22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

11. mál, skipakaup

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að taka undir með hv. 2. þm. Eyf. um, að mér finnst það óviðkunnanlegt, að hvorugur þeirra ráðherra, sem mest hafa með þetta mál að gera, — á ég þar við forsrh. og sjútvmrh., — skuli vera viðstaddur þessar umræður. En mér kom þá til hugar, að ástæðan fyrir þessari fjarveru — svo að þess vegna ætla ég nú ekki að gera hans orð að mínum — og geri ráð fyrir því, að þeir, hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvmrh., standi nú báðir í samningum, miklum og mikilsvarðandi samningum. Og ég er þakklátur hæstv. forseta, að hann skuli þó gefa sér tíma til þess að halda fundi, þegar slíkar umræður fara fram.

Ég skal ekki tefja þessar umræður miklu lengur, en ég tók eftir því, að hv. þm, N-Þ. (GíslG), sem mjög fylgir þessu máli fast fram, lítur á aðalgrein frv., 4. gr., sem meinlausa heimild, sem þægilegt sé fyrir stj. landsins að geta stutt sig við. Og hann sagði, — ég held, að ég hafi tekið það orðrétt eftir honum, — að því beri að treysta, að sá grundvöllur verði fundinn, sem geri mögulegt fyrir félög, einstaklinga og bæjarfélög að stunda togaraútgerð í framtíðinni.

Þetta er ákaflega fallega sagt, en svo virðist sem hv. þm. hafi gleymt því, að hann er nú í samvinnu við tvo flokka, som hvorugur kærir sig um, að þessi rekstrargrundvöllur finnist. Hvorugur þessara flokka keppir að því, að rekstrargrundvöllur fyrir útgerðina finnist á þann hátt, að einkaframtakið geti staðið í þessum atvinnuvegi. Þvert á móti, þeir vilja koma atvinnurekstrinum á þann grundvöll, að ekki sé um neitt annað að ræða en ríkisrekstur.

Hv. 2. þm. Rang. (SvbH) gerðist hér allstóryrtur í sambandi við einkaútgerð togara. Því hefur að vísu hv. 2. þm. Eyf. svarað mjög skilmerkilega, svo að ekki er mikil ástæða fyrir mig að fara mikið út í það, sem hv. þm. sagði. En hann spurði: Hvar er meira sukk nú en í útgerðinni? — (Gripið fram í.) Þm. sagði: Það er hvergi meira sukk nú en í útgerðinni. (SvbH: Það er ósatt mál.) Ef hann vill leiðrétta sig, er honum það frjálst. (SvbH: Ég þarf ekkert að leiðrétta, ég var bara að leiðrétta þingmanninn.) En ég vil þá spyrja hv. þm.: Hvað veit hann um þetta? Hann er alls ekki inni í þessu máli. Og þar að auki, eins og hv. 2. þm. Eyf. tók fram, það er ekki lengur í einkaútgerðinni, sem sukkið gengur fyrir sig, sem hv. þm. minntist á. Það eru aðallega bæjarútgerðirnar. En ég get sagt hv. þm. það, að flest af þessum skipum, sem eru gerð út af einkafyrirtækjum, hafa verið prýðilega rekin. Og sum skipin hafa allt til síðasta árs verið rekin án rekstrarhalla. Svo segir hann: Þeir reka þetta allt í sukki, en koma svo og heimta, að ríkissjóður greiði allt tapið. — En af hverju heimta þeir það? Það er af því, að þeir hafa ekki sama rétt og bændur til þess að hækka verðið á gjaldmiðli afurða sinna. Þar liggur mismunurinn í þessu öllu saman. Ef bændum væri ekki heimilað að hækka verð afurða sinna í samræmi við hækkun dýrtíðarinnar, mundu þeir standa í nákvæmlega sömu sporum og útvegurinn stendur í dag. Útvegurinn stendur í dag í þeim sporum, að hann hefur ekki fengið að breyta gjaldmiðli afurða sinna í samræmi við vöxt dýrtíðarinnar. Það hafa bændurnir fengið. Ég segi það ekki þeim til lasts. Hjá því var ekki hægt að komast. En svo rís þessi hv. þm. upp og segir: Þessir menn lifa í sukki og koma svo til ríkissjóðs og heimta, að hann borgi tapið. — Mundi hann ekki fyrir hönd bænda, ef með þá væri farið á sama hátt, koma til ríkissjóðs, leggja sinn hnefa á borðið og segja, að hér væri ekkert um annað að gera en að borga bændum tapið? Hverjum mundi detta í hug að fara að væna þá um það, að þetta tap væri sprottið af því, að þeir rækju svo illa búskap sinn? Það dettur engum í hug. En þessum hv. þm. dettur í hug að bera á þá menn, sem standa að útgerð, að þeir lifi í sukki, vegna þess að ástandið hefur gert þeim ómögulegt að reka atvinnuveg sinn án taps. Það er tekinn af þeim gjaldeyririnn fyrir 50% lægra verð en hann ætti í raun og veru að kosta.

Þessi hv. þm. hefur verið talinn skörulegur forsvarsmaður bænda, En það situr illa á honum sem slíkum að koma með slíkar fullyrðingar sambandi við sjávarútveginn sem hann gerði ræðu sinni.