13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

11. mál, skipakaup

Magnús Jónason:

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við 1. umr. þess og lýsti þar ánægju minni yfir því, að hafizt væri handa um þá eflingu togaraflotans, sem hér er gert ráð fyrir, og minntist þá jafnframt á till., sem fram hafa komið um það efni á undanförnum þingum.

Þetta frv. er nú komið frá þeirri n., sem um það hefur fjallað, og er lagt til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, a. m. k. á þessu stigi málsins.

Ástæðan til þess, að ég vildi segja hér nokkur orð, voru nánast ummæli, sem komu fram frá hv. 2. þm. Reykv. (BÓ), þar sem hann dró mjög í efa, að útgerð togara væri líklegasta ráðið til þess að skapa það jafnvægi í byggð landsins, sem að væri stefnt með þessum ráðstöfunum. Ég held, að þessi ummæli byggist á nokkrum misskilningi. Það er að vísu rétt, að ýmis byggðarlög hafi ekki aðstöðu til að hagnýta sér útgerð togara, vegna þess að þar vantar öll skilyrði til þess, og verður vitanlega að byggja þar upp atvinnulíf á annan hátt. En það er engum efa bundið, að útgerð togara hefur þegar orðið mjög mikil lyftistöng og raunverulega bjargað ýmsum kaupstöðum landsins, sem hafa átt við örðugleika að stríða vegna aflabrests á undanförnum árum, bæði á síldveiðum og lítils afla bátaflotans. Er hv. þingmönnum vafalaust mjög vel kunnugt um ýmsa þessa kaupstaði, sem beinlínis hafa rétt við atvinnulega vegna togaraútgerðar. Og ég held, að reynslan hafi ótvírætt sannað það, að í jafnvel fleiri stöðum en nú þegar njóta togaraútgerðar eða hafa notið hennar enn að mjög ófullkomnu leyti, þá sé það ótvírætt líklegasta ráðið til þess að geta skapað varanlega atvinnu á þessum stöðum. Þar, sem fiskiðjuver eru til í landi og hafnarskilyrði, en bátar geta ekki lagt upp nema mjög takmarkaðan afla, vegna þess að á heimamiðum er ekki um neinn afla að ræða, þá er auðvitað eina ráðið til þess að hagnýta þessi skilyrði að fá togaraafla til nýtingar. Togaraaflinn er oftast nær fyrir hendi meginhluta ársins, og með því móti að hafa hann til umráða er hægt að sigla fram hjá þeim mikla vanda, sem hið árstíðabundna atvinnuleysi hefur í för með sér.

Það er vitanlega svo, að með verulegri aukningu togaraflotans eykst þörfin á því, að það sé á vissum tímum árs hægt að selja afla togaranna beint til útlanda, þegar mest er eftirspurnin eftir vinnuafli í landi, bæði vegna vetrarvertíðar og sumarsíldveiða eigi síður, og þegar mestur annatími yfirleitt er hér heima fyrir. En á öðrum tímum árs, þegar að þrengir með atvinnu, er ómetanlegt að hafa skilyrði til þess að geta nýtt togaraaflann, og þetta hvort tveggja ætti að vera auðvelt að sameina, ef hægt er að skapa markað bæði fyrir ísfisk og hraðfrystan fisk og annan þann fisk, sem lagður er í land af togurum til vinnslu í landi.

Ég held þess vegna, að það sé alveg ótvírætt mál, að útgerð togara er fyrir alla þá staði, sem hafa fiskiðjuver til nýtingar aflans og hafnarskilyrði til að taka á móti aflanum, eitthvert allra heppilegasta og kannske sums staðar eina ráðið til þess að tryggja varanlega atvinnu.

Af þeim sökum held ég, að það sé tvímælalaust spor í rétta átt að efla nokkuð togaraflotann. Það getur svo alltaf verið matsatriði, hvað á að stíga stór spor í því efni. Ég lýsti þeirri skoðun minni hér við 1. umr. málsins, að sennilega væri það skynsamlegasta leiðin í framtíðinni, hvað sem líður því, að nú yrði gert átak í því efni, að reynt yrði að stefna að því að endurnýja togaraflotann með því að kaupa nokkur skip árlega. Með því móti væri jafnan hægt að hagnýta þær nýjungar, sem fram kæmu, jafnóðum og reynsla yrði af því annars staðar, að þær væru til bóta fyrir togaraútveginn, því að gallinn á því að kaupa mjög mörg skip með margra ára millibili er auðvitað sá, að með því móti er meiri hætta á því, að ekki sé hægt að fylgja alveg þeim nýjungum, sem fram koma í togarasmíðum, og jafnframt meiri hætta á því, ef samið er um smíði margra togara á sama stað og ef þar reynist einhver galli á, að það hafi verri afleiðingar. En allt slíkt er vitanlega til athugunar í framtíðinni, varðandi endurnýjun togaraflotans.

