það hefur líka komið fram frá bændum úr öllum landshlutum, að hér var ekki um neitt samráð að ræða. Og á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem ég hafði þá ánægju að sitja norður á Blönduósi, datt engum manni í hug að halda því fram, að það hefði verið haft samráð við Stéttarsambandið eða við önnur samtök bænda. Þvert á móti kom fram snörp gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir vinnubrögð hennar í þessum málum, og henni var ekki einu sinni mótmælt.

Ég álít þess vegna, að hv. 8. landsk. þurfi að læra betur, hann þurfi að flytja fram gleggri rök fyrir því, sem hann var að segja hér áðan um samráð ríkisstjórnarinnar við stéttarsamtökin, ef hann ætlar að fá hv. þingdeild til þess að trúa orðum sínum.

Ég vil í þessu sambandi einnig minna á samþykkt Sjómannafélags Reykjavíkur, eins stærsta verkalýðsfélagsins hér í Reykjavík, sem kom saman til fundar nokkru eftir að þessi löggjöf hafði verið sett. Þar var samþykkt, með að ég held samhljóða atkv., till., þar sem vinnubrögð ríkisstjórnarinnar voru vítt og því lýst yfir, að ekkert samráð hefði verið haft við Sjómannafélagið, sem þó er eitt stærsta verkalýðsfélag í landinu.

Nei, það liggur fyrir sannað, þannig að ekki verður vefengt, að við stéttasamtökin, hvorki bænda né verkalýðsins almennt, hafi ekki verið höfð nokkur samráð um setningu þessarar löggjafar. Einstakir ráðherrar hafa rætt við nokkra flokksmenn sína í samtökunum, en samtökin sem heild hvergi komið nærri né verið kvödd til ráða.

Hv. 8. landsk. sagði hér áðan, að það hefði verið skoðun verkalýðssamtakanna á undanförnum árum, að happasælasta leiðin til þess að stemma stigu við dýrtíðinni væri að tryggja kaupmátt launanna, ef ég tók rétt eftir. Ég skal ekki draga í efa, að þetta hafi verið skoðun mikils meiri hluta verkalýðsins í landinu, almennings, fólksins í verkalýðsfélögunum, að áhrifamesta leiðin, að happasælasta leiðin til þess að stemma stigu við dýrtíðinni væri að tryggja kaupmátt launanna. En ég fæ ekki séð, að framkvæmdin hafi verið sú, sem hv. þm. vildi vera láta í þessu máli. Ef við lítum til baka til 1955, sem ég ræddi nokkuð um hér áðan, þá verður það ljóst, að öllum forustumönnum verkalýðssamtakanna var, eins og almenningi í landinu, þá ljóst, að það var ekki hægt að bæta kjör almennings í landinu með því að hækka kaupgjaldið þá. Útflutningsframleiðslan var rekin með stórfelldum halla, og hækkun kaupgjalds hlaut að hafa í för með sér aukinn halla framleiðslunnar og auknar álögur á almenning til þess að fá framleiðslunni nokkurn hluta af því fjármagni aftur, sem hún hafði ranglega verið krafin um. Staðreyndin er því miður sú, að verkalýðssamtökunum hefur á undanförnum árum verið beitt samvizkulaust af kommúnistum fyrir vagn dýrtíðarinnar, fyrir kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Hagsmunir almennings, launþega og verkalýðs, hafa þar ekki verið hafðir í huga, heldur pólitísk nauðsyn þess flokks, sem mest áhrif hefur haft í stærstu verkalýðsfélögum landsins. Þetta er sú ömurlega staðreynd, sem ekki verður sniðgengin. Í henni á ógæfan rætur sínar, sú ógæfa, að hallarekstur framleiðslunnar hefur orðið meiri og meiri, íslenzk króna hefur orðið verðminni og verðminni og þjóðfélagið allt hefur efnahagslega séð að vissu leyti gengið úr skorðum.

