27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. (PZ) talaði hér fyrir skemmstu meira frá hjartanu en heilanum. Hann lýsti því yfir, að að sínu viti þyrfti grundvöllurinn fyrst að finnast fyrir heilbrigðum rekstri atvinnutækjanna, áður en út í það yrði lagt að fara að kaupa togara. Ég vil nú spyrja hv. þm.: Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. flytur þá þetta frv. fyrst sinna mála, þegar Alþ. kemur saman, áður en hún hefur gert þingi eða þjóð nokkra grein fyrir því, hvaða leiðir hún ætlar að fara í efnahagsmálunum eða hvort hún hefur yfir höfuð nokkrar leiðir út úr þeim vanda, sem nú blasir við íslenzku efnahagslífi og kommúnistar hafa leitt yfir íslenzkt þjóðfélag, en ekki Sjálfstfl., eins og hv. 1. þm. N-M. vildi nú tæpa á, þó að hann ekki segði það alveg fullum fettum?

Mér skilst, að hv. 1. þm. N-M. hljóti að verða á móti þessu frv., vegna þess að hans eigin ríkisstj. hefur vanrækt að leggja fram till., jafnhliða eða áður en hún flutti þetta frv., um það, hvernig eigi að tryggja rekstrargrundvöll þessara tækja. Ég svaraði raunar þessari rödd, sem nú kemur frá hv. þm. N-M., hér áðan. Ég sagði, að það mundu vafalaust vera til menn, sem segðu: Ja, hvað þýðir að vera að kaupa ný framleiðslutæki, þegar ekkert framleiðslutæki ber sig? — En hvar værum við á vegi staddir, ef jafnan hefði verið þannig á málum haldið hér á Íslandi á undanförnum árum, þegar atvinnulífið hefur alltaf öðru hverju verið að sökkva í fen hallarekstrar og verðbólgu? Ætli við hefðum keypt mikið af nýjum skipum, togurum, vélbátum, verzlunarskipum? Ætli við hefðum byggt mikið af hraðfrystihúsum, ef við hefðum aldrei lagt í að kaupa neitt framleiðslutæki eða byggja það, nema hafa reksturinn tryggðan fyrir fram? Nei, ég er hræddur um ekki. Hins vegar er það svo auðvitað rétt, sem hv. þm. N-M. heldur fram og ég lagði áherzlu á í minni ræðu, að vitanlega verður að treysta því, að það takist að leggja heilbrigðan grundvöll að öllu atvinnulífi í landinu. Það verða hvorki togarar né önnur atvinnufyrirtæki rekin, ef það tekst ekki. En mér skilst, að kjarninn í ræðu hv. 1. þm. N-M. hafi verið stórfelld árás á hæstv. forsrh. fyrir það að leyfa sér að leggja slíkt frv. fram, áður en hann gerir þjóðinni grein fyrir því, hvernig hann ætli að tryggja rekstur þeirra.

Þessi ræða hv. 1. þm. N-M. hefur þess vegna snúizt upp í það að vera eina árásin, eina verulega árásin, sem gerð hefur verið á hæstv. ríkisstj. hér í þessari hv. þd. síðan þing hófst.

Um hitt atriðið, að sjálfstæðismenn vilji því aðeins opinberan rekstur, að einstaklingarnir geti ekki grætt nóg á atvinnutækjunum, vil ég aðeins skírskota til þess, sem ég sagði í minni frumræðu og var alveg nægilega ljóst. Ég sagði, að þó að sjálfstæðismenn teldu einkareksturinn og félagsreksturinn „principielt“ heppilegri en opinberan rekstur, hikuðum við samt ekki við að leggja út í hann, þegar þjóðhagsleg nauðsyn væri fyrir hendi. Við erum sem sagt ekki yfirleitt fylgjandi ríkisrekstri eða bæjarrekstri, en við bara viðurkennum þá staðreynd, að — ja, við skulum segja t. d. á Vopnafirði, í kjördæmi hv. þm., er ekki til nægilegt fjármagn til þess að kaupa og gera út togara. Ef það er hins vegar nauðsynlegt fyrir fólkið á þessum stað og skynsamlegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að þarna sé gerður út togari, hikum við sjálfstæðismenn ekki við að láta hið opinbera með einu eða öðru móti styðja þennan rekstur og kaupin á atvinnutækjunum. Það er þetta, sem hefur gerzt, það er þetta, sem gerðist, þegar nýsköpunarstjórnin keypti hina 32 togara, og þegar stjórn Stefáns Jóhanns beitti sér síðan fyrir því, að keyptir voru 10 togarar. Það var bara viðurkennd sú staðreynd, að ekki var til nægilegt fjármagn úti á landi til þess að gera þessi tæki út þar, og þá var ríkið látið hlaupa undir bagga.

