22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

11. mál, skipakaup

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég hef hér í raun og veru ekki miklu að svara þessum hv. þm., sem talað hafa og beint hafa nokkrum skeytum til mín vegna ræðu þeirrar, sem ég hélt hér áðan. Mér kemur þó eitt nýtt fyrir sjónir hér í þinginu, sem kemur fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf., að það sé farið að beita þeim röksemdum í þingræðum, til þess að berja niður sjónarmið annars þm., að segja: Þú hefur gert þetta sjálfur. — Ég hélt, að slíkar röksemdafærslur ættu heima úti á götunni hjá heldur óþroskuðum drengjum, en ekki hér inni í þingsölunum, og það held ég að séu alveg ný vinnubrögð hér á þingi, frá því sem ég þekkti hér áður, þegar hann var að tala um það, þegar ég ræddi um vinnubrögð Sjálfstfl. um að skipta sér oftast um mikilvæg mál í tvær fylkingar, þá segir hann: Ja, það eruð þið, sem gerið þetta. — Þessa röksemdafærslu kann ég ekki við hér í sölum Alþingis, nema það séu rök að því færð, en þau voru harla lítil.

Hann segir það, að í blaði okkar framsóknarmanna, Tímanum, sé haldið fram sinn daginn hvern þessum og þessum sjónarmiðum. Það má vel vera, að það sé. Ég vona það, að okkar blað sé það frjálslynt, að það loki ekki fyrir öllu nema einu sérstöku sjónarmiði, eins og er háttur einræðismanna og því um líkt. Ég vona það, að flokkur okkar verði svo lengi lýðræðisflokkur í þessu landi, að hann þoli að láta menn koma fram með sín sjónarmið, þó að þau séu ekki öll á sama veg, en það er það, sem ég held, að hv. þm. ætti að reyna að fá endurbætt í sínum eigin flokki gagnvart blaðakostinum.

Hitt er svo annað mál að standa að lausn þingmála sem flokkur, þar sem miklu ræður og miklu skiptir, hversu að þeim er staðið, að það sé líklegur sá flokkur til að koma fram miklum umbótum, sem venjulega skiptist í tvær svona nokkurn veginn jafnar fylkingar með og móti, til þess eins að gera á eftir sagt, eftir því hvort það reynist vinsælt eða óvinsælt, sem gert hefur verið: Ég var á móti, — eða: ég var með — og við vorum allra manna skeleggastir. — Þetta eru svo alþekkt vinnubrögð hér, að ég skil ekki í því, að það sé nokkur maður, sem yfirleitt lætur sér detta í hug að mæla því í gegn.

Þá sagði hv. 2. þm. Eyf., að ég hefði haldið því fram, að það ætti í raun og veru að leysa einstaklingsreksturinn alveg af hólmi með þjóðnýtingu. Það virðist vera sem hv. þm. Sjálfstfl., þessum sem talað hafa, sé ákaflega gjarnt til þess að snúa út úr því, sem sagt er. Ég man ekki betur en ég segði hér, að ég teldi, að svo væri nú komið rekstrargrundvelli útvegsins, — og ég ber það undir hv. þd., hvort svo er ekki, — að það væri ekkert að ófyrirsynju, þó að reynd væru fleiri rekstrarform, m. a. þjóðnýting á vissan hátt, heldur en þau sem nú eru, þar sem þjóðnýtingin er á svo hraðri leið yfirleitt með öll þau töp í þessum atvinnurekstri eins og verið hefur á undanförnum áratug. Það er þetta, sem ég sagði, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess fyrir Sjálfstfl. að vera í þessu máli að skipta sér nú í tvær fylkingar, vegna þess að það er áreiðanlegt, að þjóðin vill, að þetta sé reynt,

Hv. 2. þm. Eyf. sagði enn fremur, að einstaklingsreksturinn reyndist sízt verri núna en t. d. bæjarútgerðirnar, Nú, ef svo er, þá virðist vera sem ríkið sé að borga framlög að óþörfu. Þegar borgað er jafnt á alla togarana, sem reknir eru, og jafnvel mest á þá, sem fiska bezt, eins og með uppbótunum á fiskverðið, sýnist mér, að tími sé til kominn að reyna að hafa einhverja hönd í bagga með það, að hér sé ekki verið að greiða að óþörfu, og ef einstaklingsreksturinn er svona miklu betri, þá held ég, að hann ætti að koma fram með, að hann kærði sig ekki um meira en hann þyrfti með.

