06.12.1956
Efri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

76. mál, eignarskattsviðauki

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra undirtektir hæstv. forseta og hv. 1. þm. N-M. (PZ) undir þá aðfinnslu mína, að ráðherrar fylgi ekki úr hlaði þeim málum, sem þeir leggja fyrir hv. þingdeild. Hins vegar fæ ég ekki séð, að slík vanræksla af hálfu hæstv. núverandi ráðh. sé nokkuð betri fyrir það, þó að einhverjir aðrir hæstv. ráðh. hafi gerzt sekir um hana. Ég veit ekki, hvað hv. 1. þm. N-M. finnst um það. En mér finnst, að slík vanræksla sé jafnóafsakanleg, hvers flokks ráðherrar sem í hlut eiga.

Fyrst hæstv. fjmrh. er mættur hér og hefur fylgt þessu máli úr hlaði, vildi ég aðeins ítreka þá fsp. til hans, sem ég hreyfði aðeins hér, áður en hann kom inn í hv. þingd. Það er um það, hvort vænta megi frumvarps eða frumvarpa frá hæstv. ríkisstj. um úrræði hennar í efnahagsmálunum fyrir jól, áður en þinghlé verður gert, og enn fremur, hvort hæstv. ríkisstj. hyggist afgreiða fjárlög, áður en frumvörp verða lögð fram um þessi mál.

Eins og ég gat um í upphafi, þá skiptir það nokkru máli fyrir Alþ., hv. þingmenn, að fá vitneskju um þetta. Ég veit, að núverandi hæstv. ríkisstj. gerir sér það eins ljóst og aðrar hæstv. ríkisstjórnir á undanförnum árum, að ef dráttur verður á ráðstöfunum til stuðnings framleiðslunni fram yfir áramót, þá er hætt við, að það geti haft örlagaríkar afleiðingar, geti tafið það, að vertíð hefjist. Það hefur gerzt stundum á undanförnum árum, og ég vil segja, að til þess væru vítin að varast þau.

Ég minnist á þetta nú hér vegna þess, að hér liggur fyrir tekjuöflunarfrv. frá hæstv. ríkisstj., og það er ekki óeðlilegt, að þm. vilji einmitt í sambandi við slík frv. fá þær upplýsingar, sem ég hér hef farið fram á að fá frá hæstv. fjmrh. og ég vænti, að hann gefi.