Annars vil ég segja hv. þm. það, ef hann veit það ekki núna, að það eru vissulega fleiri bæjarfélög og opinberir aðilar, fleiri en ríkið, sem vilja gera út togara og kaupa togara núna. Ég get t. d. upplýst hann um það, að á einum stað á Vestfjörðum, í Ísafjarðarkaupstað, hafa núna verið stofnuð hvorki meira né minna en tvö togaraútgerðarfélög, sem vilja fá að kaupa togara, auðvitað með þeirri aðstoð, sem búizt er við að ríkið muni veita, en hvorir tveggja þeir aðilar, sem að þeim togarafélögum standa, reikna ekki með bæjarútgerð á þeim togurum, sem þangað koma, heldur einstaklingsútgerð. Annað fyrirtækið er stofnað af togarafyrirtæki, sem er fyrir á staðnum, og nokkrum öðrum aðilum, m. a. útgerðarmönnum í nálægum þorpum, í Hnífsdal, og hraðfrystihúsum á staðnum. Hitt togarafélagið er stofnað af Ísafjarðarbæ og nokkrum útgerðarfyrirtækjum á Ísafirði og í Súðavík, svo að ég sé ekki betur en að þrátt fyrir það að togaraútgerðin sé jafnhörmulega á vegi stödd og hún er nú, þá séu þó til einstaklingar og félög, bæjar- og sveitarfélög, sem vilja ráðast í kaup þessara tækja. Vegna hvers? Til þess að tapa á þeim? Nei, auðvitað ekki til þess að tapa á þeim, en þrátt fyrir það að fólkið viti, að við núverandi aðstæður muni verða tap á þessum tækjum, þrátt fyrir það. Menn eru bara með öðrum orðum reiðubúnir til þess að leggja á sig nokkrar fórnir til að ná í þessi stórvirku framleiðslutæki, til þess að tryggja afkomu sína og atvinnuöryggi. Auðvitað treysta þessir menn á það eins og ég, þegar ég er að tala hér á hv. Alþ. um þessi skipakaup, að hið opinbera muni á næstunni geta fundið leið til þess að koma íslenzkum atvinnurekstri á sæmilega heilbrigðan grundvöll og útrýma hallarekstrinum, sem er að færa alla útflutningsframleiðslu í kaf. Vitanlega treystir þetta fólk, sem er að hlaupa í kapp um það að stofna félög og bindast samtökum um að kaupa togara, á þetta.

Ég álít þetta, hvernig tryggja eigi atvinnutækin út á land, í raun og veru of mikið alvörumál til þess, að jafnglöggur maður og maður, sem hefur jafnmikinn skilning á þörf strjálbýlisins og hv. 1. þm. N-M., rjúki hér upp með pólitísk svigurmæli og svívirðingar um flokk eins og Sjálfstfl., sem sannarlega hefur haft alla forustu um það að dreifa þessum afkastamestu framleiðslutækjum út um landið, og það er alveg sama, hvað hæstv. forsrh. segir um það. Sú staðreynd liggur sannarlega fyrir, að það er fyrst með tilkomu nýsköpunarstjórnarinnar og kaupum hinna 32 nýju togara, sem útgerð togara hefst úti á landi.

Hæstv. ráðh. las hér upp lista, sem ég skal gjarnan lesa upp aftur eftir honum. Ég tók hann hér niður eftir honum. Reykjavík 16 togarar, Hafnarfjörður 5 togarar, það gerir 21 togara af 32. Nú, síðan kemur listi, sem hæstv. forsrh. las upp, það eru bara 11 togarar til staða utan Rvíkur og Hafnarfjarðar, sem svo að segja allir hafa ekki gert út togara áður. Það skiptir ekki máli, hvort það er Akranes eða Vestmannaeyjar. Þetta eru staðir utan Rvíkur, staðir, sem auðvitað þurftu á þessum atvinnutækjum að halda. Ég sé, að hv. þm. Barð. er að skjóta inn í: Akranes. Hvað, Akranes? Er það ekki staður eða hvað. (Gripið fram í: Faxaflói.) Faxaflói? Þarf fólk ekki að lifa þar líka? Þarf fólk ekki líka að hafa atvinnu þar? Hví skaut hv. þm. Barð. ekki inn í: Patreksfjörður. Ég veit ekki betur en að sá staður, sem er í hans eigin kjördæmi, hafi fengið einn togara af þessu. Það er kannske ekki fólk þar? Patreksfjörður. Býr fólk þar? Það er kannske fólk um kosningar, þegar hv. þm. Barð. þarf að fá atkvæði. Þá er það kannske fólk, en það er ekki fólk, þegar það þarf að fá togara.

