16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Rannsókn kjörbréfa

Síðari frsm. 2. kjördeildar (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég hef hér, eins og kunnugt er, flutt tvær ræður við þessar umr. og gert grein fyrir mínum skoðunum á því máli, sem hér liggur fyrir, en út af svörum tveggja fulltrúa Hræðslubandalagsins þykir mér rétt að bæta hér við fáeinum orðum.

Það kom nokkuð ljóst fram, einkum hjá hv. 1. þm. Eyf., að honum hafði þótt ég kveða nokkuð fast að orði varðandi afstöðu og framkomu hv. þm. Ak. (FS) í þessum leik. Hann kallaði það því nafni, að ég hefði farið með persónulegar svívirðingar um þennan mann. Þessu neita ég alveg harðlega, nema ef menn vilja kalla það persónulegar svívirðingar að segja sannleikann um afbrot þessa manns, sem ég tel vera gegn 29. gr. kosningalaganna, í síðustu kosningum, eða það, að ég telji það sízt hæfa manni, sem á að gæta laga og réttar í stórum kaupstað, að gera sig sekan um slíkt.

Það, sem ég sagði í þessu efni, er þess vegna fjarri því að vera persónulegar svívirðingar. Ef hv. 1. þm. Eyf. eða aðrir vilja kalla það ljót orð, sem ég hafi um þetta haft, þá er þó nær að segja, að það sé harðvítug pólitísk ádeila, sem til hefur verið unnið, og ég tel enga ástæðu til að taka nokkurt orð af því aftur eða biðja á því afsökunar, heldur mun ég lofa þessum hv. þingmönnum því, að mín ræða skal verða birt orðrétt, svo að alþjóð manna fái að sjá, hvað það er, sem ég hef haldið fram.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) kom með þá undarlegu skýringu, að í mér logaði einhver reiði, vegna þess að frambjóðandi Hræðslubandalagsins í mínu héraði hefði tekið af mér 100 atkv., sem ég hefði áður haft. Ég hélt nú, að svo kunnugur maður sem vinur minn, Bernharð Stefánsson, mundi aldrei koma með svona firru, því að í þessu er enginn sannleikur. Hitt er rétt, að mér þótti ákaflega undarlegt, að framsóknarmennirnir í mínu héraði, sem margir eru greindir og ágætir menn, hópuðust algerlega í einum hóp um þennan frambjóðanda, og það var mjög á móti því, sem ég gerði ráð fyrir að komið gæti til greina. Því hélt ég fram á hverjum fundi, að ég tryði því ekki, fyrr en talið væri upp, En það er í fyrsta sinn, sem það hefur hent mig í kosningum að verða mér til skammar fyrir oftraust á framsóknarmönnum. — Að ég hafi fellt ágætan þm. í upphafi, er náttúrlega rétt, en sá er munurinn á því eða varðandi Akureyrarkosninguna, að þar voru ekki nein lögbrot í frammi höfð, því að ég hef aldrei verið frambjóðandi fyrir tvo flokka, og því síður að það hafi komið til greina, að ég væri að brjóta kosningalögin, eins og augljóst er varðandi kosninguna á Akureyri.

Það, sem síðasti ræðumaður hélt fram, að það væri fjarstæða, að það hefði verið með lögbrotum felldur ágætur alþm., Jónas Rafnar, þá er um það sú harða deila, sem milli mín og þessara manna stendur, hvort það liggur ekki ljóst fyrir, að 29. gr. kosningalaganna hafi af mörgum frambjóðendum við síðustu kosningar verið þverbrotin, og um leið og hún er brotin, þá er það víst, að Jónas Rafnar er felldur með lögbrotum.

Nú hef ég athugað það síðan í gær, að einmitt þessi grein og þær aðrar greinar, sem ákveða refsinguna fyrir brot á henni, sem ég hef lagt mesta áherzlu á af þeim, sem hér hafa talað, — þessar greinar eru settar inn í kosningalögin 1933, einmitt með tilliti til uppbótarþingsætanna, til þess að það geti ekki komið fyrir, sem nú hefur gerzt, að einn flokkur láni öðrum flokki mikinn fjölda atkv. til þess að svíkja út á það uppbótarþingsæti.