Ég skal mjög fúslega taka undir þau ummæli, sem hér hafa komið fram, að ríkisútgerð togara sé varhugaverð. Hitt er svo aftur allt annað mál, hvort verður nokkur möguleiki með öðru móti til þess að hagnýta togara til atvinnuaukningar fyrir ýmsa smærri staði, sem ekki hafa nokkur ráð með að eiga slík tæki, Þetta þarf auðvitað mikillar athugunar við, og ég tel það nú sannast sagt mjög miður farið, ef á að afgreiða þetta mál endanlega hér út úr d., án þess að fram sé lagt frv. það, sem hér er boðað um ríkisútgerð togara, þannig að hægt sé fyrir þm. að átta sig á því, hvaða hugmyndir eru hér að baki hjá hæstv. ríkisstj., því að afstaða manna til þessa máls veltur auðvitað nokkuð á því, hvernig framkvæmd þess er fyrirhuguð og hversu víðtæk þessi útgerð verður. En það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á, og því skulu menn ekki loka augum fyrir, að þau bæjarfélög, sem hafa verið að stritast við að leggja fram fé til togarakaupa af litlum efnum, munu vitanlega mörg hver bera fram kröfu um, að ríkið yfirtaki þá útgerð, og ég er ákaflega hræddur um, að það geti orðið erfitt að fá þau ýmis til þess að kaupa skip og leggja fram fé í því sambandi, ef annars vegar er boðið upp á ríkisútgerð togara, nema því aðeins, sem auðvitað er nú önnur hlið málsins, sem mikið veltur á um alla framtíð þessarar útgerðar, að hægt verði að koma þessari útgerð á þann grundvöll, að ekki sé jafngeysilegt tap á henni og nú er og því ekki eins stórkostleg áhætta fyrir fjárhagslega veikburða bæjarfélög að hefja slíkan atvinnurekstur og nú er. En þetta atriði er að mínum dómi mjög athugunarvert og nauðsynlegt að íhuga það vandlega, áður en frá því er gengið. Enda þótt ég á engan hátt vilji fordæma þá hugmynd, sem þarna liggur að baki, þegar um það er að ræða, að einstaklingar eða bæjar- eða sveitarfélög eru þess alls ómegnug að standa undir slíkum atvinnurekstri, að hið opinbera grípi þá inn í, þá eru í sambandi við þetta svo mörg atriði, sem íhuga þarf, að það er nauðsynlegt, að menn geri sér nákvæma grein fyrir því, hvernig skipulagi þessara mála verði bezt fyrir komið, áður en endanleg ákvörðun verður um það tekin. Það kann vel að vera, að það sé ætlun hæstv, ríkisstj, að leggja þetta frv. um ríkisútgerð togara hér fram á næstu dögum eða áður en þetta mál verður endanlega afgreitt út úr d. Að minnsta kosti væri það mjög æskilegt, til þess að hægt væri að gera sér nánari grein fyrir því, hvaða hugmyndir hér liggja að baki og hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér, að þessum málum yrði nánar fyrir komið.

Að öðru leyti tel ég, að efling togaraflotans sé mál, sem hljóti að njóta almenns stuðnings, en legg nú jafnframt áherzlu á það, eins og ég gerði við 1. umr. málsins, að það hafa vitanlega mjög litla þýðingu slík frv. sem þetta og samþykkt þeirra, nema því aðeins, að mjög miklar líkur séu til, að hægt verði að koma þessu máli í framkvæmd, Væri vitanlega mjög æskilegt að heyra um það nánar, hvort hæstv. ríkisstj. nú á þessu stigi hefur einhverja nánari vitneskju en hún hafði við 1. umr. málsins um það, annars vegar, hvaða líkur eru til þess, að hægt sé að fá þessi skip smíðuð og þá hvenær, og hins vegar og þá ekki síður, hvaða horfur eru á því, að hægt verði að afla þess mikla lánsfjár, sem nauðsynlegt er að fá, til þess að unnt sé að kaupa skipin.