22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

11. mál, skipakaup

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið í þær umr., sem hér hafa farið fram, varðandi ríkisútgerð eða um það, hvort einum landshluta sé gert óeðlilega miklu hærra undir höfði en öðrum í því frv., sem hér liggur fyrir, en ég vildi leyfa mér, áður en þetta mál er afgreitt frá hv. d., að fara um það nokkrum orðum á víð og dreif.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ríkisstj., ef frv. verður að lögum, sem vænta má, veitt heimild Alþ. til þess að kaupa fyrir hönd ríkisins 15 togara eða allt að því og sex minni fiskiskip og taka lán til þessara kaupa erlendis. Gert er ráð fyrir, að skipunum, samtals allt að 21 talsins, verði ráðstafað til útgerðar, að fengnum till. atvinnutækjanefndar um það, hvar skipin skuli staðsett og hvert skuli vera hlutverk þeirra. Gengið er út frá því, að afli þessara skipa verði fyrst og fremst lagður á land á Norður-, Austur- og Vesturlandi, og er í frv. beinlínis tekið fram, að tillögur um staðsetningu skipanna skuli við það miðaðar, að með henni sé stutt að jafnvægi í byggð landsins.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, að ríkið endurláni kaupendum af láni því, er það sjálft kann að taka erlendis, allt að 90% af verði skipanna, ef um togara er að ræða, og allt að 80%, ef um minni fiskiskip er að ræða. Loks er svo í frv., 4. gr. þess, heimild til þess, að eitthvað af þessum skipum verði gert út á vegum ríkisins, og kem ég nánar að því atriði síðar. Gert er ráð fyrir, að athugaðir verði möguleikar á tilraun til togarasmíði innanlands í sambandi við framkvæmd þessa máls, og er ákvæði þess efnis í frv.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, er meginatriði þessa frv., rakin í stuttu máli, eins og það nú liggur fyrir. Ég hef leyft mér að rifja það upp nú, þó að það hafi komið áður fram í umræðunum, bæði í framsöguræðu hæstv. forsrh. við 1. umr. málsins og hv. frsm. fjhn. við 2. umræðu.

Eitt af því, sem mesta athygli vakti víðs vegar um land s. l. sumar við myndun núv. ríkisstj., voru þau ákvæði í stefnuyfirlýsingin stj., sem fjölluðu um jafnvægi í byggð landsins og sérstakar ráðstafanir til eflingar atvinnulífinu í nánar tilgreindum landshlutum. Ég ætla, að svo ákveðin yfirlýsing um þetta efni hafi ekki áður verið gefin af nýrri ríkisstj. eða stjórnarflokkum, enda var stjórnarmyndunaryfirlýsingunni s. l. sumar, eins og ég áðan sagði, áreiðanlega mikil athygli veitt. Mun þessi yfirlýsing og að sjálfsögðu hafa átt sinn þátt í því, hve stjórnarmynduninni var almennt vel tekið, ekki sízt í þeim landshlutum, sem hér eiga einkum hlut að máli.

Í þessari stjórnarmyndunaryfirlýsingu frá 24. júlí s. l. var m. a. svo að orði komizt: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að skipuleggja alhliða atvinnuuppbyggingu í landinu, einkum í þeim þrem landsfjórðungum, sem nú eru verst á vegi staddir í atvinnulegum efnum.“

Síðar segir í yfirlýsingunni, að botnvörpuskipunum 15, sem fyrirhugað sé að kaupa, „verði ráðstafað og þau rekin með sérstöku tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins“. Og á öðrum stað í yfirlýsingunni er ákvæði um, að „rafvæðingu landsins“ verði hraðað og „áherzla lögð á að auka ræktun og bústofn landsmanna.“

Um frv. það, sem hér liggur fyrir, hygg ég, að óhætt sé að segja, að ef það tekst að framkvæma þær heimildir, sem í því eru veittar, ef að lögum verður, þá er þar um að ræða eitt hið mesta átak, sem gert hefur verið til þess að stöðva fólksflutning úr byggðarlögum á Norður-, Vestur- og Austurlandi hér suður að Faxaflóa.