Nei, ég segi: Þetta eru harla bágborin rök hjá hæstv. forsrh., ef það á allt í einu að vera ósatt, að nýsköpunarstjórnin hafi haft forustu um það að dreifa togurunum út um landið. Sjálfur les hann upp lista, þar sem stendur skýrum stöfum, að 11 sem sagt rúmur einn þriðji af togurunum, sem keyptir voru, hafi farið til staða utan Rvíkur og Hafnarfjarðar, þar sem togaraútgerðin hafði öll verið áður. Ég endurtek, að þetta er sannað, en það, sem ég sagði í upphafi máls míns í minni fyrri ræðu, var, að nýsköpunarstjórnin lét ekki fjármagnið ráða staðsetningu togaranna, eins og áður hafði verið, m. a. þegar hin fyrsta vinstri stjórn sat að völdum hér á landi. Hvað voru margir togarar þá keyptir nýir til þess að láta fólk, sem skorti atvinnu úti á landi, hafa atvinnu við þá? Vill hæstv. forsrh. svara því? Hvað voru margir nýir togarar þá fluttir til Íslands til þess að tryggja atvinnulausu fólki, sem hafði 150 kr. árstekjur, eins og fólkið í sjávarþorpunum á Vestur- og Norðurlandi hafði þá? Mér þætti fróðlegt að fá þær upplýsingar í ræðu hæstv. forsrh., ef hann talar að nýju hér um þetta mál við þessa umræðu.

Í sambandi við togarana, sem stjórn Stefáns Jóhanns svo hafði forustu um að fluttir voru inn, sem voru 10, vil ég svo upplýsa það, að þegar búið var að samþykkja kaup þeirra, sáu menn fram á, að það var of lítil aðstoð fyrirhuguð við kaup þeirra. Það var of lítil aðstoð fyrirhuguð við kaup þeirra, miðað við þá löggjöf, sem gilti um fyrri togarakaup. Og þá var það, sem gerðist hlutur, sem skar úr um aukinn stuðning við bæjar- og sveitarfélög í þessum efnum og eins í byggðunum úti á landi. Ég vænti, að hæstv. forsrh. muni eftir því, hvað gerðist þá. Þá gerðist það, að við tveir þm. Sjálfstfl. og Framsfl. fluttum till. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þar sem ríkisstj. var heimilað að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að þau bæjarfélög og þau sveitarfélög, þau byggðarlög, sem við atvinnuerfiðleika ættu að stríða, gætu komizt yfir einhverja af þessum togurum. Og hverjir vor það, sem fluttu þessa till.? Það var ég, sem var fyrri fhn. hennar, og hv. 2. þm. S-M., sem þá var nýkominn á þing, Vilhjálmur Hjálmarsson, ef ég man rétt. Þessi till. var samþ. og hún var flutt í samráði við hæstv. þáv. fjmrh. Ja, hún var flutt í samráði við ríkisstj., ég skal ekkert fullyrða um það nákvæmlega, við hvaða ráðherra var sérstaklega rætt um það, en ég man það, að það var rætt við Ólaf Thors og Eystein Jónsson, og það var í samráði við þá.

