13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

11. mál, skipakaup

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Eins og oft áður hefur það komið fram í þessum umr., að hv. sjálfstæðismenn virðast vera mjög hikandi í grundvallarafstöðu sinni. Það hefur farið svo, að sá þeirra, hv. 2. þm. Reykv. (BÓ), sem ærið oft hefur sagt það, sem margir telja hinn sanna hug þeirra til slíkra mála, hefur tekið hreinlega og afdráttarlausa afstöðu á móti ríkisútgerð og andmælt henni. Síðan hafa flokksmenn hans reynt að mýkja yfir það, sem hann hafði gert, og draga í land. Þannig lét hv. 2. þm. Eyf. (MJ) sér nægja að segja, að ákvæðin um ríkisútgerð í þessu frv. séu varhugaverð. Afstaðan er sem sagt óljós. Það virðist vera svo, að í hjarta sínu vildu þeir helzt fá að vera og geta verið algerlega á móti þessu, en skynsemin segir þeim þó, að það sé ekki svo auðvelt að vera á móti því, vegna þess að vitnisburður og staðreyndir tala á móti þeim. Þarf ekki að benda á annað en það, að þessi sami flokkur sem hefur alger meirihlutaráð í höfuðstað landsins, Reykjavík, rekur þar langsamlega stærstu bæjarútgerð í landinu, — ég hef einhvern tíma heyrt sagt, að það sé stærsta bæjarútgerð í heiminum, þó að ég viti ekki sönnur á því.

Hvernig má það vera, að flokkur, sem sendir suma þm. sína hér fram til þess að ráðast algerlega á og andmæla bæjarútgerð togara og aðra til þess að benda þingheimi á, að hún sé varhugaverð, skuli sjálfur reka stærsta fyrirtæki togara í opinberri eigu í þessu landi, hafa gert það árum saman og að mörgu leyti vel? Ég þykist geta fullyrt, að þarna sé sama sagan á ferðinni. Þeir trúa ekki á þetta og vilja helzt ekki gera þetta, en hafa orðið að gera það vegna staðreyndanna. Þannig hafi t. d. bæjartogararnir í Reykjavik, a. m. k. á vissu árabili, þegar ég var ekki ókunnugur bæjarmálum í Reykjavík, verið til sölu, ef nokkurt einkafyrirtæki hefði fundizt, sem gat og vildi kaupa þá. En málið var þannig, að það hafði verið ákveðið, að Reykjavík skyldi fá eða berjast fyrir því að fá ákveðna tölu togara, ákveðið hlutfall af togaraeign landsmanna. Bærinn varð að taka það, sem einstaklingar ekki vildu eða gátu tekið. Einmitt þessi staðreynd sýnir það, að einkaframtakið í þessari iðngrein hefur algerlega brugðizt. Það hefur brugðizt svo hrapallega, að sjálfur Sjálfstfl. varð að setja á stofn stærsta opinbert fyrirtæki í togaraútgerð á Íslandi, til þess að Reykjavíkurbær missti ekki helminginn af sínum togaraflota. Væri það látið nægja, sem einkaframtakið gerir í þessum efnum, er ég hræddur um, að hv. 2. þm. Reykv. hefði ekki yfir svo mörg skip að líta í sínu kjördæmi eins og hann nú hefur.

Það eru mörg dæmi þess í rekstrinum, hvernig einkaframtakið hefur brugðizt í þessari atvinnugrein. Það voru bæjartogarar, sem fyrstir byrjuðu að landa fisk og láta frysta hann í frystihúsum í landi hér, enda þótt þá væru þannig aðstæður, að það var hægt að selja fiskinn erlendis úr togurunum með mjög góðum kjörum og allur þorri togara í landinu gerði það.

Mér er líka minnisstætt fyrir nokkrum árum, að á sama tíma sem togurum einkaframtaksins hér í Reykjavik var lagt við bryggjur, sigldu bæjartogararnir úr höfn til þess að leita að miðum á fjarlægum stöðum. Einkaframtakið harmar það og ræðst gegn því, að þessi atvinnurekstur færist fyrir þunga staðreyndanna smám saman meira yfir í opinberan rekstur, en þó hef ég ekki orðið var við það, að einkaframtakið hikaði við að taka við fiskinum af þessum skipum. Það eru meira að segja dæmi um, að einkaframtakið í fiskvinnslunni hafi fagnað því stórlega, að bæjartogarar lönduðu fiski, og hafi snúizt öndvert gegn því, þegar viðkomandi bæjarútgerð ætlaði sjálf að fara að skapa sér vinnsluaðstöðu, sem ekki var óeðlilegt.

Ég er hræddur um, að það þýði ekki að malda mikið í móinn í sambandi við þetta. Hvort sem sjálfstæðismönnum líkar betur eða verr, eru staðreyndirnar í atvinnulífi Íslendinga þær, að þetta er sú þróun, sem orðið hefur og er að verða. Það er ómögulegt að mótmæla því, að þetta er nú langsamlega efnilegasta leiðin til þess að auka atvinnu víðs vegar úti um landið, og það eru engin merki þess, að einkaframtakið ætli sér að vinna þetta verk. Hver á þá að gera það?

Ég vil aðeins að lokum fara nokkrum orðum um brtt. hv. þm. Borgf., sem hann gerði grein fyrir. Ég hafði — það er kannske barnaskapur haldið það, að þetta orðalag í frv. þýddi, að farið yrði eftir hinum gömlu fjórðungaskiptum, svo að ég taldi, þó að gott sé að hafa allan vara á, að Akranesi væri borgið. En ef svo er ekki, mundi ég styðja þetta mál hans og telja, að það væri rétt, að frv. yrði orðað eins og hann leggur til.

Það var sagt hér áðan, að þá væru þetta e. t. v. ekki jafnvægisráðstafanir lengur. En ég held, að slíkar ráðstafanir sem þessar verði fyrst og fremst að fara eftir því, hvernig atvinnuástandið er á hinum ýmsu stöðum á landinu. Það hefur verið svo undanfarin ár og er svo nú, að slíkar ráðstafanir þarf fyrst og fremst að gera fyrir þá landsfjórðunga, sem nefndir eru í frv. í sinni upphaflegu mynd, og þess vegna eru þetta sannarlega jafnvægisráðstafanir nú. En ef sams konar ástand skyldi skapast í þeim eina fjórðungi, sem er undanskilinn, sé ég ekki, að það sé stætt á því fyrir Alþ. eða hið opinbera að láta hann ekki sitja við sama borð. Þetta er því nánast varúðarráðstöfun, og ég tel, að það sé mjög erfitt að standa gegn því. Það er hyggilegra að búa svo um hnútana í frv., að það sé viss meinsemd í atvinnulífinu, sem eigi að lækna, hvar sem hún finnst, en að það eigi ekki að lækna vissa limi, hvar sem meinsemdin er.