13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

11. mál, skipakaup

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir afgreiðslu hv. fjhn. á þessu frv., þar sem hún leggur til, að það verði samþ. án breyt. En ég vildi jafnframt leyfa mér að fara nokkrum orðum um nokkur atriði, sem fram hafa komið hér í umr., og þá m. a. vegna þess, að ég átti á sínum tíma sem nm. nokkurn þátt í að undirbúa þetta frv., áður en það var lagt fyrir Alþ.

Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) gerði það að umtalsefni, að í 4. gr. frv. er heimild til handa ríkisstj. til þess að setja á stofn sérstaka ríkisútgerð togara í því skyni, að þeir leggi afla sinn á land á Vestur-, Norður- og Austurlandi, sérstaklega á stöðum, þar sem ekki eru fyrir hendi fjárhagslegir möguleikar til þess að kaupa og reka togara, enda sé talið, að skortur á atvinnu á þeim stöðum hamli eðlilegum vexti þeirra. Hv. 2. þm. Reykv. virtist telja, að þetta heimildarákvæði, en hér er nú aðeins um heimildarákvæði að ræða, væri ekki með öllu hættulaust, því að með því væri stefnt að allsherjarþjóðnýtingu togaraútgerðarinnar hér á landi. Mér virtist þetta koma fram hjá honum, þó að hann e. t. v. hafi ekki sagt það beinlínis, að hann teldi, að það væri tilgangurinn með þessu heimildarákvæði, Ég hygg hins vegar, að staðhæfa megi, að það út af fyrir sig hafi ekki verið tilgangurinn með því að setja inn í frv. heimild til ríkisútgerðar að koma hér á allsherjarþjóðnýtingu togaraútgerðarinnar, heldur er þetta ákvæði byggt á því, sem reynslan hefur kennt, að hér við sjávarsiðuna eru ýmsir staðir, sem hafa mikla þörf fyrir einhverja þjónustu slíkra skipa sem hér er um að ræða, en ekki verður séð, að hafi neina fjárhagslega möguleika til þess að eignast slík skip eða reka þau. Hafa menn þá ekki komið anga á annað úrræði framkvæmanlegt í þessu sambandi en að samfélagið eða ríkið hlypi hér undir bagga og útvegaði eitthvað af þessum atvinnutækjum og léti reka með sérstöku tilliti til þessara staða.

Ég hygg, að það hafi ekki verið tilgangurinn með þessu heimildarákvæði að leggja nokkurn stein í götu þeirra einstaklinga, félaga eða bæjarfélaga, sem hafa hug á að eignast og reka slík tæki sjálfir, enda er í frv. gert ráð fyrir mjög verulegum fyrirgreiðslum til slíkra aðila. En heimildin um ríkisútgerð er fyrst og fremst við þetta miðuð, að þeir staðir verði ekki með öllu útundan í sambandi við opinberar ráðstafanir í þessu sambandi, sem af fjárhagsástæðum hafa ekki möguleika vegna fámennis síns til þess að verða sjálfir eigendur skipanna og reka þau.

Ég hef talið það víst þrátt fyrir heimildarákvæði þessara laga, að ef það tekst, sem í raun og veru er nú óhjákvæmilegt, að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem yrðu til þess, að togaraútgerð geti í framtíðinni orðið rekstrarhæf hér á landi, — og sama þurfa auðvitað aðrar atvinnugreinar að verða, — þá muni þrátt fyrir slík heimildarákvæði í lögum áfram verða fyrir hendi, bæði hjá einstaklingum og bæjarfélögum, fullur vilji til þess að eiga og reka slík tæki, því að auðvitað er það nokkuð annað að hafa full umráð tækjanna eða eiga við fyrirtæki, sem er rekið af öðrum aðilum, þó að það sé ríkið sjálft.

Hins vegar er svo það, sem hv. frsm. fjhn. drap á hér í upphafi umræðunnar, að það má vel vera, að þeir staðir séu sums staðar, og er raunar vitað, að til eru staðir, sem að óbreyttum ástæðum ekki geta haft not af togaraútgerð og þá ekki heldur ríkisútgerð vegna þess, að þeir hafa ekki þau hafnarskilyrði, að hægt sé að landa, eins og sakir standa, afla úr togurunum. Þá verður að bæta úr þeirra þörf með öðrum ráðum, og til þess eru ákvæði 5. gr. fyrst og fremst hugsuð, eins og hann líka gat um.

Hv. þm. Borgf. (PO) hefur lagt fram brtt. við 3. og 4. gr. frv. og mælt með þeim, en jafnframt getið þess, að hann muni samkv. tilmælum frsm. taka till. aftur til 2. umr. Efnislega skal ég ekki koma mikið inn á þessar till., enda verða þær að sjálfsögðu frekar ræddar við 3. umr.

Ég skal ekki heldur ræða neitt þá lýsingu, sem hann gaf af atvinnurekstri á Akranesi, sem hefur verið með miklum myndarskap að jafnaði, en aðeins vil ég fara nokkrum orðum um þá hugsun, sem felst í þeim ákvæðum 3. og 5. gr., sem hv. þm. gerði að umtalsefni.