Nú veit ég, að hæstv. forsrh. man það, að einnig Rvík og ég held Hafnarfjörður fékk eitthvað af þeim togurum. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvernig það var. Það var sem sagt haldið áfram að framkvæma stefnu nýsköpunarstjórnarinnar, þegar hinir seinni nýsköpunartogarar, 10 talsins, voru keyptir, eftir að Framsfl. var kominn með í stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, en þá hafði það gerzt, sem við sjálfstæðismenn að sjálfsögðu fögnuðum mjög, að Framsfl. hafði snúizt frá sinni fyrri villu. Hann var orðinn sammála okkur sjálfstæðismönnum um það, að raunhæfasta atvinnubótin úti um land væri að tryggja fólkinu togara. Það er eins og hv. þm. Vestm. sagði hér áðan: Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hver afstaða Framsfl. var, þegar var verið að kaupa hina fyrri nýsköpunartogara. Hann barðist eins og ljón gegn því og lagði meira að segja áherzlu á það, eftir að búið var að ákveða að kaupa skipin, að það yrði seinkað kaupunum, að það yrði ekki hrapað að því að kaupa skipin. En hvað hefði það þýtt, ef það hefði verið dregið að kaupa eða semja um smíði nýsköpunartogaranna. Það hefði þýtt það, að afhendingartíma skipanna hefði stórlega seinkað og verðlag þeirra hefði hækkað stórkostlega, enda sáu allir menn það fyrir, að í lok stríðsins hlaut verð á skipum að hækka. Það hafði verið sökkt mörgum milljónum tonna af skipum mestu siglingaþjóða heimsins, og það hlaut að verða alveg geysileg ásókn á skipasmíðastöðvarnar. Þetta sáu forustumenn bæði á sviði stjórnmála og útgerðarmála hér á Íslandi. Þess vegna hröðuðu Íslendingar sér eins og þeir gátu undir forustu nýsköpunarstjórnarinnar til þess að semja um smíði togaranna, Ef ráðum framsóknarmanna hefði verið fylgt að því leyti, þá hefðu skipin komið hæði seinna og verið stórkostlega miklu dýrari.

Hitt má svo auðvitað alltaf deila um, sem hæstv. forsrh. minntist á, hvort ef til vill hefði verið hægt að fá enn þá fullkomnari skip en þessir nýsköpunartogarar voru. En það var á allra vitorði, að þegar nýsköpunartogararnir voru smíðaðir, voru það fullkomnustu togarar, sem smíðaðir höfðu verið þá, langsamlega fullkomnustu togarar, og það er líka rétt, sem hv. þm. Vestm. minntist hér á áðan í sinni ræðu, þegar hann var að svara hæstv. forsrh., að meðal íslenzkra útvegsmanna ríkti mjög mikil vantrú á dieseltogurunum. Menn þorðu bókstaflega ekki að ráðast í kaup á þeim. Það var að lokum bæjarútgerð Rvíkur, sem keypti — ég man ekki, hvort það eru tveir eða þrír dieseltogarar, sem hún á. En reynslan hefur sýnt, að þessi skip bera sig betur og eru hagkvæmari í rekstri. Sama má segja um togarann, sem Guðmundur Jörundsson keypti til Akureyrar og hefur reynzt afbragðsskip, mjög fullkomið og vandað. Auðvitað er að því geysilegur styrkur, að útvegsmenn og skipstjórar, sem sjálfir þekkja hvern krók og kima í skipum sínum, fylgist með smíði þeirra og leggi á ráðin um gerð þeirra, og það er það, sem gerðist m. a., þegar togarinn Jörundur var smíðaður. Það vita allir, að Guðmundur Jörundsson er frábær útgerðarmaður og þekkir alveg sérstaklega vel allt, sem að skipum lýtur.

Ég vil aðeins að lokum minnast á það, að hæstv. forsrh. sagði, að ég mundi vera farinn að trúa sjálfur spýtusögunni og það mundi vera farinn að verka á mig máttur endurtekninganna, sérstaklega vegna þess að ég er ritstjóri og blaðamaður. Mér liggur nú við að halda, að það séu fleiri en við, sem stýrum blöðunum, sem máttur endurtekninganna verkar nokkuð á. Ég held, að við, sem stöndum í hjaðningavígum og návígi íslenzkrar stjórnmálabaráttu, þurfum ekkert að vera að tileinka það blaðamönnum einum, að við treystum stundum nokkuð á mátt endurtekninganna. Við erum kannske allir sekir í þessum efnum. Mér datt eiginlega abbadísin í hug, þegar hæstv. forsrh. var að tala, abbadísin, sem sagði, eftir að uppgötvazt hafði höfuðfat hennar: Og allar erum við syndugar systur.

En um hitt, um spýtusöguna, vil ég segja það, að þar er ekkert verið að rangfæra. Hæstv. forsrh. sagði, að hv. þm. V-Húnv. hefði átt við verðbólgustefnu stjórnarinnar. Þetta er alveg spánný útgáfa, sem aldrei hefur verið endurtekin. Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi sjálfur talið, að hann hafi átt við það nefndahrúgald allt, sem tildrað hefði verið upp í sambandi við kaup skipanna. Í því sambandi sagði hann, að fyrst væri spýta, svo væri spýta, svo væri spýta upp og svo væri spýta niður og svo væri spýta í kross og svo færi allt í ganginn. Þetta er skýringin, sem hann sjálfur, hv. þm., hefur gefið á þessu. Hitt þarf svo ekki að lá neinum manni, þó að hann heimfæri þetta beinlínis upp á sjálf skipin, sem skoðun hv. þm. á þessum nýju og fullkomnu tækjum, sem mjög óvinsamleg og fjandsamleg ríkisstj. var að þröngva upp á þjóðina. Ég held, að það hafi einhvern tíma verið dregin hliðstæða, sem hefur verið fjarstæðari en þessi. Og þetta er alger misskilningur hjá hæstv. forsrh., að hv. þm. V-Húnv. hafi átt við með þessu verðbólgustefnu ríkisstjórnarinnar.

Nei, bókstafurinn blífur, og staðreyndirnar standa. Framsóknarmenn börðust eins og ljón gegn því, að þessi nýju tæki yrðu flutt til landsins, ekki bara meðan var verið að semja um kaup þeirra og smíði. Tíminn hefur, eins og ég sagði áðan, alveg fram á þennan dag talað um „sóun“, þegar hann hefur minnzt á þá fjármuni, sem varið hafi verið til togarakaupa. Hvað þýðir sóun? Þýðir það á almennu máli að verja fjármunum vel? Ég held ekki. Ég held, að þegar maður talar um, að fé sé sóað, þá eigi maður við, að því sé kastað á glæ, því sé eytt í vitleysu, enda kallaði hæstv. fjmrh., einn af aðalleiðtogum Framsfl., togarana „gums“. — Ég veit ekki, hvort það er nokkuð betra en að tala um spýtu í kross. Hæstv. forsrh. sá ekki ástæðu til þess að bera það til baka, að hæstv. fjmrh. hefði haft þessi orð, enda er það þýðingarlaust. Hæstv. fjármálaráðherra er líka maður til þess að standa við þessa skoðun sína.

En það bezta í þessu öllu er það, sem við sjálfstæðismenn megum fagna, að okkar ágætu vinir í Framsfl. eru búnir að sjá, að þeir höfðu rangt fyrir sér í þessu. Þeir höfðu rangt fyrir sér, þegar þeir voru að berjast gegn togarakaupunum, og bezta sönnun þess er það, að þeir tóku sæti í ríkisstj. einu ári síðar og tóku þar þátt í því að semja um kaup á tíu togurum til viðbótar. Og enn ein sönnun þess, að þeir hafa haft rangt fyrir sér, er það frv., sem hér liggur fyrir, þar sem ríkisstj. Framsfl., sú fyrsta, sem hann hefur forustu í nú um langt bil með hinum svokölluðu vinstri flokkum, lætur það verða sitt fyrsta verk að semja um kaup á nýjum togurum.

Það er alveg rétt, að við eigum kannske ekki að vera að deila svona um fortíð og nútíð og framtíðin á að vera aðalatriðið. En hv. framsóknarmenn hafa rætt svo mikið við okkur um fortíðina að undanförnu, að það má hver lá okkur sem vill, þó að við aðeins velgjum þeim undir uggum, þegar þeir liggja jafnvel við höggi og þeir gera í þessu máli. En ég vil segja það, að ég fagna því, að hæstv. forsrh. gengur nú fram fyrir skjöldu í baráttu fyrir togarakaupum. Ég vil að vísu láta í ljós harm minn yfir því, að hann lýsti því yfir hér áðan, að ekki væri búið að tryggja fjármagn til þeirra. Það er mjög miður farið, að ríkisstj. hefur ekki gert það enn þá. Auðvitað er ekki hægt að krefjast alls af henni í einu. Við skulum vera sanngjarnir við núverandi hæstv. ríkisstj, Hún á rétt til þess eins og aðrar ríkisstjórnir, að stjórnarandstaðan taki á málstað hennar af réttsýni og sanngirni. En ég vil að lokum segja það, að ég treysti því, að núverandi hæstv. ríkisstj. úthluti þessum skipum, þegar þau koma hingað til landsins, réttlátlega og skynsamlega út um landið, þannig að þau fari þangað, sem þörfin er mest, og að þau verði þannig að sem mestu gagni fyrir þjóðina. Það er aðalatriðið.