Hitt skal ég fúslega játa, að ég man ekki til, að ég hafi neins staðar haft á móti því í þeirrí ræðu, sem ég hélt hér áðan, að rekstrargrundvöllurinn er vitanlega mjög úr skorðum genginn, en það hefur margsinnis verið reynt að færa hann til betri vegar, og hefur að harla litlu gagni komið, enn sem komið er. Hitt hygg ég líka, að sé rétt, að það muni fáir einstaklingar vera utan Rvíkur, sem hyggja til þess að reka togara og telja sig hafa aðstöðu til þess. Hins vegar er dreifbýlinu alveg nauðsyn á því viða úti um landið, að togarar séu reknir og reynt sé að bæta skilyrðin til þess rekstrar úti um hinar dreifðu byggðir í landinu. Og þess vegna er sjálfsagt, að þessi heimild sé nú hér gefin, þar sem enginn einstaklingur einu sinni reynir orðið, að ég held, — kannske með einni undantekningu — að gera út úti um hinar dreifðu byggðir landsins annars staðar en hér frá Faxaflóa, þar sem hagkvæmast virðist vera vegna ýmissar aðstöðu að gera skipin út.

Ég held, að það geti ekki farið á milli mála, hvað ég sagði um þessi efni, og ég vil segja það, að ég held, að einstaklingsreksturinn, eins og hann er nú, sé ekki það eina fyrirmyndarform, sem eitt geti komið til greina til að leysa þessi mál. Ég held það.

Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) sagði, að ég hefði sagt hér, að það væri hvergi meira sukk en í sjávarútveginum eða togaraútgerðinni. Það er ósatt mál. Ég sagðist hafa grun um það og það mundu vera fleiri í landinu, sem héldu það, að það væri eitthvert nú, þegar hann var að tala um það áður í fyrri ræðu sinni, að það mundi verða slíkt sukk í rekstri togaraútgerðar, sem ríkið ræki, þá spurði ég hann beint að því, hvort það væri ekkert nú. Það er alveg óþarfi fyrir hann að vera að breyta þessum orðum mínum. Ég hygg, að þau hafi verið svo skýr sem verða mætti, og ég veit, að það eru margir fleiri en ég, sem hafa grun um það, að eitthvert sukk sé þar nú, ekki síður en hjá bæjarútgerðum og öðrum, þar sem hann vill nú halda fram, að sukkið sé meira.

Þá talar hann um það, hv. 2. þm, Reykv., að þessir erfiðleikar sjávarútvegsins stafi eingöngu af því, að sjávarútvegurinn hafi ekki getað fengið að hækka verð sitt á sama veg og bændur hafa fengið að verðleggja eftir því, sem fjárhagsástæður hafa verið í landinu að undanförnu, Ég veit nú ekki betur en það sé æði oft búið að hjálpa sjávarútveginum, ekki síður en bændunum. Fyrir hverja var gerð 70% gengislækkun á sínum tíma? Ekki höfðu bændur hag af því. Þeir urðu meira að segja að taka á sig byrðar vegna þess. Og ég held, að það séu æði margir, ekki tugir, heldur hundruð milljóna, sem búið er að leggja til þessa, og ég þekki ekkert það rekstrarform, ekki heldur hjá bændunum, og þeir vildu sjálfsagt ganga undir það að mega sjálfir gera reikningana og að ríkið borgaði allt tapið.

Það er háskalegur hlutur, álít ég, þegar farið er um áratugi inn á slíkt rekstrarform, og þó að ég, eins og ég sagði, væri ekki og hefði aldrei verið sérstaklega hrifinn af þjóðnýtingu á atvinnuvegum landsmanna sem einni allsherjarlausn, þá held ég, að þetta sé sú alháskalegasta þjóðnýting, sem hugsazt getur á einum atvinnuvegi, og hlýtur, eins og raunar er komið á daginn, að enda í strandi og vandræðum. Það er óhugsandi annað, þar sem ábyrgðin og vandinn er tekinn af einstaklingnum, en hann látinn gera sínar kröfur og ríkið greiða og bera ábyrgðina.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að svara í þessu efni. Þetta voru mest rangfærslur, og ég vona, að þessir hv. þm. fari betur með sinn málflutning og betur með orð þeirra annarra þm. en þeir hafa virzt vanda til núna, þessir tveir hv. þm. á undan mér.