13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

11. mál, skipakaup

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. í samræmi við stefnuskráryfirlýsingu, er hún gaf, er hún tók við völdum 24. júlí s. l. Efni málsins er í fáum orðum það að heimila ríkisstj. að semja um kaup og smíði á allt að 15 togurum og selja þá síðan við kostnaðarverði eða ráðstafa þeim til útgerðar, að fengnum tillögum atvinnutækjanefndar. Í öðru lagi er lagt til í frv., að ríkisstj. verði heimilað að taka lán að upphæð allt að 150 millj. kr. í erlendum gjaldeyri til þess að greiða með togarana og endurlána síðan kaupendum þeirra, með sömu kjörum og lánið var tekið, fyrir allt að 85 af hundraði af kostnaðarverði skipanna. Þó eru undantekningar frá því síðar, þar sem gert er ráð fyrir, að undir sérstökum kringumstæðum megi lánshlutinn fara upp í 90 af hundraði af kostnaðarverði. — Þá er enn í frv. gert ráð fyrir því, að ríkisstj. verði heimilað að selja á stofn fyrirtæki, sem annist rekstur nokkurra togara af þeim, sem þannig verða keyptir, til þess að leggja afla á land á þeim stöðum, þar sem þess er sérstaklega þörf, bæði vegna atvinnuleysis á staðnum og eins vegna hins, að þar sem möguleikar til úrvinnslu aflans, og þar sem ekki eru á staðnum til möguleikar fyrir því að ráðast í skipakaup af staðarins hálfu. — Loks er svo í frv. gert ráð fyrir því, að auk þessara 15 togara megi ríkisstj. kaupa sex önnur skip, allt að 250 tonn á stærð, og verja til þess allt að 15 millj. kr. og taka þá upphæð að láni.

Þetta er í stuttu máli efni frv. Tilefni þess, að þetta frv. er fram borið, er í fyrsta lagi það að bæta úr því atvinnuleysi, sem víða er í ýmsum sjávarþorpum úti á landi, þar sem möguleikar eru til, að togarar geti lagt upp afla sinn.

Togaraflotinn er einn mikilvirkasti þátturinn í framleiðslustarfsemi landsmanna, eins og kunnugt er, og skilar nú á land um það bil helmingi af öllum þeim sjávarafla, sem á land kemur, þegar síldin er frá dregin. Það er þess vegna mjög þýðingarmikið atriði einnig, að þessi floti sé endurnýjaður og gangi ekki úr sér og sé stöðugt fær um að inna það hlutverk af höndum, sem honum er ætlað. En svo hefur verið varið hag togaraútgerðarmanna nú á síðustu missirum, að þeir hafa ekki séð sér fært að fara sjálfir út í þessa endurnýjun. Það er öllum ljóst, sem það mál hafa kynnt sér, að togaraútgerðin hefur gengið þannig að undanförnu, að hún hefur ekki aðeins ekki skilað arði, heldur hefur hún líka sýnt stórfellt tap síðustu árin eða síðustu missirin kannske hvað mest, jafnvel eftir að hún hefur notið mikils styrks úr ríkissjóði. Það er ýmislegt, sem hefur valdið því, og verður náttúrlega, jafnframt því að togaraflotinn er aukinn og ráðstafanir gerðar til þess að endurnýja hann um leið, að gera ráðstafanir til þess, að rekstur þessara atvinnutækja komist á svo heilbrigðan grundvöll, að menn sækist eftir að reka þau, því að annars getur svo farið, ef svo heldur áfram eins og verið hefur að undanförnu, að þessi starfsemi geti ekki, a. m. k. með þeirri fyrirgreiðslu sem hún hefur nú, haldið áfram.

Það er ekkert leyndarmál, að það hefur komið í ljós við athugun nú upp á síðkastið, að með sama verðlagi og svipuðum afla og verið hefur að undanförnu vantar upp undir eina millj. kr. á ári á hvern togara til þess, að starfsemin geti borið sig. Og það er vitanlega hlutur, sem verður að ráða einhverja bót á, um leið og gerðar eru ráðstafanir til þess að auka þessa framleiðslu.

Víða úti um land eru til fiskvinnslustöðvar, sem ekki eru fullnýttar og mundu fá mjög kærkomið verkefni og styrkja sinn rekstur, ef hægt væri að landa þar meira fiski en nú er gert, og ætti það að vera hægt með tilkomu þessara nýju skipa. Þó er þar við að athuga, að á ýmsum stöðum eru hafnarskilyrði þannig, að erfitt er um að koma togurum að landi og landa afla þeirra, víða, þar sem annars bæði væri þörf vegna atvinnu að landa aflanum og eins munu á ýmsum þeim stöðum vera til vinnslutæki, sem hægt væri að nota, ef skipin gætu komizt þar að landi. Það verður þess vegna, samtímis því, að gerðar eru ráðstafanir til þess, að togararnir landi afla sínum í þessum sjávarþorpum, að gera aðrar ráðstafanir til þess að bæta hafnarskilyrðin, svo að togararnir geti komizt þar að landi. En kjarni málsins er sá, að atvinnu er þörf á ýmsum stöðum úti um landsbyggðina, að til eru vinnslutæki á ýmsum þessum stöðum, sem þurfa aukið hráefni, að togaraflotann þarf og verður að endurnýja, hvernig svo sem allt veltur, og sjá honum fyrir heilbrigðum rekstrargrundvelli, og allt eru þetta atriði, sem styðja að því, að sú leið verði farin, sem hér er bent á af hálfu hæstv. ríkisstj., og ekki líkur til, a. m. k. að öllu óbreyttu, að það mál verði leyst á annan hátt.

Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft málið til meðferðar og hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, Þó hefur einn nm. áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Og enn má geta þess, að einn nm. var ekki viðstaddur, þegar frv. var afgreitt,

Ég sé, að hv. þm. Borgf. (PO) hefur borið hér fram brtt., sem ég fyrir mitt leyti hef nú ekki haft tækifæri til að athuga, en geri ráð fyrir því, að n. mundi, ef hv. flm. till. teldi það ekki óeðlilegt, taka hana til athugunar á milli umræðna, ef till. yrði þá frestað til 3. umr. En n, leggur sem sagt til, að frv. verði samþykkt.