16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Rannsókn kjörbréfa

Aldursforseti (JJós):

Hv. þm., sá er síðast talaði, vék þeirri spurningu til forseta, hvar það stæði í þingsköpum, að þm. mættu ræða önnur mál en þau, sem á dagskrá væru, eða þannig skildi ég orð hans.

Ég ætla, að slík fyrirmæli sé ekki að finna í þingsköpum, að það sé mælt svo fyrir um, að þingmenn megi tala um önnur mál en til umræðu eru. En það er algengt, eins og hv. 1. þm. Eyf. hlýtur að þekkja úr sinni löngu forsetatíð, að menn víkja að öðrum málum en þeim, sem á dagskrá eru, ef þau eru mjög skyld og standa nokkuð í sambandi við það mál, sem verið er að ræða, án þess að forseti hafi alltaf fundið ástæðu til þess að skerast í leikinn, enda má segja í þessu máli, að það getur verið dálítið mjótt mundangshófið og erfitt að sjá, hvar helzt á að grípa niður, ef forseti vill skipta sér af umræðum á þennan hátt. Þegar hér er verið að ræða um kosningadeilu og þó að út frá því komi einhver hv. þm. með það, sem hv. 1. þm. Eyf. kallaði heimspekilegar hugleiðingar um stjórnarskrá og kosningalög, þá taldi ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til þess að grípa fram í fyrir hv. 4. landsk.

Á hinn bóginn er þess að geta, að hv. 1. þm. Eyf. fór líka út í þessa sálma, þótt ekki væri að neinu verulegu leyti, og hugleiðingar hans sennilega alveg eins heimspekilegar og hv. 4. landsk.

Að því leyti er aths. hans snerti það, að tími þingsins sé ekki réttilega notaður af forseta til að ræða þetta mál, þá hef ég vikið að því áður, hvaða ástæður hafa legið fyrir því, að ekki hafa verið haldnir kvöldfundir eða næturfundir til að keyra málið áfram, og þarf ekki að fjölyrða um það frekar.