11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. endaði ræðu sína á þá leið, að Sjálfstfl. væri tilbúinn að styðja þetta frv., vegna þess að hann teldi það vera spor í þá átt að stöðva verðbólguna í landinu og að manni skildist spor í þá átt að sjá atvinnuvegunum farborða. Jafnframt eða rétt áður hafði þó þessi sami þm. þau orð um frv., að það væri eiginlega um ekkert annað en kauplækkun, og fer þá út frá því að verða skiljanlegri afstaða Sjálfstfl. Sem sagt, flokkur hans er fyrst og fremst tilbúinn að styðja þetta frv. af því, að hann telur það vera kauplækkun og eiginlega ekkert annað.

Málið horfir öðruvísi við frá mínum bæjardyrum séð. Ég tel, að verkalýðshreyfingin hafi einmitt verið með þessum lögum vegna þess, að hún skoðaði þau ekki sem kauplækkun, heldur þveröfugt sem kjarabót. Ég held, að ég hafi komið það nákvæmlega inn á það í ræðu minni, áð ég sé ekki neina, ástæðu til þess að færa að því frekari rök en ég gerði þá. En þessi stefna Sjálfstfl., sem kemur fram í sjálfri röksemdinni fyrir því, að flokkurinn sé nú með frv., lýsir mætavel eðli Sjálfstfl. Hann hefur aldrei — ég held; að það sé óhætt að segja — frá því að verkalýðssamtökin urðu til í þessu landi fyrir um hálfri öld eða rúmlega það, verið með því, að kaupgjald yrði hækkað. Hann hefur aldrei á þessu tímabili notað aðstöðu sína, hvorki sem stjórnarflokkur né með málflutningi sínum á öðrum vettvangi, til þess að berjast fyrir bættum kjörum. Á þessu tímabili hafa lífskjörin, hefur kaupmáttur launanna margfaldazt, sennilega ekki minna en ferfaldazt, og þjóðin hefur getað staðið undir þessu. Og það, sem hefur gert það fært, er fyrst og fremst það, að verkalýðssamtökin hafa knúið afturhaldið, íhaldið, þá, sem hafa haft auðmagnið í landinu, til þess að bæta framleiðslutækin. Afleiðingar af kröfum verkalýðsfélaganna hafa oft og tíðum verið þær, að það hefur verið reynt að gæta meiri hagsýni, „modernisera“ framleiðslutækin og gera þau þannig hæfari til þess að standa undir þeim kröfum, sem fólkið óhjákvæmilega hefur gert. Á móti þessu hefur Sjálfstfl. alltaf staðið, og mér þætti reyndar bara trúlegt, að ef hann hefði alltaf ráðið, þá hefðum við ekki einu sinni þilskip til að róa á nú, hvað þá togara eða önnur fullkomin framleiðslutæki.

Hv. þm. N-Ísf. vildi vefengja, að það hefði verið stefna verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum úrum að halda kaupmættinum á þann hátt að sporna við dýrtíðinni, og benti sérstaklega á verkfallið 1955 í því sambandi.

Ég held, að þessi hv. þm., sem er greindur maður, hljóti að skilja það, að því aðeins er möguleiki fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa bein áhrif á þennan hátt, að hún hafi áhrif á stjórnarstefnuna í landinu. Hún ætti að geta það núna, vegna þess að hún getur haft sín áhrif þar. En hún gat það ekki 1955, vegna þess að Sjálfstfl. var þá of mikils ráðandi um stjórnarstefnuna í landinu. Ég vil líka benda þessum hv. þm. á það, sem honum raunar hlýtur að vera kunnugt, að samkv. gildandi vinnulöggjöf er lagt blátt bann við því, að verkalýðsfélögin noti samtakamátt sinn, eina vopnið, sem þau hafa til þess að koma fram málum á þeim vettvangi, sem sagt verkfallsvopnið, í öðrum tilgangi en að knýja fram bætur á kaupi sínu og kjörum. Verkföll, sem háð eru í öðrum tilgangi, eru ólögleg samkv. vinnulöggjöfinni og koma því ekki til greina. Þess vegna er verkalýðssamtökunum nauðugur sá kostur, ef þau vilja fá kjör sín bætt, á hvern hátt sem er, að setja það í fyrstunni fram sem kaupkröfur. Hitt er svo aftur annað mál, að þeim er náttúrlega í sjálfsvald sett að falla frá þeim kröfum að meira eða minna leyti, ef einhver boð eru um það frá stjórnarvöldunum eða öðrum, sem ráð hafa í því efni, að koma til móts við hagsmuni þeirra á annan hátt, og til þess hafa verkalýðssamtökin alltaf verið reiðubúin, þrátt fyrir það þó að þau hafi sett fram kaupkröfur. Þessu til sönnunar er vel hægt að benda á t. d. verkfallið 1952, sem var að mestu leyti leyst einmitt með löggjafaratriðum, sem komu til móts við kröfurnar og bættu þær upp, þannig að verkalýðsfélögin gátu fallizt á að hverfa frá kauphækkunarkröfunum, sem þau voru vegna lagabókstafsins neydd til að bera fram. Þá voru þau reiðubúin til þess að falla frá þeim gegn öðrum ívilnunum. Og þannig hefur þetta oftast nær verið, þótt hv. þm. N-Ísf. vilji hafa um það aðra skoðun.

