16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Rannsókn kjörbréfa

Fram. minni hl. 1. kjördeildar (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það eru ekki mörg atriði, sem ég þarf að svara. Sérstaklega eftir hina mjög greinargóðu ræðu hv. 6. þm. Reykv. (GTh) stendur mjög fátt eftir í málflutningi stjórnarsinna í þessu máli, og get ég því mjög stytt mál mitt að þessu sinni.

Hinn ágæti þm., 1. þm. Eyf. (BSt), er haldinn furðanlegum misskilningi varðandi allt, sem við kemur bandalagi Sjálfstfl. og Bændaflokksins 1937, Það er búið að marghrekja allt, sem hv. þm. sagði um þetta, en hann reynir þá að finna nýjar átyllur til þess að hengja hatt sinn á og kom með það nú síðast, að þetta bandalag hefði orðið til þess, að flokkarnir hefðu fengið tveim þm. fleira en þeir ella hefðu fengið. Þetta er gersamlega út í hött mælt, Það, sem hann á við, er það, að vegna bandalagsins urðu tveir þm., sem buðu sig fram í Eyjafirði, uppbótarþm. fyrir sína flokka, sem ef til vill er vafasamt að uppbótarsætin hefðu hlotið ella. En það hafði ekki nein áhrif á uppbótarsætafjölda flokkanna í heild, og ég hef heldur ekki kannað það, nema vel geti verið, að þessir menn hefðu orðið uppbótarmenn engu að síður. Langsamlega mestu máli í þessu sambandi skiptir það, sem oft er búið að benda á hér, að einmitt samstarf flokkanna 1937 varð, þótt einkennilegt væri, til þess, að þeir hlutu einum uppbótarþingmanni færra samanlagt en þeir hefðu hlotið, ef þeir hefðu unnið saman. Þetta mundi hv. þm., svo glöggur sem hann er, skilja, ef hann væri ekki búinn að binda sig svo í þessu máli, að hans heilbrigða dómgreind nýtur sín þar ekki til fulls.

Varðandi ummæli hv. þm. Ak. (FS) hef ég í raun og veru ekki miklu að svara. Hann talaði nokkuð um kappgirni mína og taldi, að hún hefði blindað mig í þessu máli. Það er nú svo, að blindur er hver í sjálfs sín sök, og skal ég ekkert ræða um mína eigin blindu. En þegar hann fann að því, að ég hefði ekki sett ofan í við hv. 2. þm. Eyf. (MJ) fyrir það, að hann sneri upp á þm. sjálfan ummælum, er hann hafði viðhaft, tel ég þó, að hann hafi ætlazt til nokkuð mikils, ef hann krefst þess, að menn megi ekki einu sinni svara honum hér í þingsölunum í sama dúr og hann talar til þingmanna sjálfur.

Kveður við kalli, var alþekktur danskur málsháttur einu sinni þýddur, og reynslan er sú, að eins og menn eru ávarpaðir, svara þeir. Hv. þm. verður að una því, að ef hann flytur fram sterkar ásakanir gegn öðrum, þá sé sýnt fram á, að þær hitti hann sjálfan fyrst og fremst, eins og Magnús Jónsson, hv. 2. þm. Eyf., glögglega sýndi fram á. Annars veit ég það, að hv. þm. Ak. er maður hógvær, og þó að hann hafi sínar ákveðnu skoðanir, hef ég ekkert við það að athuga. Hann hefur rétt til þeirra, alveg eins og við höfum rétt til okkar skoðana. Það, sem ég átaldi, var, að hann skyldi fara að býsnast yfir því hér strax í upphafi umræðna, að við gerðumst svo djarfir að bera fram varnir fyrir okkar málstað, sem við erum áreiðanlega ekki síður sannfærðir um að sé réttur en hann er sannfærður um sinn málstað, enda efast ég ekki um, að hann telji sig hafa rétt mál að mæla, En hann hefur þá heldur enga ástæðu til, hvorki að reyna að meina okkur máls, meðan við höldum okkur innan réttra þingskapa, né efast um, að við mælum af heilum hug.

Hann sagði líka algerlega villandi og rangt frá afstöðu Jóns Ásbjörnssonar og ummælum mínum í því sambandi. Ég hafði dálítið gaman af því, að hann sagði, að ég hefði farið miklum viðurkenningarorðum um Jón Ásbjörnsson, og það er rétt. Það er nokkuð annað, sem stendur í einu stjórnarblaðinu, sem mjög ræður stefnunni um þessar mundir, Tímanum, í morgun, sem fjargviðrast yfir því, að ég hafi ráðizt harðlega á Jón Ásbjörnsson hér í gær. En það er þó gott, að þingmaðurinn er Tímanum fremri, og átti ég fyllilega von á því.

