22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

11. mál, skipakaup

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta til laga um heimild fyrir ríkisstj. til skipakaupa, lántöku og sérstakra ráðstafana í útgerðarmálum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins gengur mjög í sömu átt og frv. um sama efni, sem ég ásamt fleiri þm. hef verið þátttakandi í að flytja á undanförnum þingum.

Ég vil fagna því, að þetta mikla velferðarmál lands og þjóðar skuli nú loks vera orðið viðurkennt eitt meginatriði þess að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Jafnvægisnefnd gaf út í bók sinni mjög merkilegar upplýsingar varðandi hafnir og hæfni þeirra til löndunar á togarafiski. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við athugun á hafnarskilyrðum á Vestfjörðum kemur í ljós, að það eru aðeins sex hafnir, sem uppfylla þau skilyrði, sem nauðsynlegt er að séu fyrir hendi, til þess að um landanir úr togurum geti verið að ræða, Hafnir þessar eru Patreksfjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Ísafjörður. Aðeins helmingur þessara staða ræður nú yfir togurum, enda þótt þörfin sé eins brýn fyrir löndun á togarafiski á hinum höfnunum í hlutfalli við stærð þeirra. Úti fyrir Vestfjörðum eru einhver fengsælustu fiskimið landsins fyrir togara. Fjöldi togara þeirra, er þessi mið sækja, flytja aflann á fjarlæga staði og setja í það ærinn tíma og aukakostnað. Það er því óhætt að fullyrða, að Vestfirðingar hafa hér fremur verið veitendur en þiggjendur, þar sem bátamið fjarðanna hafa brugðizt, einkanlega eftir að landhelgin frá 1952 breyttist þeim í óhag.“

Það er misskilningur, sem fram kom í ræðu hv. þm. Ísaf. (KJJ), að ekki beri að leggja á það áherzlu, að togarar landi fiski, þar sem löndunarskilyrði eru til staðar. Í Ísafjarðardjúpi er fiskur fluttur í kauptún í nálægð Ísafjarðar aðeins fyrir það, að hafnarskilyrði eru þar ekki fyrir hendi, eins og skýrsla jafnvægisnefndar sannar um þar til hæfar hafnir á Vestfjörðum, eins og ég gat um áðan, Að frystihúsin eigi að kosta bifreiðakeyrslu á fiski yfir fjallvegi, er útilokað, bæði hvað kostnað snertir, svo og með öllu ófært í venjulegum snjóalögum um vetur. Bifreiðakeyrsla á fiski frá Ísafirði til Hnífsdals, Bolungavíkur og Súðavíkur, sem eru þó stuttar vegalengdir, er framkvæmd af því, að löndunarskilyrði eru ekki fyrir hendi á þeim stöðum. Hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem öðrum þræði talaði með frv. ríkisstj., tók togarann Norðlending sem dæmi með svofelldum orðum:

„Ég þekki dæmi um einn togara, sem gerður var út af fleiri stöðum .... í þrem kaupstöðum norðanlands, og ég held, að það fyrirkomulag sé mjög hæpið, vægast sagt, og það gefi ekki sérstaklega góðar vonir um, að sú skipan mála væri heppileg.“

Ég tek þessar tvær umsagnir hv. þm., vegna þess að ég tel, að þær séu andmæli gegn þeim kafla frv., sem ég tel þýðingarmesta atriðið í því, sem er 4. gr. og fjallar um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar og er árangur af flutningi okkar, er áður höfum hreyft þeim málum hér á Alþingi, og er sameiginlegt mál stjórnarflokkanna nú, sbr. stjórnarsáttmálann.

Togarar Austfirðinga, Austfirðingur og Vöttur, gegna dreifingarhlutverki sínu á fiski til frystihúsanna á fjörðunum með ágætum árangri. Um það er óþarfi að ræða í sambandi við þetta mál, að togaraútgerðin á við fjárhagsörðugleika að etja sem stendur, eins og sjá má af því, að stöðugt fer þeim einstaklingum fækkandi, sem áhuga hafa fyrir að reka þá atvinnugrein.

Hv. þm. Ísaf. virðist samkv. brtt., sem hann var að tala um að koma inn í 4. gr. frv., una glaður við sitt. Hann vill gefa fjársterkari aðilum forgangsrétt til að hljóta alla hina nýju togara, Í ræðu hans kom fram, að ríkisútgerð togara ætti ekki að eiga sér stað, nema því aðeins að ekki fengjust kaupendur að hinum nýju togurum. M. ö. o., þeir sætu fyrir skipunum, sem lagt gætu fram í stofnfé 1½ millj. kr. í hvern togara á móti ríkinu og treystust sjálfir til að gera þá út.

Þá kann ég fremur að meta ummæli hv. 2. þm. Reykv, (BÓ), án þess að ég sé honum sammála, sem sagði umbúðalaust, að hann væri á móti allri ríkisútgerð.

4. gr. frv. er svo hljóðandi:

„Ríkisstjórninni er, að fengnum tillögum atvinnutækjanefndar, heimilt að setja á stofn sérstaka ríkisútgerð togara í því skyni, að þeir leggi afla á land á Vestur-, Norður- og Austurlandi, sérstaklega á stöðum, þar sem ekki eru fyrir hendi fjárhagslegir möguleikar til þess að kaupa og reka togara, enda sé talið, að skortur á atvinnu á þeim stöðum hamli eðlilegum vexti þeirra. Um ríkisútgerðina fer að öðru leyti eftir lögum um ríkisútgerð.“

Ég tel, að ekki eigi að standa í gr., að ríkisstj. sé aðeins heimilt, heldur: ríkisstj. skal o. s. frv. — En í trausti þess, að núv. ríkisstj. leggi mjög fljótlega fram frv. um ríkisútgerðina, geri ég ekki ágreining út af þessu, Mér skilst t. d., að ef hv. 2. þm. Reykv. yrði staddur í sæti sjútvmrh., þegar lögin kæmu til framkvæmda, hefði hann fremur áhuga fyrir öðru en að setja á stofn ríkisútgerð togara, — enda þótt ég voni, að slíkt eða þvílíkt komi ekki fyrir á næstunni.

Annars er það trú mín og von, að frv. það um smíði á 15 togurum og sex 150–200 tonna fiskiskipum, sem nú verður væntanlega fljótlega að lögum, skapi tímamót í atvinnumálum íslenzku þjóðarinnar og með því sé lagður hornsteinn að raunverulegu jafnvægi í landsbyggðinni. Fjarlægðir eru að hverfa. Tækni tímans hefur breytt viðhorfi til fjarlægða. Einstaklingar og heil byggðarlög eiga að geta uppskorið hamingjusamt og ánægjulegt líf, hvar sem er á okkar fagra landi. Það verður bezt tryggt með skilningi og raunhæfu starfi þings og þjóðar að atvinnumálum hinna ýmsu byggðarlaga.