13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

11. mál, skipakaup

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var nú ekki ætlun mín að lengja þessar umr., en ástæðan til þess, að ég stend hér upp, eru nokkur ummæli hv. 5. landsk, þm. (BG), sem reis hér upp með allmiklu offorsi, aðallega að því er virtist í þeim tilgangi að ráðast á sjálfstæðismenn fyrir afstöðu þeirra til ríkisútgerðar og jafnframt allt að því að hneykslast yfir því, að þeir hefðu lagt í það að setja hér í höfuðstaðnum á laggirnar bæjarútgerð, sem að því er hann taldi nú að mundi ef til vill vera sú stærsta í heimi — og sýnir það þá væntanlega stórhug flokksins — og taldi, að afstaða sú, sem hér hefði komið fram, sýndi, að Sjálfstfl. þyrði í rauninni í hvorugan fótinn að stíga í sambandi við rekstrarform á þessum skipum og, að því er mér skildist, opinberan rekstur yfirleitt. Þetta er á algerum misskilningi byggt. Það er grundvallarskoðun sjálfstæðismanna, að einkarekstur sé heppilegastur, rekstur einstaklinga eða félagasamtaka þeirra, og að opinber rekstur á almennum atvinnutækjum eigi þá fyrst að koma til, þegar getu einstaklinganna þrýtur. Hitt er allt annað mál, og þeirri stefnu hefur Sjálfstfl. framfylgt, og það er einnig með hliðsjón af þeirri stefnu, sem afstaða hans mótast til þessa máls, að ef einstaklinga og félagasamtök þeirra og enn fremur sveitarfélögin brestur getu til, ein saman eða í félagi, að efla atvinnulífið á viðkomandi stöðum, þannig að það velti nægilega atvinnu, þá telja sjálfstæðismenn sjálfsagt, að farnar séu aðrar leiðir og þá jafnvel, að gripið sé til þess, að ríkið, ef það eitt hefur til þess bolmagn, setji á stofn þau fyrirtæki, sem nauðsynlegt er talið að reist séu. Og það er skoðun okkar, og ég álít, að það sé heilbrigt, ef til opinbers rekstrar kemur, að þá séu það fyrr sveitarfélögin, sem hafi þar hönd í bagga, heldur en ríkið, sem byggist nákvæmlega á því sama grundvallarsjónarmiði og gildir varðandi rekstur einstaklinga og félaga, að það sé heppilegast, að þeir aðilarnir, sem eigi að njóta hlunnindanna, beri einnig ábyrgðina. Og af þeim sökum held ég, t. d. í sambandi við útgerð, ef til opinberrar útgerðar togara þarf að taka, að þá sé það undir öllum kringumstæðum heppilegra, að það séu bæjarfélögin, ef þau hafa til þess bolmagn og getu, heldur en ríkið, og það megi því fullkomlega segja, að það sé a. m. k. mjög óheppilegt, og jafnvel segja, að það sé neyðarúrræði, að ríkisvaldið sjálft þurfi að fara að gripa inn í slíkan rekstur. En sé hins vegar þannig ástatt, að þessu verði ekki fyrir komið, t. d. varðandi byggðarlög, sem ekki hafa neitt fjárhagslegt bolmagn til þátttöku í slíkum atvinnurekstri, þá má vel vera, að ekki sé annað fyrir hendi en að almannavaldið, ríkisvaldið, hlaupi þá undir bagga í því sambandi í einhverju formi. Ég sé ekki annað en að þetta sé í fullkomnu samræmi hvað við annað, þessi sjónarmið, vegna þess að grundvallarsjónarmiðið hlýtur að vera það, að byggt sé upp sem blómlegast og fjölþættast atvinnulíf. Og ég held nú sannast sagna, ef út í þá sálma á að fara, sem ég ætla ekki að gera í sambandi við þetta mál, því að það er hér ekki til umræðu, — að fara að gera samanburð á afskiptum sjálfstæðismanna og flokksbræðra hv. þm. af atvinnumálum og rekstri atvinnufyrirtækja, að þá sé það samanburður, sem ég treysti mér fyllilega til að fara út í við hann. Hitt er aftur á móti annað mál, sem hann og hans flokksbræður mættu gjarnan taka til athugunar, að það að hafa ríkisútgerð sem trúaratriði og yfirleitt ríkisrekstur, er sannarlega ekki heppilegt. Og kannske er einmitt þessi kennisetning hv. þm. og flokksbræðra hans, a. m. k. margra, — ég er nú ekki viss um, að þeir séu þar allir á sama máli, — um það, að fyrst og fremst eigi að hafa þjóðnýtingu í huga á öllum sviðum, skýringin á því, hvað Alþfl, er hér lítill, því að það má benda honum á það, að samherjar þeirra á Norðurlöndum t. d., þar sem þeir eru stærstu flokkarnir og valdamestu, hafa sannarlega allt önnur sjónarmið í þessum efnum en hér virðast koma fram og hafa komið fram fyrr og síðar hjá Alþýðuflokksmönnum hér,

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara að ræða um þjóðnýtingu almennt. Mér sýnist enda, að það sé meginatriði þessa frv., og það er staðfest af hæstv. forsrh., að það sé ekki ætlunin, að þetta eigi að sýna neina viðleitni í þá átt að taka upp allsherjarríkisrekstur á togurum. Og það var enn fremur staðfest af hv. þm. N-Þ. (GíslG), sem hefur, að því er mér skilst, unnið að verulegu leyti að undirbúningi þessa frv., að það sé alls ekki ætlunin að grípa til þessa úrræðis, nema ekki séu fáanleg samtök einstaklinga, félaga eða sveitarfélaga um það að taka sjálf að sér rekstur þessara togara. Og ef það er megintilgangurinn og meginstefnan, að það verði fyrst þrautreynt, sé ég ekki annað og get fyllilega tekið undir það, að það sé um heilbrigða og skynsamlega stefnu að ræða.