27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

11. mál, skipakaup

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls að þessu sinni, en hv. þm. N-Ísf. (SB) kom mér nú til þess, óviljandi kannske. Ég hafði auðvitað ekki mikið til saka unnið. Ég nefndi bara Faxaflóa og ekkert annað en Faxaflóa, og hann virtist þola þetta svo illa, af því að Akranes er við Faxaflóa og þangað fór einn togarinn, að hann spurði, hvort fólk væri hvergi til nema um kosningar, og vildi gefa í skyn, að ég áliti ekki fólk til í Barðastrandarsýslu nema um kosningar, og þangað hefði þó einn togarinn farið af þessum 33. — Ég vil bara leiðrétta þetta hjá hv. þm. Þetta er vafalaust misminni hjá honum. Patreksfjörður fékk engan togara af þessum 33, Eftir þeim lista, sem hæstv. forsrh. las upp hér áðan, var ekki neinn þeirra 33 togara seldur til Patreksfjarðar, heldur voru það tveir af tíu togurunum, sem keyptir voru seinna, ekki af nýsköpunarstjórninni, heldur stj., sem þar á eftir kom. Þá fengu Patreksfirðingar fyrst tvo nýja togara. Og þó var ekki verið að fjölga neinum togurum þar, því að Patreksfjörður átti tvo togara áður, annar þeirra fórst, hinn var seldur, og síðan komu þessir tveir í staðinn. Ég vænti þess, að þetta sé bara misminni, sem alla getur hent, og ég er ekkert að sakast um við hv. þm. N-Ísf.

En mér hefur skilizt á ræðum hans í dag og reyndar líka á ræðu hv. þm. Vestm., að það séu rangar sakir bornar á nýsköpunarstjórnina, að hún hafi ekki dreift atvinnutækjunum út um landið. Nú er búið að gera grein fyrir því, að af þeim 33 togurum, sem keyptir voru, fóru 25 til Faxaflóa og Vestmannaeyja, eða m. ö. o. til þeirra byggða í landinu, sem setið hafa að beztum atvinnuskilyrðum fram á þennan dag. Þrír fóru til Akureyrar, sem er höfuðstaður Norðurlands, svo að þótt það hafi verið nauðsynlegt, er það þó höfuðstaðurinn, þar sem kannske hefur verið bezt háttað um atvinnu. Þarna eru komnir 28. Og þá voru eftir fimm. En hvað fóru margir af þeim til Vestfirðinga, þessum 33? Eftir því sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, hefur það ekki verið nema einn. Og án þess að ég ætli að fara að sakast neitt um það við hv. þm. N-Ísf., verð ég að segja það, að ekki hefur verið of vel séð fyrir Vestfjörðum þá. Svo mörg kauptúnin eru nú í þessu héraði, allt frá Patreksfirði norður í Ísafjarðardjúp, að það er engin ofrausn, að þangað skyldi koma einn af 33. Og ég fullyrði það, að fólkið í þessum héruðum gerir sér vonir um betri útkomu af þeim væntanlegu 15 togurum nú en raunin varð á þá.

Ef þeim finnst lofsvert, þessum hv. þm. tveimur, sem hafa mjög lofað það víðsýni, sem stjórnaði gerðum nýsköpunarstjórnarinnar um dreifingu togaranna þá, það, sem þá var gert, eru þeir þá ekki alveg harðánægðir, ef þessum væntanlegu 15 togurum yrði nú dreift eins? Hafi allt verið í lagi með dreifingu togaranna þá, er þá ekki allt í lagi, ef þessum 15 verður dreift eins? Nei, það er nefnilega ekki tilgangurinn með þessu frv. að dreifa þeim eins. Nú á fyrst og fremst að fullnægja Vestur- Norður- og Austurlandi, þeim héruðum, sem öll þjóðin veit að hafa orðið út undan. Á því sést bezt, að þarna er talsverður mismunur á. Mér dettur ekki í hug, að hv. þm. N-Ísf. ætlist til þess, að þessum 15 togurum verði dreift eins og togurunum 33, sem nýsköpunarstjórnin stofnaði til kaupanna á. Mér dettur það bara ekki í hug. Og ef hann er mér sammála um það, sannar það, að ekki hefur verið gætt nægilegs jafnvægis í byggð landsins á þeim tímum.

Ég ætlaði að vísu ekki að fara að svara fyrir hv. 1. þm. N-M., en ég gat ekki heyrt, að hann væri neitt að ráðast á ríkisstj. með því, sem hann sagði. Ég gat ekki heyrt það. Hann sagði jú, að hann vildi, að tryggður væri fjárhagslegur grundvöllur þessa atvinnurekstrar, og það vita víst allir, að hann hefur viljað það um allan atvinnurekstur í þessu landi. En að hann væri beint að ráðast á ríkisstj., það fannst mér ekki. Alls ekki. En hafi það verið, hvernig er það þá með atkvgr. í hv. Nd.? Ég held, að ég muni það rétt, að hv. form. Sjálfstfl. og hv. form. þingflokks sjálfstæðismanna hafi báðir setið hjá og ekki einu sinni greitt atkv. með þessu frv., sem hv. þm. N-Ísf. segist sannarlega fylgja og þykir vænt um, að er komið fram, — svo að hv. þm. N-M. hefur þá eitthvað til samanburðar, ef hægt væri að segja, að ummæli hans hefðu verið árásir á ríkisstjórnina.