Samkv. skýrslum, sem gerðar hafa verið um mannfjölda í landinu á tímabilinu 1910–1953 í sambandi við athugun á röskun jafnvægis í byggð landsins, — en þessar skýrslur eru nú í höndum hv. þingmanna, — hefur þjóðinni í heild fjölgað um nálega 80% á því rúml. 40 ára tímabili, sem skýrslan tekur til, nánar tiltekið um 78.7%. Þetta er sem sé meðalfjölgunin í landinu á þessu tímabili. En í einstökum landshlutum er þessu allt öðruvísi farið. Á Norðurlandi öllu er fjölgunin á þessum tíma aðeins rúml. 35% í stað 80%, sem er fjölgun þjóðarinnar. á Suðurlandi er hún um 9%, á Austurlandi 1–2%, en á Vestfjörðum hefur fækkað um nálega 17% á tímabilinu og í Breiðafjarðarbyggðum um nálega 30%. Þá er einnig um fækkun að ræða á þessu tímabili í Borgarfjarðarhéraði norðan Skarðsheiðar. En í byggðinni við sunnanverðan Faxaflóa hefur fólkinu á sama tíma, þ. e. a. s. rúml. 40 árum, fjölgað um meira en 320%, eða nánar tiltekið 322,5%, Það þarf varla að taka fram, að þar sem fólksfjölgun hefur orðið utan Faxaflóasvæðisins, er fyrst og fremst um að ræða fjölgun á einum eða örfáum þéttbýlisstöðum, t. d. á Norðurlandi aðallega á Akureyri og þar nærri. Svipað er að segja um aðra landshluta, að þar sem um fjölgun er að ræða þar, er það aðallega á mjög takmörkuðum svæðum, þar sem þéttbýlt er, en annars staðar hefur fólksfjöldinn yfirleitt staðið í stað eða verið um fækkun að ræða og er það almennt í sveitunum.

En þessi er þá heildarsvipurinn yfir tilfærslu fólksins á tímabilinu 1910–1953. Á svæðinu við sunnanverðan Faxaflóa er 320% fjölgun, en í hinum aðallandshlutunum mesta fjölgun 35% og allt niður í nálega 30% fækkun.

Það er þessi stöðugi fólksstraumur í einn landshluta úr öllum hinum, sem miklu skiptir, að takast megi að stöðva sem fyrst með þeim ráðum, sem tiltæk eru. Með orðinu landshluti á ég þá við stór landsvæði, eitthvað í líkingu við þingin eða fjórðungana fornu. Það þarf að reyna að stuðla að því, að hver landshluti haldi sinum fólksfjölda hlutfallslega a. m. k., jafnvel þó að einhver tilfærsla verði þar innbyrðis, því að ef fólkið, sem yfirgefur æskuheimkynni sín, heldur yfirleitt áfram að safnast saman á takmörkuðu svæði í einum landshluta, myndast aldrei neitt viðnám í hinum landshlutunum, Þess vegna m. a. er það svo mikils virði frá sjónarmiði jafnvægisstefnunnar að hamla gegn brottflutningi fólks, heimamanna og aðfluttra, úr hinum mörgu smáu sjávarþorpum og bæjum á Norður-, Austur- og Vesturlandi, þar sem svo mikið er um slíka byggð á ströndinni, og stuðla að eðlilegum vexti þeirra. Og það, sem til þess þarf, er vitanlega fyrst og fremst að efla atvinnulífið á þessum stöðum, veita þangað fjármagni, fjölga þar atvinnutækjum, auka verkefni, sem skapa raunverulegt verðmæti og lífsviðurværi, helzt handa vaxandi íbúafjölda á hverjum stað.

Aðra hlið jafnvægismálsins, þá sem að sveitunum snýr, ræði ég af skiljanlegum ástæðum ekki sérstaklega í sambandi við þetta frv., heldur fremur í öðru sambandi. En það er á ýmsan hátt jafnframt til stuðnings nærliggjandi sveitum í þessum landshlutum, að bæir eða þorp, sem eru í sömu byggðarlögum og þær, séu efld og atvinnulíf standi þar með blóma. Hagsmunamál sveita og sjávarþorpa í þessum byggðarlögum eru mörg sameiginleg og kemur það oft betur í ljós, ef betur er að gáð, Má þar t. d. nefna samgöngumálin og raforkumálin, svo að augljós dæmi séu nefnd.

