13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

11. mál, skipakaup

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér raunar hljóðs aðeins til þess að þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls, að hún hefur afgr. það einróma, jákvætt, og afgr. það jafnfljótt og hún hefur gert.

Það hafa ekki komið fram hér í þessum umr. aðfinnslur, sem verulegar geta talizt, og þeim hefur raunverulega þegar verið svarað. Þær hafa komið fram aðallega af hálfu hv. 2. þm. Reykvíkinga (BÓ).

Ég þarf fáu við það að bæta, sem hv. þm. N-Þ. (GíslG) sagði um þau atriði, sem hv. 2. þm, Reykv. bar hér fram, en ég vil þó segja um þessi atriði örfá orð.

Það, sem hv. þm. setti mjög fyrir sig, var þjóðnýting á togaraútgerðinni samkv. ákvæðum 4. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir. Ég get nú fyrst og fremst staðfest það, eins og ég tók fram við framsögu málsins, að ekki kemur til mála, að gripið verði til þessa rekstrar nema undir þeim kringumstæðum, þegar nauðsyn krefur, og skipin mundu ekki vera gerð út með öðru móti en að ríkið tæki að sér rekstur þeirra.

Ég get að vísu játað, að það er rétt hjá hv. þm., að það er hugsanlegt, að það verði ásókn á það af þeim kauptúnum og kaupstöðum, sem nú gera út togara, að láta ríkið taka við rekstrinum, en það verður nú ekki fyrir öllu séð, og ég get nú ekki tekið undir þau ummæli hv. þm., að hér sé um einhverja stórbyltingu að ræða í okkar útgerðarmálum, því að fyrst og fremst er nú þessu þannig háttað, að ríkið hefur borgað vexti og afborganir af miklum meiri hluta þeirra togara, sem gerðir eru út af öðrum en ríkinu. Það mun vera svo, að þetta er orðinn mikill meiri hluti, ég hygg, að það séu orðnir allir togararnir, sem voru keyptir í seinna skiptið, og talsvert mikið af hinum og alltaf hefur þetta verið gert, undir öllum kringumstæðum, þegar eignaskipti hafa orðið á togurunum og þeir fluttir til. Það er því orðið þannig núna, að sú einstaklingsútgerð, sem við búum við, eða bæjarútgerð, er með þeim hætti, að ríkið stendur í ábyrgð fyrir henni, eins og við vitum, að mestum hluta og tekur á sig skakkaföllin, þegar þau eru til staðar, þannig að stökkið er nú ekki stórfellt. Og þegar rætt er um ríkisútgerð á nokkrum stöðum úti á landi, þar sem einstaklingarnir eða lítil hreppsfélög hafa ekki möguleika til að gera út sjálf, verð ég nú að segja það, að munur sé ekki þar stórkostlega mikill og á bæjarútgerðunum, sem nú eiga sér stað. það er vitanlega opinber rekstur, alveg eins og verður ríkisrekstur á þessum takmörkuðu svæðum, þar sem þorpin geta ekki hjálpað sér sjálf, og munurinn á þessum tveimur tegundum opinbers rekstrar, bæjarrekstri og ríkisrekstri, hefur nú a. m. k. aldrei til þessa verið talinn eins stórfelldur og hv. þm. vildi vera láta. Og ég held, að flestir verði nú á einu máli um það, að munurinn sé sáralítill, svo að stökkið, sem tekið er í útgerðarmálum eða atvinnumálum á Íslandi samkv. ákvæðum 4. gr., ef að lögum verður, er sannarlega ekki mikið, a. m. k. fjarri því að vera eins stórt og hann vildi vera láta.