Hann minntist á það, að 1955 hefðu verkalýðsfélögin gert kröfu um 74% kauphækkun. Ég verð nú að segja það, að þó að ég ætti nokkurn hlut að þeim kröfum, sem þá voru settar fram, rekur mig ekki minni til þess, að þetta hafi við rök að styðjast. Þvert á móti held ég, að kröfurnar hafi a. m. k. að jafnaði verið í kringum 30%, og það vita allir um kröfur, sem settar eru fram í byrjun vinnudeilna, að það dettur engum í hug, að þær nái fyllilega fram að ganga. En sá grundvöllur, sem miðað var við, sem verkalýðsfélögin höfðu til hliðsjónar, þegar þessar kröfur voru ákveðnar, var sá útreikningur, sem þau höfðu látið fara fram á breytingu kaupmáttarins frá 1947 til 1955. Og fyrir því liggja alveg óyggjandi rök hagfræðinga, að þessi kjararýrnun, sem orðin var á þessu tímabili, væri í kringum 20%, þegar ekki var tekið tillit til húsaleigunnar, sem hafði þó hækkað miklu meira á þessu tímabili en nokkur vara eða nokkuð annað, sem menn þurfa sér til framfæris. Og Sjálfstfl. er m. a. mest þakkandi fyrir þá gífurlegu hækkun. Það er því óhætt að fullyrða, að á þessu tímabili, sem þarna er rætt um, hafi launakjörin raunverulega verið búin að lækka um nokkuð mikið yfir 20%.

Nú vitnaði hv. þm. í það, að á árunum, mig minnir að hann segði 1952-53, hefðu ekki orðið miklar breytingar hvað viðkom kaupmættinum. Þetta kann nú að vera rétt, að á þessu tímabili hafi ekki verið um stórkostlega kjararýrnun að ræða, eins og kom fram í áliti Ólafs Björnssonar og Klemenzar Tryggvasonar, sem þeir gerðu um þetta, nokkrar kjararýrnanir, var ekki þá heldur tekið tillit til húsaleigunnar, sem tók einmitt gífurleg stökk upp á við á þessum árum.

Ég get skilið það, að það geti verið frambærilegt sjónarmið, séð frá bæjardyrum þessa hv. þm., að verkalýðshreyfingin hefði átt að sætta sig við það, að kjör hennar versnuðu stórkostlega einmitt á þessum tíma, og er ósköp skiljanlegt út frá því sjónarmið hans og hans flokks. Sá flokkur hefur alltaf talið, að verkalýðurinn hefði of mikið kaup og öll bölvun stafaði af því, að honum væri borgað of mikið. Það hefur verið fyrsta og síðasta, sem sá flokkur hefur talið til bjargar, að lækka kaupið, — fyrsta og síðasta úrræðið. En frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar er vitanlega allt annað. Það hafa aldrei verið minni ástæður til þess að sætta sig við kjararýrnanir en einmitt á árunum frá 1947, aldrei í sögu þjóðarinnar. Einmitt á þessu tímabili óx framleiðslan meira en dæmi voru til áður. Við eignuðumst stórkostlegri og afkastameiri tæki, bæði til þess að veiða fisk, til þess að verka fisk og yfirleitt í öllum greinum þjóðarbúskaparins. Og ég hef alltaf haldið, að það væri einmitt framleiðslan, sem gæti staðið undir kauphækkunum, að aukin framleiðsla þjóðar ætti að geta bætt lífsstigið, en ekki öfugt. Og hafi það nú verið svo, að eitthvert vit hafi verið í kaupinu, eins og það var 1947, og kaupmætti launanna þá, er það algerlega óafsakanlegt út frá öllum sjónarmiðum séð að lækka kaupið, um leið og framleiðslutækin og gjaldeyrisframleiðslan jókst meira en nokkru sinni áður.