Bannið, sem ákveðið er í 29. gr. kosningalaganna við því að vera í framboði fyrir tvo flokka, var alls ekki í neinum kosningalögum fyrr en uppbótarþingsætin komu til greina, og það er sett inn í kosningalögin beinlínis til þess að koma í veg fyrir það, sem hér hefur gerzt, og refsingin gegn því að brjóta þessa grein er svo alvarlega ákveðin, að í 42. gr. þessara sömu laga er það greinilega tekið fram, að Alþingi geti ógilt kjörbréf þeirra manna, sem hafa brotið 29. gr., og í 147. gr. sömu laga er það tilskilið, að fyrir þetta brot, ásamt mjög mörgum öðrum, sé heimilt að sekta frambjóðendur um 20–200 kr. Allt slúður, sem í frammi hefur verið haft um það, að ég hafi talað um tukthúsvist og annað slíkt, er alveg út í bláinn.

Eins og ég tók hér fram í ræðu minni í gær, þá er Akureyrarkosningin svartasta dæmið úr þessum síðustu kosningum, og það er vegna þess, að þar er stærsti hópurinn, sem flokkur lætur annan minni flokk hafa til þess að fella þm., og ekki nóg með það, heldur til að fá út á þau sömu atkv. uppbótarsæti handa öðrum flokki.

Ég tiltók það, sem náttúrlega er aldrei hægt að sanna, en sterkar líkur eru fyrir, að þarna hafi verið um 1000 atkv. að ræða í þessu eina kjördæmi, sem Framsfl, með opinberum og flokkslegum ráðstöfunum vinnur að að láta frambjóðanda Alþfl, á Akureyri hafa. Þá gerist það tvennt, að fulltrúi Sjálfstfl., þm. Akureyrar, er felldur með þessu lögbroti, og um leið á svo afleiðingin að vera sú, að vegna þessara þúsund atkv. Framsfl. á Akureyri fær Alþfl. a. m. k. eitt uppbótarþingsæti. M. ö. o.: Það eru felldir á þessum 1000 atkv, tveir þm., sem hefðu, ef lögbrot hefði ekki átt sér stað, komið inn í Alþingi, annars vegar fyrrverandi þm. Ak., hins vegar uppbótarþm., sem Alþb. hefði að sjálfsögðu fengið, eftir því sem allar líkur benda til.

Nú skal ég ekki um þetta fara öllu fleiri orðum. Þó skal ég bæta því við, að þm. þeir úr Alþfl., ég held allir, sem voru hér í Nd., sem eru tveir núverandi hæstv. ráðh., hæstv. menntmrh. (GÞG) og hæstv. félmrh. (HV), auk þess starfandi hæstv. utanrrh. (EmJ), fluttu ásamt fleiri mönnum, að ég hygg, á þinginu 1953 frv. um kosningabandalög. Með því frv. og þeim rökstuðningi, sem því fylgdi, viðurkenndu þessir menn og sönnuðu, að bandalög eins og það, sem nú er deilan um, voru ekki að þeim lögum, sem í gildi eru, heimil eða lögleg. Við sjálfstæðismenn héldum því fram og munum, held ég, engir hvika frá því, að þetta frv. væri óheimilt að samþykkja, nema því aðeins að það væri tekið sem breyting á stjórnarskrá Íslands, en sleppum nú því. Hitt er aðalatriðið í þessu sambandi, að þeir þm., sem fluttu þetta frv. og börðust fyrir því, sönnuðu það þá með sínum rökstuðningi fyrir því frv., að á þeirri stundu álitu þeir ekki lögformlegt að stofna til slíks bandalags sem þeir hafa nú staðið að og ég hef leyft mér og fleiri menn að kalla svikabandalag. Að öðru leyti skal ég svo láta máli mínu lokið og láta þetta nægja.