04.12.1956
Efri deild: 23. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

11. mál, skipakaup

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þegar hæstv, forsrh. fylgdi þessu frv. úr hlaði hér í d., skýrði hann allrækilega efni þess, auk þess fylgdi frv., þegar það var lagt fram, ýtarleg grg. Þar að auki urðu svo miklar umræður um málið við 1. umr, þess, þó að öll atriði, sem þar komu fram, kæmu ekki þessu frv. beinlínis við. Ég ætla því, að það sé tvímælalaust, að efni frv. sé öllum hv. þm. í d. ljóst og þurfi því ekki að ræða um það til skýringar. Frv. tók lítils háttar breytingum í hv. Nd., sem gengu út á það að draga nokkuð úr þeim ákvæðum, að sú framkvæmd, sem ráðgerð er í frv., væri fyrir þrjá fjórðunga landsins, Vestfirðinga-, Norðlendinga- og Austfirðingafjórðung, þannig að það kemur fram í frv., eins og það er nú, að það er ekki útilokað, að Sunnlendingafjórðungur geti einnig orðið aðnjótandi þeirrar aðstoðar, sem ráðgerð er samkv. frv.

Fjhn. tók þetta mál til meðferðar á fundi sínum 30. nóv., en daginn áður hafði frv. verið vísað til hennar. Þegar n. ræddi málið, stóð svo á, að einn af nm., hv. 6. þm. Reykv., var fjarstaddur, og voru því aðeins fjórir nm. á fundi. Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv., og um rökstuðning fyrir þeirri till. vísar hún einkum til grg. þeirrar, sem fylgdi frv. í fyrstu. Einn af þessum fjórum nm., sem þátt tóku í afgreiðslu málsins, hv. þm. Vestm., áskildi sér þó rétt til að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, og skrifaði hann undir nál. með fyrirvara, og nú hefur hann borið fram brtt, á þskj. 112, sem ég skal ekki ræða að svo stöddu, a. m. k. ekki fyrr en hann hefur gert nánari grein fyrir henni undir umræðunum. En mér virðist, að öll n., sem þátt tók í afgreiðslu málsins, sé einhuga um að mæla með frv. með eða án breytingar.