06.12.1956
Efri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

76. mál, eignarskattsviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil fyrst taka fram að gefnu tilefni, að það hefur ekki oft komið fyrir, að ég hafi ekki fylgt úr hlaði þeim frv., sem ég hef flutt. Ég hygg, að ég hafi komið 7 mínútum of seint á þingfund þennan, og skil ekki í, að það þurfi að verða mikið írafár út af því, en mér skilst, að málið hafi verið tekið fyrir einmitt á þeim mínútum. Ég álít, að það sé sjálfsagður siður að fylgja frv. úr hlaði, enda hef ég yfirleitt gert það. Það hefur þurft að vera mikið um að vera einhvers staðar annars staðar, þar sem ég hef þurft að vera, ef ég hef ekki haft þann hátt á.

Varðandi fsp. hv. þm. N-Ísf. vil ég aðeins taka það fram, að ríkisstj. vinnur nú á hverjum degi, allar stundir, sem hún getur til þess notað, að undirbúningi frumvarps eða frumvarpa um efnahags- og framleiðslumálin, og keppir að því fyrst og fremst að koma því þannig fyrir, að hægt verði að afgreiða þá þætti þeirra mála, sem snerta sjálfa framleiðsluna, fyrir áramót. Varðandi fjárlögin er aftur það að segja, að ég hef enga von um, að þau ljúkist fyrir áramót, því að eins og ég tók fram, þegar þau voru lögð fyrir, verða þau að mótast að verulegu leyti af þeim úrræðum, sem gripið verður til í efnahags- og framleiðslumálunum. Þess vegna er ekki hægt að ljúka þeim fyrir áramótin. En stefnan er sú, sem ég sagði áðan, um hin málin.