En hann dró jafnframt í efa, að togaraútgerð væri heilbrigðasta og bezta leiðin til þess að halda jafnvægi í byggð landsins, og setti fram þá skoðun sína, að svo mundi ekki vera. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta atriði heldur, en fyrir okkur, sem höfum verið og erum þingmenn fyrir byggðarlög úti á landi, er þetta ekki nein ráðgáta, a, m. k. er það ekki fyrir mig. Við höfum séð það, ekki aðeins í þeim sýslum, sem við teljum okkur vera og erum fulltrúar fyrir, heldur höfum við séð það í fjöldamörgum öðrum byggðarlögum, þar sem við höfum komið á ferðalögum okkar, að það hefur verið gerð, eftir að landhelgislínunni var breytt, ýtarleg tilraun til þess að afla hráefnis í þau frystihús og verkunarstöðvar, sem eru á þessum stöðum, með bátaútvegi. Þessi tilraun hefur verið gerð ár eftir ár í mörg ár, og það lítur út fyrir, þó að maður viti það ekki með vissu, — það er ekki hægt að segja, að það sé vísindalega sannað, — að breytingar á landhelgislínunni hafi valdið því, að eftir að friðað er hér fyrir Suðvesturlandi meira en annars staðar, sæki togararnir núna, útlendir og innlendir, á mið, þar sem eru þær fiskigöngur, sem síðar sækja á þau nálæg mið fiskiflotans fyrir Norður- og Vesturlandi a. m. k., og koma beinlínis í veg fyrir það, að fiskurinn komi á svo nálæg mið, að það sé hægt að halda úti bátaútvegi með sæmilegum hætti. Þetta er búið að reyna í mörg ár, og það er náttúrlega ekki hægt að fullyrða það, að þetta fiskleysi á bátamiðunum sé af þessum ástæðum, en það eru miklar líkur til þess.

Þess vegna er það engum efa bundið, að ef ekki á að flytja fólkið burt af þessum stöðum og leggja atvinnutækin þar niður, er ekki um aðra möguleika að ræða en þá að reyna þessa leið. Því getum við svarað alveg hispurslaust, það er engin leið önnur til, sem bent hefur verið á, enda benti hv. 2. þm. Reykv. ekki á neina aðra leið.

Og þá kemur að þessu atriði um ríkisútgerðina. Vitanlega er alveg útilokað, að kauptún, — ég hef mörg kauptún í huga, sem eru orðin blásnauð vegna þess, að þar hefur verið aflabrestur mörg undanfarin ár á bátana, — það er alveg útilokað, að þessi blásnauðu kauptún, sem hafa orðið fátækari með hverju árinu, geti nokkuð lagt í togaraútgerð. Annaðhvort verður þess vegna að hætta við þessa leið eða að láta ríkið taka að sér reksturinn á þessum stöðum.

Það hníga því öll rök að því að velja þær leiðir, sem bent er á í frv., og virðist vera erfitt af þeirri reynslu, sem fengin er undanfarið og við þekkjum, sem höfum starfað fyrir þessi kjördæmi úti á landinu, að mótmæla því, a. m. k. komu ekki fram hjá 2. þm. Reykv. nein þau rök, sem hnekkja á nokkurn hátt því, sem borið er fram hér í þessu frv.

Það var spurt um það, og það er síðasta atriðið, sem ég vildi svara, hvort fengizt hefði lán til þess að kaupa þessa togara. Á það hefur ekki reynt enn. Það er vitanlega ekki hægt að leita fyrir sér til fullnustu um byggingu skipanna fyrr en frv. hefur verið samþ., og ég geri ráð fyrir því, að um lántöku verði með svipuðum hætti og verið hefur áður, þegar skip hafa verið keypt, að það verði leitað fyrir sér um lántöku í þeim löndum, þar sem skipin verða byggð, þannig að þetta tvennt, að leita fyrir sér með byggingu skipanna og með lántöku, verði að fara saman.

Það er ekki óeðlilegt, þó að það sé spurt um þetta atriði, því að það er staðreynd, að Íslandi hefur gengið mjög illa að fá lán þrjú síðustu árin. Erlendur lánamarkaður hefur verið svo að segja algerlega lokaður fyrir Íslandi í þrjú ár. Og án þess að ræða það atriði hér í sambandi við þetta mál, er þess ekki að dyljast, að ein ástæðan fyrir því, hvernig komið er okkar fjármálum innanlands, er sú, að lán hafa ekki fengizt núna undanfarin ár, svo að neinu nemi, og þess vegna hafa bankarnir verið píndir til útlána, til þess að framkvæmdir, sem ríkisstj. hefur haft með höndum, stöðvuðust ekki miklu meir en hófi gegnir, eins og bankarnir allir gáfu ríkisstj. sorglega skýrslu um, fyrstu dagana eftir að hún tók við völdum.

Ég get ekki sagt um þessa lánsmöguleika frekar á þessu stigi og sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni.