24.10.1956
Neðri deild: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

11. mál, skipakaup

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af atvinnutækjanefnd, sem skipuð var af ríkisstj. 15. sept. s. l., til þess að gera till. um öflun nýrra atvinnutækja og dreifingu þeirra um landið. Atvinnutækjanefnd hefur samið grg., sem fylgir frv., og leyfi ég mér að vísa til hennar til skýringar frv.

Ég vil þó jafnframt fara nokkrum orðum um mál þetta og aðdraganda þess, enda mun almennt litið svo á, að hér sé um að ræða eitt af aðalmálum þessa Alþ., sem nú er að hefjast.

Í málefnasamningi stjórnarflokkanna, sem birtur var með yfirlýsingu við stjórnarmyndunina 24. júlí s. l., er kveðið á um það, að ríkisstj. sú, er þá var mynduð, „leiti samninga um smíði á 15 togurum og lánsfé til þess.“ Jafnframt er þar ákveðið, að skipunum skuli „ráðstafað og þau rekin af hinu opinbera og á annan hátt, með sérstöku tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.“ Til þessa þarf að sjálfsögðu lagaheimild frá Alþ. og sú heimild er fyrir hendi, ef frv. þetta verður að lögum. En auk þess þarf að taka ákvörðun um ýmis önnur atriði í sambandi við þetta mál.

Eins og fram kemur í málefnasamningnum og í flutningi þessa frv., er það sameiginleg skoðun stjórnarflokkanna og ríkisstj., að nauðsyn beri til að auka togaraflota landsmanna, en áhugi fyrir aukningu togaraflotans og þá einkum í því skyni að efla atvinnulíf hinna fámennari landshluta hefur komið glöggt fram og verið vaxandi á undanförnum árum. Á síðasta þingi voru flutt eigi færri en þrjú frv. um opinberar aðgerðir af ýmsu tagi til þess að stuðla að öflun nýrra togara og útgerð þeirra. Og á Alþ. 1954 voru flutt a. m. k. fjögur frv. þess efnis, sem miðuðu að hinu sama á einn eða annan hátt. Að þessum frv. hafa staðið þm. úr ýmsum kjördæmum, þó einkum úr kjördæmum á Vestur-, Norður- og Austurlandi, svo og landskjörnir þingmenn. Hér er því eiginlega um að ræða mál, sem áhugi er fyrir í mörgum byggðarlögum og þá alveg sérstaklega í þeim landshlutum, sem ég áðan nefndi.

Í íslenzka togaraflotanum eru nú 43 skip, sem gerð eru út. Af þeim eru 25 við Faxaflóa, 6 á Vestfjörðum, þar af 2 gamlir togarar, 8 á Norðurlandi og 4 á Austfjörðum. Tveir af þessum togurum eru byggðir fyrir stríð, en að öðru leyti eru hinir elztu frá árunum 1947, eða 9 ára gamlir, og hinir yngstu frá 1952, eða 4 ára gamlir. Nú eru tveir togarar í smíðum erlendis, og fer annar til Austfjarða, en hinn til Reykjavíkur.

Lengi vel voru togarar aðeins gerðir út í Reykjavík og Hafnarfirði og einum stað á Vestfjörðum, Patreksfirði. Rétt fyrir styrjöldina síðari voru þó gerðar tilraunir til togaraútgerðar á fleiri stöðum, a. m. k. á Ísafirði og í Neskaupstað, en útgerðin féll niður. Eftir stríðið hófst svo endurnýjun togaraflotans. Voru þá byggð stærri skip en áður, aðallega olíukyntir gufutogarar, fyrst á árunum 1947–1949 og síðan á árunum 1950 og 1952, og er nú verulegur hluti þeirra gerður út í þeim landshlutum, þar sem togaraútgerð áður var lítil eða engin.

Um þessa nýju togaraútgerð á Norður-, Vestur- og Austurlandi segir atvinnutækjanefnd m. a. í grg. þessa frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan, sem fyrir er af rekstri togara vestan-, norðan- og austanlands níu ár, hefur leitt í ljós, að rekstrarmöguleikar í þessum landshlutum séu a. m. k. ekki stórum lakari en á Suðurlandi, a. m. k. ekki þegar búið verður að útgerðinni þar á sama hátt og fyrir sunnan, t. d. að því er varðar viðgerðir, ísframleiðslu o. fl.“

Um hina fyrirhuguðu aukningu togaraflotans segir atvinnutækjanefnd m. a. í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Ýmsar ástæður eru til þess, að nauðsyn þykir til bera, að aflað verði nýrra togara til landsins. Þörf er á að auka útflutningsframleiðslu landsmanna og þar með árlegar tekjur í erlendum gjaldeyri, jafnframt því sem auka þarf atvinnu við framleiðslu á komandi árum. Ekki verður hjá því komizt að endurnýja togaraflotann smám saman, og þegar litið er á aldur þeirra skipa, sem landsmenn eiga nú, er tímabært, að sú endurnýjun sé hafin. Síðast en ekki sízt er á það að líta, að í sumum landshlutum eru takmarkaðir möguleikar til bátaútgerðar, sums staðar vegna minnkandi afla í seinni tíð á miðum, er fyrrum voru fengsæl. Eru til þess ýmsar ástæður, sem ekki verða raktar hér. Hér á hlut að máli fjöldi útgerðarstaða á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hins vegar hefur þar víða verið komið upp dýrum mannvirkjum til hagnýtingar afla nú undanfarið eða þau aukin, sem fyrir voru, en víða skortir þá afla til vinnslu, a. m. k. hluta úr árinu, en rekstraraðstaða mannvirkja með miklum stofnkostnaði reynist erfið, þegar mikið skortir á, að þau séu fullnotuð. Jafnframt verður þá á slíkum stöðum svo nefnt árstíðabundið atvinnuleysi, en þeir, sem tök hafa á, leita atvinnu til fjarlægra landshluta. Er það margra manna álit, að úr þessu verði helzt bætt með því að stofna til togaraútgerðar eða auka hana í þeim landshlutum og á þeim stöðum, sem hér eiga hlut að máli, eftir því sem hafnarskilyrði og aðrir staðhættir leyfa. En þegar á það er litið, að rekstur togaraútgerðarinnar hefur gengið mjög erfiðlega nú síðustu árin, er þess tæpast að vænta, að nein veruleg aukning togaraflotans eigi sér stað í bráð, nema ríkisvaldið eigi þar verulegan hlut að máli og beiti sér fyrir útvegun skipanna.“

Þetta var orðrétt úr grg. atvinnutækjanefndar, og ég les það hér upp vegna þess, að hér eru í stuttu máli sett fram æði skýr rök fyrir flutningi frv. og nauðsyn þess, að það gangi fram.

Samkvæmt 1. gr. frv., ef að lögum verður, er ríkisstj. heimilað að gera samning um kaup og smíði allt að 15 togara og selja þá við kostnaðarverði eða ráðstafa þeim til útgerðar, að fengnum till. atvinnutækjanefndar. Samkv. 2. gr. er heimilt að bjóða út smíði eins til tveggja þessara togara innanlands og láta smíða þá í landinu, ef byggingarkostnaður þeirra telst viðunandi. Telur atvinnutækjanefnd, og ríkisstj. hefur fallizt á það sjónarmið, að rétt sé, að slíks tilboðs sé leitað í tilraunaskyni, með tilliti til þess, að smíði stálskipa sé þegar hafin hér á landi og sé rétt að reyna, hvort íslenzk skipasmíðastöð sé samkeppnisfær á þessu sviði. Samkv. sömu gr. er ríkisstj. heimiluð lántaka erlendis allt að 150 millj. króna. Gert er ráð fyrir, að væntanlegum kaupendum verði endurlánað af þessu láni allt að 85–90 af hundraði af verði skipanna. Yrðu kaupendur þá að leggja fram eða útvega á annan hátt a. m. k. 10–15% af kaupverðinu.

Atvinnutækjanefnd hefur enn ekki gert till. um ráðstöfun eða staðsetningu togaranna, en gerir það væntanlega á sínum tíma. Sömuleiðis þarf auðvitað að ákveða stærð togaranna og gerð, en þetta hvort tveggja kann að vera að einhverju leyti komið undir því hlutverki, sem hverju skipi er ætlað, t. d. hvort því er ætlað að stunda veiðar á fjarlægum miðum eða fyrst og fremst að veiða á nálægum miðum til vinnslu í frystihúsum, hvernig hafnarskilyrði eru þar, sem aðallega á að leggja aflann á land, o. fl.

Í 3. gr. frv. segir, að till. atvinnutækjanefndar skuli gerðar með sérstöku tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Er þetta í samræmi við ákvæði stjórnarsamningsins. Er í þessari gr. jafnframt gert ráð fyrir, að nokkru hærri lán verði veitt til þeirra skipa, sem ráðstafað verður á Norður-, Vestur- og Austurland.

Ég vil þá næst leyfa mér að fara nokkrum orðum um 4. og 5. gr. frv.