Hv. þm. gerði tilraun til þess að bera saman vísitölubindingu 1947 og þessa löggjöf, sem nú hefur verið sett. Ég benti á það í framsöguræðu minni, hvernig verkalýðssamtökunum hefði verið boðið, hvernig hefði verið komið til móts við þau frá hendi bæði bændasamtakanna og ríkisstjórnarinnar og hvernig verkalýðssamtökin hefðu metið það sem hagsbót fyrir sig að ganga að þessu. Það var ekkert slíkt gert, þegar vísitölubindingin var gerð í tíð stjórnar Stefáns Jóhanns — ekki neitt, og vegna þess er það ekki sambærilegt á nokkurn hátt. Og ég verð að segja það, að mér finnst þurfa mikil brjóstheilindi til, þegar fulltrúi Sjálfstfl. stendur hér upp og óskapast yfir því, að það hafi ekki verið haft samráð við verkalýðsfélögin um þetta mál. Ég veit ekki til þess, að þegar hann hefur verið í stjórnaraðstöðu, hafi hann nokkurn tíma gert minnstu tilraun til þess að hafa samráð við verkalýðssamtökin. Hann hefur aldrei spurt þau um neitt. Hann hefur vissulega talið sér fært að taka allar sínar ákvarðanir án þess að kveðja verkalýðssamtökin eða forustumenn þeirra til og spyrja þá ráða.

Í framhaldi af þessu fullyrðir þm., að hér sé farið með falsyfirlýsingar og staðlausa stafi, þegar því er haldið fram, að það hafi verið haft samráð við verkalýðsfélögin, það hafi bókstaflega ekkert samráð verið haft, það hafi engir menn utan Reykjavíkur verið að spurðir, aðeins örfáir flokksmenn hafi verið til kvaddir hér, kallaðir saman klíkufundir flokksmanna.

Ég vil bara sýna fram á það með litlu dæmi, hvernig þessi hv. þm. veður reyk í þessu. Ég veit það t. d. í mínu stéttarfélagi, Verkamannafélagi Akureyrarkaupstaðar, og verkalýðsfélögunum á Akureyri, að þau héldu sameiginlegan fund vegna þessa máls, allar stjórnir félaganna og fulltrúaráðið, — með stærri fundum, sem þar eru haldnir, um 60–70 manns, — og þar var samþykkt einum rómi að lýsa yfir stuðningi við þessar aðgerðir. Ég held, að það hafi verið tvö atkv. á móti samkomulaginu á þessum fundi.

Í því héraði, þar sem hv. þm. ætti að vera kunnugastur, á Vestfjörðum, var mér sagt af kunnugum mönnum núna á Alþýðusambandsþinginu, að fyrst hefði verið rætt um þetta við forseta sambandsins, Björgvin Sighvatsson, hann hefði síðan eftir tiltækilegum leiðum talað við formenn allra verkalýðsfélaganna í fjórðungnum. Ég hef fulla ástæðu til þess að ætla, að þetta sé algerlega rétt, og það kemur a. m. k. heim við það, sem annars staðar hefur gerzt, þar sem ég veit vel um, að ekki er um neitt fals að ræða varðandi þetta.

Aðrir eru kunnugri því, hvernig Stéttarsamband bænda og bændastéttin hefur verið spurð ráða um þetta. En mig minnir, og það er mikið misminni hjá mér, ef í sambandi við umr. í Nd. kom ekki fram yfirlýsing frá formanni Stéttarsambandsins, þar sem því var lýst, að meiri hluti stjórnar Stéttarsambandsins a. m. k. — og ég held framleiðsluráðsins líka — hafi verið að spurður og hafi sagt sitt álit.

Ég verð að sjálfsögðu að biðja hv. þm. N-Ísf. að afsaka það, að ég er ekki enn farinn að lesa leiðara Þjóðviljans frá því í dag, svo að ég get ekki gert að umtalsefni þau svikabrigzl, sem hann telur að þar séu í garð samstarfsflokka Alþýðubandalagsins í ríkisstj. En ég þykist vita, að þm. sé ekki svo gleyminn, að hann sé svo langminnugur, að hann minnist kannske eitthvað sambúðarinnar á stjórnarheimilinu, þegar hans flokkur var í ríkisstj. Mig a. m. k. rekur glögglega minni til þess, að þá hafi Sjálfstfl. verið með dagleg, að ég held, a. m. k. vikuleg svikabrigzl á hendur samstarfsflokki sínum, svo að ég held, að vegna þessa leiðara þurfi hann a. m. k. að svo komnu máli ekki að hafa neinar áhyggjur.