13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

11. mál, skipakaup

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hefur nú ekki ýkjamargt komið fram við þessar umr., sem ég þarf að svara. Yfirleitt hafa flestir þeir, sem talað hafa, verið samþykkir frv., a. m. k. í öllum aðalatriðum, þó að þeir á ýmsan hátt hafi litið nokkuð mismunandi á málið.

Ég skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um ræðu hv. 2. þm, Reykv. (BÓ), sem talaði hér fyrstur og mér fannst svona berast á bárum, vera hvorki hrár né soðinn, vilja ekki tala á móti frv., en vera það þó í hjarta sínu, láta í ljós mikla hræðslu yfir því, en telja það þó nauðsynlegt, þannig að það var ekki gott að vita, hver niðurstaðan af þessu varð. Þetta hefur þó skýrzt nokkuð í meðförunum hjá hv. 2. þm. Eyf. (MJ) og öðrum, sem hér hafa talað á eftir. Þarna kemur til greina eitt aðaltrúaratriði Sjálfstfl., sem sé afstaða þess flokks til þjóðnýtingar eða til ríkisrekinna fyrirtækja. Það væri út af fyrir sig kannske tilefni til nokkurra umræðna, en ég skal reyna að stilla mig um það og segja aðeins um það örfá orð.

Þetta kom mjög skýrt fram, það sem kalla má stefnu Sjálfstfl, í þessu máli, hjá hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem orðaði þetta á þann hátt, að Sjálfstfl. vildi því aðeins fara út í hinn opinbera rekstur, að einstaklingarnir fengjust ekki til þess að gera það. Þetta held ég, að sé svona nokkurn veginn rétt eftir haft, það sem hann sagði. En hvenær vilja einstaklingar fara út í hinn opinbera rekstur? Þeir vilja því aðeins fara út í hann, að þeir hafi eitthvað upp úr því. M. ö. o., þegar upp úr atvinnurekstrinum hefst, eiga einstaklingarnir að hafa leyfi til að reka hann, en þegar ekkert hefst upp úr honum og þegar tap fylgir honum, á það opinbera að fá að borga. Þetta er sú trúarsetning, sem hér hefur verið boðuð af hálfu Sjálfstfl., og hygg ég, að hún fari ekki langt frá því rétta um stefnu flokksins í málinu.

Það eru mörg fyrirtæki á þessu landi, sem verður að reka undir ýmsum og breytilegum kringumstæðum. Það geta verið tímabil, þar sem reksturinn gefur arð. Það geta verið önnur tímabil, þegar honum fylgir tap. Það getur líka verið óumflýjanlegt, að þessi rekstur haldi áfram, hvort sem honum fylgir tap eða gróði. En það erfiða í þessu er það, að einstaklingurinn vill því aðeins fylgja rekstrinum fram, að það fylgi honum gróði, en þegar tapið kemur, leggur hann árar í bát og afhendir reksturinn til hins opinbera. Þetta er það, sem við Alþýðuflokksmenn og raunar miklu fleiri höfum átalið og teljum, að þar sem um áhættusaman atvinnurekstur sé að ræða, sem geti haft hættulegar afleiðingar, ef stöðvast, þá verði að vera tryggð skilyrði til þess, að reksturinn geti haldið áfram, næstum því að segja hvernig sem gengur í einhvern stuttan tíma, þannig að hagsmunum stórra hópa þjóðfélagsins sé ekki stefnt í voða með því að hann stöðvist, Ég held, að það muni verða heillavænlegast, þegar grípa þarf til þess, að það opinbera þurfi að hafa hönd í bagga með rekstrinum á tímum, þegar um tap er að ræða, að þá verði það einnig látið hafa hönd í bagga með rekstrinum, þegar von er um arð.

Ég skal ekki rifja hér upp neinar staðbundnar ástæður, eins og nokkrir þm. hafa gert hér í þessum umr., en ég get þó sagt frá því, að sú bæjarútgerðin á þessu landi, sem ég þekki bezt til, naut þess og nýtur þess enn í dag að hafa verið rekin á þeim tíma, þegar reksturinn gaf hagnað. Afkoma hennar í dag og möguleikar hennar til að standa undir þeim erfiðleikum, sem hún á að stríða við í dag, mundu vera miklu minni, ef hún hefði ekki verið til á þeim tíma, þegar starfsemin gaf arð.

Ég held þess vegna, að það eigi ekki að miða þessa starfsemi, togaraútgerðina, sem er ein líftaugin í þjóðfélagi okkar, við það, að einstaklingarnir einir verði þar til þess að annast reksturinn, því að því aðeins geta þeir gert það, þannig að þjóðfélaginu sé borgið undir þeirra forsjá, að þeir líka taki á sig skyldurnar til að annast reksturinn, þegar hallar undir fæti.

Hv. 2. þm. Reykv., sem talaði hér fyrstur, virtist vera einna allra hræddastur þeirra, sem hér hafa komið fram í umr., við þetta rekstrarform, og sagði eitthvað á þá leið, að bæjarútgerðir væru yfirleitt alltaf illa reknar og ríkisútgerð mundi verða rekin með eindæmum. Ekki veit ég, hvaðan honum kemur sú vizka, því að ríkisútgerð hefur nú ekki enn verið reynd hér á landi, og um rekstur bæjarútgerða yfirleitt held ég að ég megi segja það, að rekstur þeirra hafi ekkert farið verr úr hendi en þar, sem einstaklingar hafa fjallað um fyrir hönd sjálfra sín eða þröngs hagsmunahóps, sem í sambandi við útgerðina hefur staðið.