Ég minnist þess líka, að hæstv. núverandi fjmrh. undirstrikaði einmitt þessa staðreynd í umræðum á Alþ., sem fram fóru á fyrri hluta þessa árs, í eldhúsumræðum. Hann tók þáverandi stjórnarandstöðu og þá fyrst og fremst kommúnista til bæna og spurði: Hvað eruð þið að deila á ríkisstj. fyrir það, að hún þarf nú að afla sér aukinna tekna til þess að standa undir bagganum af verðbólgunni, — þið, sem lögðuð grundvöllinn að því kapphlaupi milli kaupgjalds og verðlags, sem gert hefur þetta nauðsynlegt? Ég er fyllilega sammála hæstv. fjmrh. um þetta. Ég efast hins vegar um það, að hann mundi vilja standa við þessi ummæli sín í dag, þegar hann er kominn í stjórnarsamvinnu með sjálfum bölvaldinum, með kommúnistum, sem hafa leynt og ljóst unnið að því að svíkja íslenzkt efnahagslíf, grafa undan afkomugrundvelli framleiðslunnar og rýra afkomuöryggi fólksins. Ég segi: Það er mjög ánægjulegt, þegar talsmaður kommúnistaflokksins mælir þau orð, sem hv. 8. landsk. viðhafði hér áðan. Við skulum vona, að þessir háu herrar standi við þessi orð, ekki bara út þetta þing, heldur áfram, ekki bara meðan þeir eru í ríkisstj. sjálfir, því að meðan þeir voru ekki í ríkisstj. höfðu þeir allt aðra afstöðu. Annars get ég ekki látið undan fallast að benda á það, að einmitt í dag, á sama tíma sem þetta frv. kemur til 2. umr. hér í þessari hv. þingdeild, skýtur þeirri hugsun upp og er ekkert leynt í málgagni stærsta stjórnarflokksins, þ. e. a. s. kommúnistaflokksins, að svo kunni að fara, að núverandi stjórnarflokkar svíki í þessu máli eins og þeir hafi svikið í utanríkismálunum og varnarmálunum. Þjóðviljinn segir það hreinlega í morgun í lok leiðara síns: Stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Alþfl., hafa svikið í varnarmálunum, og hver veit, nema þeir ætli sér nú að svíkja líka í dýrtíðar- og verðlagsmálunum?

Það er ekkert að furða, þó að það setji að manni nokkurn efa um, að full heilindi liggi á bak við þau fögru orð, sem frsm. kommúnista, sem mælir nú fyrir hönd meiri hl. hv. fjhn., lét sér hér um munn fara áðan. Þrátt fyrir allt, sem gerzt hefur milli Sjálfstfl. og hinna annarra lýðræðisflokka, hef ég þó meiri trú á því, að þeir mæli af fullum heilindum, þegar þeir tala um nauðsyn þess að skapa jafnvægi í íslenzku efnahagslífi og bæta úr því öngþveiti, sem af moldvörpustarfsemi kommúnista hefur á undanförnum árum leitt yfir íslenzka framleiðslu og efnahagslíf.

En af þessu tilefni, sem gefið er af málgagni stærsta stjórnarflokksins í dag, um það, að svo kunni að fara, að hinir stjórnarflokkarnir svíki í efnahagsmálunum, vildi ég nú leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem er eini hæstv. ráðh., sem er viðstaddur, — því að hæstv. félmrh., sem leggur þetta frv. fram, hefur aldrei sýnt hv. þingdeild þá virðingu að vera viðstaddur, þegar málíð er rætt, — ég vildi leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hverjar þær ráðstafanir séu, sem væntanleg eru frv. um á næstu dögum. Ég vil enn fremur beina þeirri fsp. til hans, við hvaða rök þessar dylgjur málgagns stærsta stjórnarflokksins í dag styðjast. Ég álít, að hv. þd. eigi nokkurn rétt á því að fá upplýsingar um þetta frá hæstv. ríkisstj. nú. Það er vissulega alvarlegt mál, að nú þegar nokkrir dagar eru eftir af gildistíma þeirra ráðstafana, sem hér liggja fyrir til umr., skuli aðalmálgagn stærsta stjórnarflokksins láta liggja að því, að allt samkomulag kunni að vera að splundrast um lausn í þessum þýðingarmiklu málum vegna ósamkomulags og jafnvel beinna svika af hálfu ákveðinna hluta ríkisstjórnarinnar. Ég álít, að Alþ. og jafnframt þjóðin í heild eigi rétt á því að fá upplýsingar um þetta frá hæstv. ríkisstjórn, því að vitanlega verður að taka það alvarlega, þegar málgagn stærsta stjórnarflokksins setur fram slíkar staðhæfingar, að það séu yfirvofandi svik í þessum málum líka, eftir að búið sé að svíkja í öðrum stærsta málaflokki stjórnarinnar, þ. e. í varnarmálunum og utanríkismálunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi þess. En ég vil að lokum endurtaka það, að Sjálfstfl. er reiðubúinn til þess að styðja hverjar þær ráðstafanir, sem skynsamlegar eru, til sköpunar jafnvægis í efnahagsmálum Íslendinga og til stuðnings við framleiðslu þeirra og til sköpunar aukins afkomuöryggis fyrir almenning. Í þessu frv. er einungis um bráðabirgðaráðstafanir að ræða, bráðabirgðaráðstafanir, sem að vísu í eðli sínu stefna í rétta átt. Það, sem á eftir kemur, og það, sem ég nú var að spyrja hæstv, forsrh. um, skiptir öllu máli.