Bæirnir og þorpin við sjávarsíðuna á Norður- Austur- og Vesturlandi eru rúml. 50 talsins og byggja yfirleitt afkomu sína að verulegu leyti á sjávarafla, Á þessum stöðum hefur, sem kunnugt er, víða verið komið upp húsum og tækjum til hagnýtingar afla í landi nú í seinni tíð. En mjög víða er útgerð á þessum stöðum í það smáum stíl, að vinnslutækin eru ekki fullnotuð, og mikinn hluta ársins standa þau víða ónotuð. Þetta kippir undan þeim rekstrargrundvellinum, en hluta úr árinu leitar margt fólk sér atvinnu til Suðvesturlandsins úr þessum landshlutum, Sjávarþorpin fyrir norðan, austan og vestan ala þannig upp verulegan hluta af sjómannastétt landsins, sem sækir sjóinn á vetrarvertíðinni syðra, og leggur til einnig í landi fjölda af verkafólki, sem vinnur að verkun afla í hraðfrystihúsum og víðar. Og þá fer svo, sem vænta má, að eitthvað af þessu fólki sezt að syðra ár hvert og á ekki afturkvæmt til sinna heimkynna.

Ekki munu nýir togarar, þótt fengnir verði til landsins og dreift um það, samkvæmt efni og anda þessa frv. geta bætt úr þörf allra þeirra staða, sem hér er um að ræða. Sums staðar skortir í senn hafnarskilyrði og fólksfjölda, þ. e. a. s. fjölda vinnandi fólks, o. fl. til þess að slíkt megi verða. Og þess þarf að sjálfsögðu að gæta, að nýjar aðgerðir í atvinnumálum hafi ekki truflandi áhrif á þann atvinnurekstur, sem fyrir er, og á ég þar fyrst og fremst við smábátaútveginn á einstökum stöðum. Hér kemur ýmislegt til greina, sem vega þarf og meta í hverju tilfelli. En samkv. lauslegri athugun, sem fram fór í sambandi við röskun jafnvægis í byggð landsins og ég drap á áðan, virðast vera á Norður-, Vestur- og Austurlandi samtals um 30 hafnir, þar sem hægt er, eins og nú standa sakir, að leggja á land afla úr togurum. Skilyrðin eru þó mjög misjöfn á þessum stöðum, sums staðar er dýpið við bryggju í minnsta lagi eða bryggjupláss helzt til litið. Sums staðar vantar uppskipunartæki, svo sem lyftikrana eða bílvog, og sums staðar eru vinnslutæki eða verkunaraðstaða í landi ekki svo sem vera þyrfti, og er ekki stund eða staður til þess að gera grein fyrir því nánar hér. Það er rétt í þessu sambandi að minna á það, að það er víðast svo, að heppilegra mundi vera að binda sig ekki eingöngu við einstakar vinnsluaðferðir, t. d. frystingu, heldur þurfa yfirleitt á hverjum stað að vera möguleikar til fleiri verkunaraðferða jafnframt. En viðvíkjandi höfnunum og löndunartækjum og þess háttar má fá ýmsar upplýsingar í grg. þeirri, sem ég nefndi áðan, frá hinni svokölluðu jafnvægisnefnd, sem hefur verið útbýtt meðal þingmanna, þótt hún að vísu byggist á gögnum, sem safnað var fyrir tveimur árum, og væri að ýmsu leyti gerð til bráðabirgða. En væntanlega liggja fyrir um þetta efni fyllri upplýsingar frá atvinnutækjanefnd á sínum tíma. En það verður að gera ráð fyrir því, að óhjákvæmilegt verði að miða stærð a. m. k. sumra togaranna við hin sérstöku skilyrði í sumum höfnum, sérstaklega þar sem dýpi er minnst, að því leyti sem togaralöndun á annað borð kemur þar til greina.