Undanfarin ár hefur verið mikið rætt um það bæði innan Alþingis og utan, að það þurfi, eins og það er kallað, að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, það þurfi að hlaupa eitthvað sérstaklega undir bagga með fólkinu í þeim landshlutum, sem við sérstaka erfiðleika eiga að búa af ýmsum ástæðum og helzt ekki á fólki sínu, og menn hafa verið með ýmsar till. í því sambandi. Nú spurði einhver hér áðan í umr., — ég held, að það hafi verið hv. 2. þm. Reykv., — hvort það mundi vera til þess fallið að hjálpa þessum fámennu byggðarlögum til þess að halda íbúatölu sinni að koma upp togaraútgerð í þeim byggðarlögum. Það má sjálfsagt margt um það segja, en ég held nú, að fyrsta skilyrðið til þess að fólk haldist í þessum landshlutum, að íbúum fækki þar ekki, heldur fremur fjölgi, sé það, að menn hafi þar verkefni, og þá verður mönnum við sjávarsíðuna, bæði á Norður-, Vestur- og Austurlandi, auðvitað fyrst og fremst litið til sjávarins og þeirra möguleika, sem þar er að hafa, og að þarna þurfi að koma á land meiri afli til þess að veita fólkinu aukið verkefni.

Sums staðar hefur nokkuð verið gert að því undanfarið að fá til þessara staða vélbáta af venjulegri stærð, venjulegri vertíðarstærð, sem kallað er, en reyndin hefur orðið sú, a. m. k. fyrir norðan og austan og að nokkru leyti líka fyrir vestan, að þessir bátar hafa að jafnaði ekki verið gerðir út frá sínum heimabyggðum nema nokkurn hluta ársins, á síldveiðarnar að sumrinu, þegar síldin hefur verið, og að einhverju leyti vor og haust, en að öðru leyti hafa bátarnir farið suður á vetrarvertíð og verið þar yfir vertíðina, að vísu oft með skipsh6fn úr sínu eigin byggðarlagi. En þegar þannig fer um reksturinn, verður að slíku atvinnutæki miklu minna gagn fyrir byggðarlagið en ætla mætti. Það má segja, að ekki sé mjög mikill munur á því, hvort eitthvert þorp fyrir norðan eða austan á 50–60 tonna bát og sendir hann suður á vertíð með mönnum að heiman eða þá að mennirnir eru sendir suður til þess að róa á bát hér syðra, þannig að gagnið af því að eiga sjálft atvinnutækið verður minna en vænta mætti. Þess vegna hefur mönnum nú virzt, að það mundi vera í ýmsum tilfellum heppilegra úrræði, a. m. k. á veturna, að þarna kæmu til togarar, sem legðu upp afla í þessum landshlutum.

En út af þessu almenna viðfangsefni að efla jafnvægi í byggð landsins, þá er það að segja í sambandi við þetta frv., að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkið endurláni almennt allt að 85 af hundraði af andvirði hvers skips, Það er sú almenna regla, sem sett hefur verið í frv., og ég veit ekki, ef ekkert hefði staðið í frv. nema þetta, að ríkið endurlánaði allt að 85% út á hvert skip, hvort hv. þm. hefðu þá gert aths. við það, En nú eru í 3. gr. undantekningarákvæði frá þessu, þar sem er heimild til þess að hækka þetta lán úr 85% upp í 90% í þeim landshlutum, þar sem sérstök þörf er talin á að stuðla að varðveizlu byggðarinnar. Til þess er þetta ákvæði sett inn, og sama er að segja um útgerðarákvæðið í 5. gr.

Nú er það auðvitað svo, að ef aldrei er hægt að leggja til, að einhver sérstakur stuðningur sé veittur þessum landshlutum, án þess að þá komi einhverjir um leið og leggi til, að sami stuðningur sé veittur hinum landshlutunum, þá verður náttúrlega litið úr hinum svokölluðu jafnvægisráðstöfunum. — Þetta vildi ég aðeins segja til skýringar þessari hugsun, sem í ákvæðum þessara gr. frv. felst.

Hv. 2. þm, Eyf. (MJ) gat þess, að ekki lægi fyrir frv. um ríkisútgerð togara, sem vitnað er til í 4. gr. Þetta frv. hefur ekki verið lagt fyrir þingið enn þá, og ég hygg, að það stafi af því, að ekki hafi verið að fullu lokið þeim undirbúningi, sem þyrfti að liggja á bak við slíkt frv. En ég sé nú ekki, að það þurfi að tefja afgreiðslu málsins hér í hv. d., vegna þess að í slíku frv. um ríkisútgerð togara yrði trúlega ekki annað en ýmisleg framkvæmdaratriði, í því tilfelli, að heimildin yrði notuð, og getur e. t. v. verið nokkurt álitamál, hvort þörf er á þeim lögum eða hvort slíkt gæti orðið ákveðið í sérstökum reglum, sem ríkisstj. setti. En væntanlega verður þess ekki mjög langt að bíða, að slíkt frv. geti legið fyrir, ef það á annað borð verður samið. Hins vegar, ef það yrði ekki lagt fyrir þingið, þá má vera, að rétt þætti að fella niður þessa tilvísun, sem í gr. stendur.