Sannleikurinn er sá, að þó að Jón Ásbjörnsson hafi undirritað kjörbréf hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, þá gerir hann það með skriflegri athugasemd. Hann gerir það því ekki athugasemdalaust. Hvort maður vill kalla þá aths. fyrirvara eða ekki, skiptir ekki máli. Aths. er skráð. Og það er einnig óhagganlegt, að Jón Ásbjörnsson taldi, að listi sá, sem hæstv. menntmrh. var í framboði á hér í Reykjavík, ætti ekki, eins og hann lá fyrir, að teljast framboðslisti Alþfl., heldur utan flokka. Sú skoðun hæstaréttardómarans varð undir í landskjörstjórn. Hún var þar felld. Og úr því að búið var að fella þá till. hans, taldi Jón, að sér væri nauðugur einn kostur að gefa út kjörbréfið. Það er rétt. En hann taldi, að framboð listans væri ólöglegt eins og það var, og þær breytingar voru ekki gerðar á listanum, sem hæstaréttardómarinn taldi að gera þyrfti, til þess að framboðið yrði talið löglegt. Þess vegna er það í alla staði rétt og óhagganlegt, sem ég sagði um það, og ekki á neinn hátt hægt að vefengja, eins og hv, ræðumaður vildi vera láta. En þó að Jón Ásbjörnsson hafi talið sig varðandi útgáfu kjörbréfsins bundinn við það, sem meiri hl. landskjörstjórnar áður var búinn að ákveða, þá er Alþingi að sjálfsögðu ekki á sama veg bundið, heldur hefur það nú, eins og hv. þm, Ak. óvefengjanlega viðurkenndi og ég sagði í gær, að ég vissi að hann vissi að væri rétt, að Alþingi hefur þarna hið endanlega úrskurðarvald og getur því breytt úrskurðinum, ef það telur hann vera rangan.

Varðandi ræðu hv. 4. landsk. (FRV) hef ég ekki miklu að svara. Hv. 6. þm. Reykv. svaraði henni í öllum meginatriðum. Ég kemst þó ekki hjá því að benda á þann einkennilega rökstuðning hjá hv. þm., að ég gat ekki skilið hann betur en hann teldi, að ef Hræðslubandalagið hefði fengið meiri hl. á Alþ., þá væri óvefengjanlegt, að kosningin væri ólögmæt. Nú spyr ég hv. þm. um það: Hefur hann mikla trú á því, að ef Hræðslubandalagið hefði fengið hér hreinan meiri hl., þá hefði það látið það verða sitt fyrsta verk að ógilda kosninguna, allra sízt þegar hann, sem sjálfur var búinn að segja, að þetta væri þingsætaþjófnaður og Alþingi væri hæstirétturinn í þessu máli, ætlar nú að ganga til liðs við Hræðslubandalagið og halda þessum fjórum mönnum hér inni á Alþingi? Það er aldrei gott að ætlast til þess, að aðrir geri meira eða séu betri en maður er sjálfur, Nei, sannleikurinn er sá, að hv. þm. og hans flokksbræður komast ekki hjá því með neinu móti, að þeir meta þetta mál einungis eftir því, hvaða völd þeir sjálfir hafa getað skapað sér í sambandi við það. Þeir segja nú hreinlega: Ja, úr því að meiri hluti þjóðarinnar er á bak við ríkisstj., þá er í raun og veru ekkert við þetta að athuga, þá er þetta allt í lagi. Það er fjarri lagi, að slíkt fái staðizt, enda sýndi t. d. hv, þm. A-Húnv. (JPálm) glögglega fram á það, að þó að ríkisstj. í bili hafi stuðning þessara þriggja flokka, þá hefur nú annað eins skeð, — ég segi ekkert um, að það verði, en annað eins hefur skeð, — að einhver breyting yrði á flokkum og á fylgi flokka á heilu kjörtímabili, og vel væri hugsanlegt, að sá meiri hluti, sem nú er, haldist ekki til lengdar. En hvað sem um það er, og hvað sem um það er, sem hv. 4. landsk. þm. sagði að væri meginatriði þessa máls, að hindra, að slíkt bandalag sem Hræðslubandalagið endurtæki sig, þá segi ég: Það er góðra gjalda vert, ef það verður hindrað, en við eigum eftir að sjá, að þeir hafi með stjórnarsamningnum tryggt, að löggjöf yrði sett, sem þetta hindraði. Ef þeir hafa tryggt það, þá er það mikilsvert atriði í málinu. En hví í ósköpunum að segja þá ekki hreinlega frá því, að nú sé það tryggt, nú hafi Hræðslubandalagsmennirnir til þess að fá kommúnista í stjórn orðið að ganga undir það ok að lofa því að setja lög til að hindra sjálfa sig í þingsætaþjófnaði í framtíðinni? Það er ekkert óskemmtilegt, ef þessir herrar hafa orðið að lofa þessu. En ef kommúnistar hafa unnið slíkan stjórnmálasigur í sambandi við stjórnarmyndunina, hví í ósköpunum segja þeir ekki frá því?

Nei, ég er hræddur um, að loforðin, sem þeir hafi fengið, séu ærið loðin, eins og oft vill verða. En auk þess vil ég taka fram og segja sem eindregna skoðun mína, að hvað sem allri löggjöf líður í framtíðinni, þá hefur það meginþýðingu, hvernig þessu máli nú lýkur, vegna þess að það verða aldrei sett nein þau lög, að ekki komi upp vafi um, hvernig þau eigi að skilja. Það verða aldrei sett svo ákveðin og gagnhugsuð lagaákvæði, að slungnir atkvæðasvindlarar, svo að ég noti orðalag Alþýðubandalagsins, geti ekki fundið þar einhverja smugu til þess að koma illvirkjum sínum fram. Þess vegna ríður á því, að landskjörstjórn og Alþingi í framtíðinni fái það fordæmi hjá okkur, sem nú eigum að greiða atkv., að það sé ljóst, að lögin eigi að skilja eftir því, sem heilbrigð skynsemi segir til um, og það er ekki annað en að svo verði gert, sem við sjálfstæðismenn förum fram á í þessu máli.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja og lýk því máli mínu. En áður en ég hverf úr ræðustólnum, vildi ég þó spyrja hæstv. viðskmrh. (LJós), hvort hann vildi okkur til fróðleiks greina frá ástæðunum til þess, að hann afturkallaði kæruna, sem send var dómsmrn. að hans tilhlutan hinn 10. júlí í sumar. Það er fróðlegt að vita ástæðuna.