Á sumum stöðum, sem hafa í sjálfu sér vinnuafl og allgóð tæki til vinnslu afla, eru það sérstaklega hafnarskilyrðin, sem nú eru því til fyrirstöðu, að þar sé hægt að taka á móti afla úr togurum. Að því verður að sjálfsögðu að stefna, að úr þessu verði bætt, en hafnarbætur taka alls staðar sinn tíma, Heimildina til kaupa á sex minni fiskiskipum, sem í þessu frv. felst, í 5. gr. þess, ber að sjálfsögðu fyrst og fremst að nota til þess að bæta úr þörf þessara staða, sem ekki geta í bráðina haft not af togaraútgerð. Þeir staðir verða að sitja fyrir þessum skipum, ef þörf þeirra krefur og aðstaða þeirra, t. d. vinnukraftur á staðnum, leyfir að öðru leyti, enda þótt komið geti til mála, að eitthvað af þeim skipum fari til annarra staða. Ég geng út frá því, að hæstv. ríkisstj. geri sér þetta fyllilega ljóst, enda um fyllstu sanngirni að ræða.

Um ríkisútgerðarákvæði frv. í 4. gr., sem er raunar aðeins heimildarákvæði, hefur verið rætt nokkuð hér í hv. d., bæði við 2. umr. og nú aftur við þessa umr. Ég geng ekki út frá því, að ríkisútgerðin verði hin almenna aðferð við útgerð þessara skipa. Flestir munu vilja treysta því, að það takist að skapa þann rekstrargrundvöll fyrir togaraútgerð hér á landi, að samtök einstaklinga eða bæjarfélög hafi áhuga fyrir að eiga togara sem og önnur stærri fiskiskip og hafa rekstur þeirra með höndum, ef kostur er á stofnlánum, sem nema miklum hluta af verði skipanna, eins og hér er gert ráð fyrir. En í hinum fámennari sjávarþorpum, með t. d. 300–500 íbúa, hygg ég þó, að möguleikar til þessa séu yfirleitt tæpast fyrir hendi. Þar er fátt um fésterka einstaklinga eða fyrirtæki, og þessi fámennu sveitarfélög eru lítils megnug og mega ekki við áföllum af stórrekstri í útgerð, jafnvel þótt aðeins sé um stundarsakir, en þörf þeirra er eigi að síður brýn, og ýmsir þessara staða eiga án efa mikla framtíðarmöguleika, þegar þeim vex fiskur um hrygg. Þessir staðir þurfa að geta átt þess kost, að togarar leggi þar fisk á land öðru hverju, þar sem það er hægt, einkum hluta úr árinu, og það verður naumast tryggt, nema um ríkisútgerð sé að ræða, sem innir af hendi þjónustuhlutverk við þessa staði í þágu þjóðfélagsins.

Þetta vil ég biðja þá menn að athuga, sem lýst hafa sig andvíga ríkisútgerð í umr. um þetta frv. hér í hv. d., bæði við 2. og 3. umr. Það er ekki ástæða til að ganga út frá því, að endilega þurfi að vera tap á slíkri útgerð, þó að tap sé á togaraútgerð nú. En jafnvel þótt um eitthvert tap yrði að ræða í bráð, verða menn að vera þess minnugir, að ætla má, að það kosti þjóðfélagið eitthvað í svipinn að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og það er það, sem menn nú yfirleitt telja sig vilja gera. En orð og áætlanir eru ekki einhlít til slíks, þó að gagnleg séu. Og framtíðin kann að dæma það gróða þjóðarinnar í ýmsum tilfellum, sem nútíðarmenn einhverjir vilja meta sem tap. Menn framtíðarinnar munu ef til vill skilja það betur en við gerum, að þjóðin verður að byggja land sitt, og það er hið minnsta, sem af henni verður krafizt sem þjóð.

Þetta frv. verður væntanlega samþ. hér á hv. Alþ., áður en langt líður, eftir undirtektum að dæma, en hér þarf að sjálfsögðu fleira til að koma, Fjármagnið til hinna fyrirhuguðu skipakaupa er enn ekki fyrir hendi, svo að kunnugt sé, og til þess að fá það mun þurfa mikið átak, ef dæma skal eftir því, hve erfiðlega hefur gengið að fá lánsfé erlendis nú síðustu árin.

Rekstrarvandamál útflutningsframleiðslunnar er enn óleyst til frambúðar, en sú lausn, þ. e. a. s, lausnin á vandanum innanlands, er að sjálfsögðu á valdi landsmanna sjálfra eða forustumanna þjóðarinnar á ýmsum sviðum. Það sýnir sig svo væntanlega, áður en langt líður, hversu áfram hefur miðað að leysa þann vanda og þar með að skapa skilyrði til þeirra framkvæmda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og margra annarra.