Annars var það ekki ætlun mín að fara út í það við þessa umr. að gera nein skil þeim skoðanamun, sem er á milli Alþfl. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar á opinberum rekstri. Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) getur gjarnan skemmt sér við það, ef hann telur það við sitt hæfi, að telja það eina af ástæðunum til þess, hvers vegna Alþfl. hefur ekki vaxið, eins og ástæða væri til að ætla, að hann hefði gert. Ef hann heldur, að það sé vegna þess arna, þá hann um það, ég skal ekkert við hann deila um það. En ég vildi aðeins láta koma hér fram þessa mjög skýru línu um afstöðu Sjálfstfl. til hins opinbera rekstrar, að einstaklingarnir mega eiga hann, þegar vel gengur, en það opinbera, bæirnir og ríkisheildin, mega eiga hann, þegar illa gengur.

Annars tók ég sérstaklega til máls vegna þess, að mér þótti hv. 9. landsk. þm. (ÓB) koma hér fram með hugsun, sem ég hafði ekki búizt við, eftir því sem afstaða hans var í fjhn. Hann virðist nú leggja til, þó að hann hafi ekki opinberlega gert það að till. sinni enn, en lét það í ljós, að hann mundi vera helzt á því að greiða 4. gr. frv. ekki atkv., þannig að út úr frv. væri tekinn sá möguleiki, sem þar er gefinn fyrir ríkisstj. til að stofna til hins opinbera rekstrar. Þetta finnst mér svo mikið atriði, að ég vildi hafa látið það koma fram í n., ef það á að verða ofan á sem hans afstaða, því að þetta breytir alveg eðli málsins. Ég hef fyrir mitt leyti litið svo á, að með þessu frv. væri ríkisstj. heimilað að stofna til ríkisútgerðar togara og það væri ætlazt til þess, að hún gerði það, en ekki, að það væri aðeins haft í bakhöndinni, ef allt þryti annað um það að koma togurunum út. Ég hafði skilið frv. þannig, að til þessarar ríkisútgerðar yrði stofnað alveg ákveðið með samþykkt þessa frv. til þess að greiða úr vanda þeirra staða, sem eru þess alls ómegnugir að fá lausn sinna mála á annan hátt.

Það er hér gert ráð fyrir því, að þeir, sem togarana kaupi, verði að leggja fram annaðhvort 10% eða 15% af stofnkostnaði skipanna. Ef gert er ráð fyrir því, að skipin kosti í kringum 10 millj. kr. hvert, sem sjálfsagt er þó of lágt áætlað, verður það a. m. k. 1½ millj. kr. á hvert skip, sem þarf að ná saman af hlutaðeigandi stað, til þess að geta orðið kaupandi að skipinu. Ég er nærri viss um, að minnsta kosti eins og möguleikarnir eru til lánsútvegana í dag, að það mundi vera ofvaxið fjöldamörgum stöðum, sem þurfa á því að halda að fá þessi skip til þess að bæta úr atvinnuþörfinni á staðnum, að leggja fram þetta fé eða ná því saman á einhvern veg. Ég hef þegar af þessari ástæðu talið það sjálfsagt, að til ríkisútgerðarinnar yrði stofnað, hvort sem skipin væru seljanleg á annan hátt eða ekki, og ég vil, að sá skilningur minn komi hér fram og bann verði leiðréttur, ef þetta er ekki rétt skilið hjá mér.

4. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að til þessarar ríkisútgerðar togara verði stofnað í því skyni að hjálpa til um atvinnureksturinn á þeim stöðum, sem annars eru ómegnugir að tryggja sér það, að togararnir komi þangað á annan hátt, og ég tel, að það verði að liggja fyrir nokkuð ákveðið, að þetta sé meiningin, hvort sem sölumöguleikarnir eru á togurunum annað eða ekki.

Um það, hvort frv. liggi þegar fyrir um þessa ríkisútgerð, legg ég út af fyrir sig ekkert upp úr því. Hér er ríkisstj. aðeins gefin heimild til þess að stofna til þessa rekstrar, og framkvæmdin verður síðan ákveðin með lögum, sem Alþ. kemur sér saman um síðar, eða þegar frv. verður tilbúið af hálfu hæstv. ríkisstj. eða þeirrar n., sem hún hefur fallð að semja það. Mér finnst aðalatriðið vera það, að þessu verði slegið föstu þegar og að það geti hafizt sá undirbúningur, sem nauðsynlegur er til þess að hrinda málinu af stað.

Ég heyrði það, að sumir af hv. alþm., sem hafa hér talað um málið, voru í nokkrum efa um, að möguleikar væru fyrir hendi í fyrsta lagi til þess að útvega þau lán, sem þyrfti, og í öðru lagi til þess að útvega þá fyrirgreiðslu nægilega tímanlega í erlendum skipasmíðastöðvum, sem nauðsynleg væri til að koma þessu fram, og ég veit, að hvorar tveggja áhyggjur þessar eiga við nokkur rök að styðjast, þar sem bæði mun vera ekki alveg auðvelt að fá þau lán, sem þarf, og eins hitt, að skipasmíðastöðvar erlendar eru mjög uppteknar um þessar mundir. Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt að koma málinu fljótt áfram, til þess að ríkisstj. gæti farið að hefja þann undirbúning, sem hún varla getur hafið fyrr en þetta frv. er samþykkt.

Annað held ég að hafi ekki komið fram sérstakt í umr. um málið, sem ég sé ástæðu til þess að gera að umræðuefni.