Í stjórnarsamningnum er gert ráð fyrir, að skipin verði rekin „af hinu opinbera og á annan hátt,“ eins og það er orðað. Í frv. er lagt til, að veitt verði lagaheimild til að setja á stofn sérstaka ríkisútgerð togara í því skyni, að þeir leggi afla sinn á land á Vestur-, Norður- og Austurlandi, sérstaklega á stöðum, þar sem ekki eru fyrir hendi fjárhagslegir möguleikar til þess að kaupa eða reka togara, enda sé talið, að skortur á atvinnu á þessum stöðum hamli eðlilegum vexti þeirra. Mun atvinnutækjanefnd á sínum tíma gera nánari till. til ríkisstj. um ríkisútgerðina og fyrirkomulag hennar, og er gert ráð fyrir sérstökum lögum um það efni.

Tillögur um ríkisútgerð togara hafa oftar en einu sinni verið uppi á Alþ., einkum síðustu ár, og þá einkum af þeim ástæðum, sem fram koma í frv. Tilgangurinn með þessum ákvæðum í frv. er ekki sá, að ríkisvaldið fari að seilast eftir því að gera út togara þar, sem aðrir aðilar hafa möguleika til að taka þessa starfsemi að sér. Ríkisstj. er heimilað að koma upp slíkri útgerð þar sem hennar er brýn þörf og á rétt á sér, en mundi ekki komast í framkvæmd á annan hátt. Hér er fyrst og fremst um jafnvægismál að ræða, tilraun til að sporna á móti fólksflutningum, sem varhugaverðir eru fyrir þjóðfélagið, og það er ekki ætlunin, að ríkið láti til sín taka á þessu sviði, rekstur togaraútgerðar, nema ríka nauðsyn beri til að athuguðu máli.

Þá er það 5. gr. frv. Efni hennar er það, að auk hinna 15 togara, sem áður hefur verið rætt um, sé ríkisstj. heimilt að semja um kaup og smíði á allt að 6 150–250 tonna fiskiskipum og taka allt að 15 millj. kr. lán í því skyni. Gert er ráð fyrir, að um ráðstöfun þessara skipa gildi sömu ákvæði og um togarana, þó þannig, að endurlána megi allt að 80% af verði þeirra, ef um sölu er að ræða. Ríkisútgerð á þessum skipum eða einhverjum þeirra kemur þá einnig til greina.

Um þessi skipakaup eða útgerð var ekkert tekið fram í stjórnarsamningnum á sínum tíma, en atvinnutækjanefnd hefur gert till. um, að leitað verði heimildar til kaupa á nokkrum slíkum skipum, og ríkisstj. fallizt á það, að athuguðu máli.

Það, sem fyrst og fremst mun hafa vakað fyrir atvinnutækjanefnd með þessari till., er, eins og segir í grg., að vegna ófullnægjandi hafnarskilyrða á nokkrum stöðum, þar sem annars væri eðlilegt að gera ráð fyrir löndun úr togurum, sé hæpið, að löndun úr togurum sé framkvæmanleg, eins og sakir standa. Þurfi því að koma til önnur tegund skipa, en þó nægilega stór til þess, að þau geti stundað veiðar á svipuðum slóðum og togarar hér við land. Ekki er þó gert ráð fyrir, að staðsetning eða útgerð þessara skipa verði eingöngu bundin við slíka staði, heldur geti og verið hagkvæmt að staðsetja sum þeirra annars staðar, þar sem sýnt þykir, að gera megi þau út með góðum árangri.

Ég hef þá lýst efni frv. í aðalatriðum og gert grein fyrir ástæðum í stuttu máli. Ef þetta frv. verður að lögum og heimild til lántöku og skipakaupa notuð að fullu, er um verulega aukningu á fiskiskipaflota þjóðarinnar að ræða. Þess má geta í því sambandi til glöggvunar, að miðað við meðalafla íslenzkra togara árið 1955, ættu þau skip, sem með þessu bætast við flotann, að geta dregið á land ca. 75 þús. tonn af slægðum fiski með haus, en útflutningsverðmæti þess afla mætti áætla 150 millj. kr., þegar gerð hefur verið úr honum söluhæf útflutningsvara. Þetta væri að vísu ekki nettóaukning á gjaldeyristekjunum, því að verulegur hluti fer í vexti og afborganir af lánum og innflutning á rekstrarvörum. En veruleg viðbót er þetta þó, sem margar hendur mundu að vinna og margir hafa lífsviðurværi af víða um land.

Því miður verður ekki um það sagt á þessu stigi málsins, hvaða líkur séu til, að takast megi að afla þess erlenda lánsfjár, sem hér þarf til að koma. Þetta mál er því allt enn á byrjunarstigi, og um möguleika til þessarar aukningar á framleiðslu þjóðarinnar, sem hér um ræðir, sem og margt annað í þessu landi, fer að sjálfsögðu mjög eftir því, hvernig til tekst um almennar ráðstafanir gegn verðbólgunni í landinu, hinar almennu ráðstafanir til þess að tryggja atvinnulífið almennt og rekstur þess.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.