06.12.1956
Efri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

76. mál, eignarskattsviðauki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Af því að hv. þm. N-Ísf. hefur ekki átt sæti hér í þessari d. áður, vil ég segja honum það, að á hverju þingi í mörg ár hef ég fundið að því sama, sem hann var að finna að, og þar hafa átt í hlut allir ráðherrar jafnt, og það var engin undantekning, hvorki hjá Ólafi Thors né Bjarna Benediktssyni, sem báðir hafa setið í ráðherrastólum. Það var algengt og margalgengt, og hann getur farið í þingtíðindin og fundið ótal dæmi þess, að þeir hafa ekki látíð sjá sig í d. allan tímann, sem mál þeirra hafa verið hér á dagskrá, aðallega Ólafur Thors, og Bjarni reyndar líka stundum, og átti hann þó sæti í d. Ég vildi bara minna hann á þetta, svo að hann sjái, að það er ekki bara fjmrh., sem hann var að tala um, það eru ráðh., sem hafa setið hér áður, allir saman jafnt, sem hafa sýnt d. þá lítilsvirðingu að hafa ekki framsögu á sínum málum.