06.12.1956
Efri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

76. mál, eignarskattsviðauki

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði vænzt þess, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur hér í d., þegar þetta frv. kæmi hér til 1. umr. og væri lagt fram af hálfu hæstv. ríkisstj. Það hefur verið háttur ríkisstjórna að mæla fyrir tekjuöflunarfrumvörpum, sem þær hafa flutt. Svo virðist þó ekki vera að þessu sinni. Hér er lagt fram frv. um framlengingu á ákvæðum laga um, að eignarskattur skuli innheimtur með 60% álagi, en hæstv. fjmrh. er þar hvergi nærri.

Fyrir nokkrum dögum var lagt hér fyrir hv. þd. frv., sem hæstv. félmrh. stóð að. Hæstv. ráðh. lét ekki svo lítið að sýna sig í hv. þingdeild, og af hálfu ríkisstj. var ekki mælt eitt orð fyrir þessu stóra máli, sem var um festingu kaupgjalds og verðlags.

Ég álít, að þessi hv. d. eigi rétt á því, ekki síður en hv. Nd., að mælt sé fyrir þeim málum af hálfu hæstv. ríkisstj., sem fyrir hana eru lögð. Og ég vil beina því til hæstv. forseta, að hann flytji hæstv. ráðh., sem hér eiga hlut að máli, þau skilaboð, að það sé talið æskilegt, að þeir mæti í hv. þd. og mæli fyrir sínum málum, þegar þau eru lögð fram.

Ég hafði hugsað mér við 1. umr. þess máls, sem ég gat hér um áðan, um festingu kaupgjalds og verðlags, að bera fram ýmsar fsp. til hæstv. ríkisstj. Þess var enginn kostur, þar sem ráðh. var víðs fjarri og enginn af hálfu ríkisstj. mælti fyrir málinu.

Ég vil í sambandi við þetta frv. aðeins segja það, að það er auðvitað gamall kunningi, ef svo mætti að orði komast. En í sambandi við það, þetta tekjuöflunarfrumvarp, væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ríkisstj. um það nú, þegar liðið er að jólum, hvenær vænta megi úrræða hennar í efnahagsmálunum. Þau hafa verið boðuð og margboðuð og frá því skýrt, að nefndir innlendra og erlendra manna hafi setið á rökstólum með hæstv. stj. og undirbúið þessi úrræði. Ég álít þess vegna, að þm. eigi nokkurn rétt á því að vita nú, þegar tekið er að líða á jólamánuð, hvenær frumvarp eða frumvörp um þessi úrræði muni verða lögð fram.

Ég mundi einnig gjarnan vilja fá að vita eitthvað um það, áður en gengið er til samþykktar á tekjuöflunarfrumvörpum, hver úrræði hæstv. ríkisstj. eru. Og ég tel ekki óeðlilegt, að afstaða Alþ. til tekjuöflunarfrumvarpa fari nokkuð eftir því, hverra úrræða ríkisstj. hyggst grípa til gagnvart þeim vandamálum, sem nú steðja að íslenzku efnahagslífi. Það er vitað, að þær bráðabirgðaráðstafanir, sem gerðar voru með brbl. af hálfu ríkisstj. á s. l. sumri, eru bundnar við áramót, missa þá gildi sitt. Það er einnig vitað, að mjög mikill hluti framleiðslunnar stöðvast, þ. e. a. s. útgerðin hefst ekki um þessi áramót, fyrr en séð er, hverjar ráðstafanir verða gerðar henni til stuðnings. Um þetta allt saman væri æskilegt að fá upplýsingar af hálfu hæstv. ríkisstj. hér í þessari hv. þd., eins og í hv. Nd., þegar um hliðstæð mál hefur verið að ræða.

Ég vil endurtaka þá yfirlýsingu mína, að ég tel, að ástæða sé til óánægju með þessa framkomu hæstv. ríkisstj., og ég vildi ekki láta 1. umr. um þetta mál ljúka þannig, að hún yrði ekki látin í ljós.